27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4224 í B-deild Alþingistíðinda. (3897)

364. mál, utanríkismál 1982

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er nokkuð langt um liðið síðan skýrsla hæstv. utanrrh. um utanríkismál var hér á dagskrá. Er þetta framhald þeirrar umr. Ég sakna þess reyndar, að hæstv. utanrrh. skuli ekki sjálfur vera við til að fjalla frekar um mál þetta, en hæstv. viðskrh. er hér í hans stað. Ég sakna þess líka, að hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson, skuli ekki vera við þessa umr., þar sem hann flutti mjög ítarlega ræðu hér þegar fyrri hluti þessarar umr. fór fram og drap þá á ýmisleg atriði sem nauðsynlegt er að fjalla frekar um í þessari umr.

Að venju kemur hæstv. utanrrh. víða við í skýrslu sinni og ástæða er til þess að fjalla um fjölmörg atriði sem hann hefur gert að umtalsefni. Það er þó ekki mögulegt nú frekar en venjulega þegar þessi skýrsla er á dagskrá hér á hv. Alþingi. Mun ég því takmarka mig við nokkur atriði.

Ég vil örlítið víkja að VI. kafla í skýrslu hans, þar sem hann ræðir um þróunarsamvinnu. Ég rifja upp af því tilefni að sumarið 1980 átti ég þess kost að ferðast um Austurlönd og koma m.a. til Indlands og heimsótti þar borgina Kalkútta. Íbúar í þeirri borg munu vera skráðir um 6 millj., en í raun búa þar rúmlega 11 millj. manns. Munurinn liggur í óskráðu fólki, ekki síst flóttamönnum frá Bangla Desh. Þetta fólk býr á götum borgarinnar, það eldar þar og sefur og lifir öllu sínu lífi þar. Ekki þarf að fjölyrða um að heilbrigðisástand er slæmt og barnadauði mikill og reyndar með ólíkindum að ganga þar um götur og sjá það eymdarlíf sem þar er lifað. Það hlýtur að hafa veruleg áhrif á hvern þann sem heimsækir lönd sem þannig er ástatt fyrir.

Síðar þetta sama ár sat ég Allsherjarþing Sameinuðu þ jóðanna í þrjár vikur eins og þm. gera. Þar var ég í nefnd sem fjallaði sérstaklega um aðstoð við þróunarríkin. Á dagskrá þeirrar nefndar var fjöldi tillagna. Þær skiptust aðallega í tvo flokka. Í fyrsta lagi voru það tillögur um neyðaraðstoð, bráða aðstoð vegna ýmissa náttúruhamfara, t.d. þurrka eða flóða, en í öðru lagi tillögur um þróunaraðstoð til lengri tíma til uppbyggingar atvinnulífs og efnahags hinna ýmsu þróunarlanda. Flestar þær tillögur, sem þarna voru á dagskrá, voru samþykktar. Þær fólu í sér veruleg fjárframlög af hálfu Sameinuðu þjóðanna til þessara þjóða. En það var athyglisvert, að Sovétríkin samþykktu allar þessar tillögur, en í hvert skipti sem til atkvgr. kom stóð upp fulltrúi Sovétríkjanna og gerði þann fyrirvara að Sovétríkin mundu ekki taka þátt í aðstoðinni, mundu ekki láta neina fjármuni af hendi rakna til aðstoðar við þróunarríkin. Þetta vakti nokkra athygli, en skýringin, sem gefin var, var sú, að hér væri fyrst og fremst um að ræða aðstoð til gamalla nýlenduríkja og vesturveldin eða Vesturlönd bæru fyrst og fremst ábyrgð á því, hvernig ástatt væri í þessum heimshlutum, og því teldu Sovétríkin enga ástæðu til að þau legðu neitt af mörkum til þess að bæta ástandið þar.

Ég er sammála því sem fram kemur í þessari skýrslu hæstv. utanrrh. um nauðsyn þróunarsamvinnu. Ég vil sérstaklega vitna í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstfl. um þessi mál, en þar segir, með leyfi forseta:

„Vegna hinna almennu frjálslyndu mannúðarviðhorfa, sem setja svip sinn á stefnu Sjálfstfl., hefur flokkurinn sérstökum skyldum að gegna við mótun skynsamlegrar stefnu gagnvart þróunarríkjunum. Aðstoð Íslands við þessi ríki hefur verið hlutfallslega lítil. Undanfarin ár hefur árlegt framlag til þessara mála numið 0.05–0.06% af þjóðartekjum. Íslendingar hafa þó skuldbundið sig, m.a. með lögum frá Alþingi, að stefna að því að 1% af þjóðartekjum verði varið til að sinna aðstoð við þróunarlöndin. Af siðferðilegum ástæðum ber Íslendingum skylda til að gera það sem í þeirra valdi er til að koma í veg fyrir að meðbræður þeirra í öðrum löndum og álfum svelti eða líði skort á annan hátt. Jafnframt skal til þess litið, að hagsmunir Íslendinga og þróunarþjóða falla saman með margvíslegu móti.

Áhrifum sínum á alþjóðavettvangi eiga Íslendingar að beita til að efla stuðning við þróunarlöndin og standa þar með einnig vörð um grundvallaratriði viðskipta og athafnafrelsis. Meta á hverju sinni hvaða leið er heppilegust og skilar mestum árangri við þróunarríkin og nýtir best fjármagn og mannafla af Íslands hálfu. Í því efni mun reynslan af aðstoð Íslands við Grænhöfðaeyjar vafalaust verða stefnumarkandi. Samhliða því, sem ríkisvaldið hefur þá forgöngu sem hæfileg og eðlileg er miðað við skipan þróunaraðstoðar á alþjóðavettvangi skal með ráðum og dáð hlúð að starfi þeirra aðila og félagasamtaka sem starfa að þróunaraðstoð.“

Svo segir í ályktun landsfundar Sjálfstfl. um þetta mál. Ég minni enn fremur á að ýmsir þm. Sjálfstfl. hafa haft verulegt frumkvæði hér á Alþingi um aðstoð við þróunarlöndin og þróunarsamvinnu. Nefni ég þar sérstaklega það frumkvæði sem fyrrv. hv. þm., prófessor Ólafur Björnsson, hafði hér á Alþingi um þetta efni.

Á bls. 8–9 í skýrslu utanrrh. er fjallað um afvopnunarmálin. Þar rekur hann m.a. ýmsar viðræður sem fram hafa farið um afvopnunarmál, m.a. viðræðurnar í Genf milli Sovétmanna og Bandaríkjamanna um meðaldræg kjarnavopn í Evrópu. Ég vil aðeins vitna í kafla í skýrslu hæstv. ráðh. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það er ekki síst hinar langdrægu og nákvæmu SS-20 eldflaugar Sovétríkjanna sem orðið hafa hvatinn af INF-viðræðunum í Genf. Ríki Vestur-Evrópu vöknuðu upp við vondan draum eftir að uppsetning þessara vopna var hafin á árinu 1977. Hófust þá fljótlega umræður innan Atlantshafsbandalagsins um viðbrögð við þessari nýju ógnun. Komu þau fram í tvíþættri ákvörðun ráðherrafundar NATO í des. 1979, annars vegar ákvörðun um að komið skyldi fyrir á nokkrum stöðum í Vestur-Evrópu 108 Pershing-II eldflaugum og 464 stýriflaugum, öllum búnum kjarnaoddi, en samtímis yrðu jafnmörg eldri kjarnavopn fjarlægð og 1000 kjarnaoddar til viðbótar. Hins vegar var ákvörðun um að Bandaríkjamenn byðu Sovétmönnum til viðræðna um takmörkun á kjarnaflaugum í Evrópu. Tilgangur þessarar tvíþættu ákvörðunar var að knýja fram samningaviðræður, enda lá fyrir að Atlantshafsbandalagið mundi ekki hefja uppsetningu hinna fyrstu af þessum vopnum fyrr en undir lok ársins 1983 og því nokkuð rúmur tími til viðræðna. Í þessu sambandi má geta þess, að nú munu Sovétríkin hafa um það bil 280 SS-eldflaugar með þrem kjarnaoddum hverja. Flestum er þeim bent að Vestur-Evrópu og ein ný bætist að meðaltali við í viku hverri. Hin þekkta rannsóknastofnun í hernaðarfræði í London (the International Institute for Strategic Studies) telur að kjarnavopnastyrkurinn í Evrópu í dag sé 3.27:1 sovétríkjunum í hag. Það, sem er enn alvarlegra, er þó sú staðreynd, að í meðaldrægum kjarnaflaugum á landi eru Sovétríkin nær einráð og þessir yfirburðir bætast við þá verulegu yfirburði sem Sovétríkin hafa alla tíð frá stríðslokum haft í öllum öðrum tegundum vopnabúnaðar.

Ekki þarf að taka það fram, að við Íslendingar styðjum heils hugar allar raunhæfar tilraunir til afvopnunar, en til þess að unnt sé að ræða þessi mál af hreinskilni verða menn að gera sér ljósa grein fyrir grundvallarstaðreyndum. Ófriðarhættu verður ekki bægt frá með einhliða afvopnun vestrænna ríkja. Þvert á móti kynni hún að aukast til muna ef út á þær brautir væri farið. Haldi vígbúnaðarkapphlaupið óheft áfram er voði vís. Evrópuríkin þurfa því að beita sér fyrir gagnkvæmri takmörkun vígbúnaðar. Markmiðið verður að vera að tryggja að ekki komi til nýrrar styrjaldar í Evrópu. Heimsstyrjöldin síðari kostaði tugi milljóna mannslífa og gífurlega eyðileggingu í Evrópu. Ný styrjöld, jafnvel þótt hún yrði háð án nokkurra kjarnavopna, gæti haft enn skelfilegri afleiðingar.“

Hér lýkur tilvitnun í skýrslu hæstv. ráðh. Ég er mjög sammála þeim skilningi sem hæstv. utanrrh. hefur þarna á þróun mála í Evrópu. Hæstv. ráðh. tekur alveg af skarið í skýrslu sinni um að ófriðarhættu verði ekki bægt frá með einhliða afvopnun vestrænna ríkja. Að mörgu leyti er þetta kjarni þeirrar umræðu sem nú fer víða fram um afvopnunarmál.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gagnrýndi mjög harðlega þennan kafla í skýrslu utanrrh., ekki síst þann þáttinn sem greindi frá kjarnorkuvopnastyrk í Evrópu, þar sem fram kemur að hlutfallið sé 3.27:1 Sovétríkjunum í hag. Allt væri þetta flóknara mál en svo að slíkum mælikvarða yrði beitt. Það er vissulega flókið mál að meta vopnastyrk og vopnabúnað stórveldanna. En hv. þm. fór þó í ræðu sinni af vettvangi Evrópu yfir í heimssamanburð í vopnastyrk samkv. upplýsingum sem um það hafa birst í blöðum.

Hvað sem segja má um styrk stórveldanna á heimsmælikvarða í hinum einstöku greinum vopnabúnaðar held ég að það sé þó staðreynd, sem flestum ber saman um, að Sovétríkin hafa yfirburðastyrk í Evrópu. Þetta kemur t.d. mjög glögglega fram nú þessa dagana í þeim miklu umræðum sem fram fara í Bandaríkjunum um frystingu eða „freezing“ kjarnorkuvopna, eins og það heitir, og skal ég nánar víkja að því hér á eftir. En þessir miklu yfirburðir voru grundvöllur ákvörðunar Atlantshafsbandalagsins í des. 1979 um að setja upp Pershing-II eldflaugarnar. Og það má líka hafa í huga, eins og hæstv. ráðh. bendir réttilega á í skýrslu sinni, að í Evrópu hafa Sovétríkin einnig gífurlega yfirburði í öðrum tegundum vopnabúnaðar en kjarnorkuvopnum.

Inn í þessa umræðu hefur blandast nokkuð starf friðarhreyfinganna sem reyndar hafa komið hér til umræðu á Alþingi áður í vetur. Það er enginn vafi á því, að innan þeirra hreyfinga starfar mjög margt góðra manna með einlægan friðaráhuga. Aðrir í þeim hreyfingum hafa þó vafasamari fortíð í þeim efnum, svo að ekki sé meira sagt. Það hlýtur að vekja nokkra tortryggni hve Sovétríkin hafa geysilegan áhuga á þessu starfi, hafa mikinn áhuga á að efla friðarhreyfingarnar í Vestur-Evrópu, og upplýst er í fleiri en einu landi að þau geri tilraunir til — og heppnist í sumum tilvikum a.m.k. — að fjármagna þessa starfsemi.

Nú er það svo, að í orði kveðnu eins og hér hefur verið bent á m.a. af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni — er gagnkvæm afvopnun beggja risaveldanna á stefnuskrá friðarhreyfinganna í Evrópu. Hins vegar er það svo í raun, eins og margsinnis hefur verið lýst, að eins og friðarhreyfingarnar starfa, með þrýstingi á vestræn stjórnvöld fyrst og fremst, þá er krafa þeirra fyrst og fremst krafa um einhliða afvopnun vesturveldanna, sem að sjálfsögðu getur stofnað friði í hættu, eins og hæstv. utanrrh. drepur réttilega á í skýrslu sinni. Reyndar eru sumir forustumenn friðarhreyfinganna í Evrópu heldur ekkert feimnir við að viðurkenna það, að þeirra hugur standi til einhliða afvopnunar, a.m.k. til að byrja með, ef annað reynist ekki fært.

Hér var t.d. á ferð ekki alls fyrir löngu einn helsti hugmyndasmiður friðarhreyfinganna í Evrópu, sagnfræðingurinn Edward Thompson. Hann mun reyndar hafa verið nú um helgina með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, eftir því sem Þjóðviljinn segir, á sérstökum fundi í Glasgow, þar sem þeir tveir voru fyrirlesarar og fulltrúar friðarsamtaka. Þessi maður, Thompson, fór ekki dult með hugmyndir sínar um einhliða afvopnun, þegar hann var hér á dögunum, en hann kom hingað til að stappa stálinu í hernámsandstæðinga, eins og sagt var á einum stað þegar getið var um komu hans hingað. Ég held reyndar að það hafi verið í tímariti Máls og menningar. Hann héli blaðamannfund og skrifuðu ýmis blöð um þann fund. Þjóðviljinn hefur t.d. eftir honum í helgarblaði sínu 27.–28. mars, með leyfi hæstv. forseta:

„Og þegar sagt er við okkur að einhliða afvopnun sé hættuleg hernaðarjafnvæginu, þá vísum við til þess, að tvíhliða samningar stórveldanna um þessi mál hafa staðið yfir 30 ár og ekki borið neinn árangur.“

Síðar í þessari frásögn er Thompson spurður að því, hvernig friðarhreyfingin standi að vígi í breska Verkamannaflokknum. Þá segir hann, með leyfi hæstv. forseta: „Allar friðartillögur fengu góðan meiri hluta á síðasta þingi flokksins og minnstu munaði að 2/3 atkvæða fengjust með einhliða kjarnorkuafvopnun og niðurrifi bandarískra herstöðva.“

Þarna er það alveg ljóst, að þessi ágæti maður — og reyndar fleiri honum samsinna — hafa barist fyrir því innan Verkamannaflokksins að einhliða afvopnun ætti sér stað, enda er það svo, að Verkamannaflokkurinn breski virðist vera að ganga af sjálfum sér dauðum. Í Alþýðublaðinu er skýrt frá þessum blaðamannafundi og þar eru höfð eftir þessum manni 23. mars. s.l. svohljóðandi ummæli með leyfi forseta:

„Allt tal um hættu, sem stórveldunum hvoru um sig kann að stafa af einhliða ákvörðun um samdrátt í framleiðslu gereyðingarvopna eða jafnvel fækkun þeirra, er gersamlega út í hött.“

Það fer því ekkert á milli mála að hér talar eindreginn postuli einhliða afvopnunar. Þessum manni var tekið með kostum og kynjum af Alþb. þegar hann var hér á ferð um daginn. Samtök hernámsandstæðinga héldu sérstakan fund með honum og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur sérstaklega vitnað til þessa manns og hefur nú verið á ferðalagi með honum til þess að prédika sín sannindi. En það er fróðlegt að huga að fleiri atriðum í skoðunum þessa aðalpersónugervings friðarhreyfinganna og Samtaka hernámsandstæðinga. Í tímariti Máls og menningar, 1. hefti 1982, eru ákaflega fróðleg bréfaskipti birt undir fyrirsögninni: Frelsið og sprengjan. Þar er um það að ræða, að Thompson hafði verið á ferðalagi í Tékkóslóvakíu og komið víða að lokuðum dyrum, eins og segir í Tímariti Máls og menningar, en eftir að hann fór þaðan ritaði tékkneskur maður honum bréf undir dulnefni þar sem hann mótmælir ýmsum þeim skoðunum sem Thompson hefur sett fram varðandi afvopnun og friðarmál, og segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki unnt að fallast á að þér skuluð ekki gera neinn mun á þætti blokkanna í „útrýmingu.“ Slíkt gefur til kynna hættulega einfeldni sem ekki er einstæð í vestri. Friðarhreyfing yðar (Baráttuhreyfing fyrir kjarnorkuafvopnun), sem byggir á þessari fræðilegu einfeldni, virðist því vera ómeðvituð hliðstæða við tilslakanir við fasismann á fjórða áratugnum. Yður kann að virðast þetta óréttmætt, en sem sagnfræðingur vitið þér væntanlega að ekki er allt sem sýnist.“

Síðar segir þessi tékkneski maður í þessu bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér skilst að vaxandi fjöldi borgara í vestrænum lýðræðisríkjum fylgist kvíðafullur með auknum vígbúnaði, sem hefði bein áhrif á lönd þeirra, ef til átaka kæmi. Þó verður afvopnunarhreyfingin, ef hún hefst handa og starfar samkv. þeim forsendum sem fram koma í pólitískum skrifum yðar, mjög áhrifaríkt afl, sem vinna mun óafvitandi í þágu alræðiskerfis sem stefnir að heimsyfirráðum, byggðum á afnámi allra mannréttinda.

Eftir fundinn í München hrópaði Chamberlain: „Ég hef verið svikinn.“ Þar komu í ljós vonbrigði manns er leitaði friðar, en átti með einfeldni sinni þátt í að stríð braust út. Marx ritaði í „Átjánda brumaire Lúðvígs Bonaparte“ að sagan endurtæki sig aldrei nema sem skrípaleikur. Ef litið er til þess, sem gerðist í München, sem samkv. skilgreiningu var skrípaleikur, yrði þetta augljóslega slíkur skrípaleikur í öðru veldi.“

Thompson svarar þessu í mjög löngu bréfi, þar sem hann beitir mjög flókinni og oft langsóttri röksemdafærslu, og mótmælir þeim hugmyndum eða þeim fullyrðingum sem þarna koma fram hjá hinum tékkneska manni. En það fer þó ekki á milli mála, að samúð Thompsons liggur mjög hjá Sovétríkjunum í þeirri baráttu sem hér fer fram. Ég vil leyfa mér að vitna í það sem hann segir í sinni grein, en þá vitnar hann reyndar til bókar, sem hann hafði ritað, og segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef gengið er eftir skoðun minni, leyfi ég mér að telja háska og ögrun sovéska ríkisvaldsins fremur beinast að eigin þjóð og þeim þjóðum sem byggja fylgiríki Sovétríkjanna. Stjórnendur Sovétríkjanna hafa lögreglu- og öryggissjónarmið að leiðarljósi, eru fangar eigin hugmyndafræði, vanastir því að mæta andstæðum sjónarmiðum með kúgun og skriðdrekum. En þó virðist mér sem Sovétríkjunum sé tamast að beita umsátri og ágengri vörn. Jafnvel hin ruddalega og klúðurslega íhlutun í Afganistan virðist stjórnast af ótta við hernaðaráætlanir Bandaríkjamanna og Kínverja.

Bandaríkin virðast mér vera sá aðilinn sem er háskalegri og meira ögrandi, og ríkjandi hernaðar- og utanríkisstefna þeirra þrengir að Sovétríkjunum með ógnandi herstöðvum. Það er miklu fremur í Washington en Moskvu sem menn velta fyrir sér ólíkum sviðsmyndum í „leikfangastyrjöldum,“ og það er í Ameríku sem gullgerðarmenn ofurdrápsins, hinir slyngu tæknifræðingar „yfirburða“ og úrslitavopna, knýja fram stjórnastefnu morgundagsins.

En við þurfum ekki að byggja athafnir okkar á því að taka aðra blokkina „fram yfir“ hina. Það er óraunsætt og gæti sundrað okkur. Það, sem mestu ræður, er sú orsakakeðja sem er sameiginleg og magnar ljótustu drættina í báðum samfélögum, og hrekur þau á hnignunarbraut í kjarnorkufaðmlögum.“

Hér lýkur tilvitnun. Ég held að það sé alveg ljóst af þessu m.a., hvar samúð Thompsons liggur. Hann telur að háski og ögrun sovéska ríkisvaldsins beinist frekar að eigin þjóð og þeim þjóðum sem byggja fylgiríki Sovétríkjanna. Hann notar orðið „fylgiríki Sovétríkjanna“ um öll þau ríki sem Sovétríkin hafa gegnum árin og áratugina tekið undir sig með valdi. Hann nefnir Ungverjaland, Pólland, Tékkóslóvakíu, Eistland, Lettland og Litháen fylgiríki Sovétríkjanna. Þess verður ekki langt að bíða, eftir þessari skilgreiningu, að Afganistan verði fylgiríki Sovétríkjanna. Og hver veit hvaða lönd næst komast í þann hóp, ef Vesturlönd slaka á þeim sameiginlegu vörnum sem þau hafa haft og hafa komið í veg fyrir frekari útþenslu Sovétríkjanna í Evrópu.

Ég sagði áðan að þrýstingur friðarhreyfinganna kæmi fyrst og fremst á stjórnvöld í Vestur-Evrópu. Það er að vísu látið að því liggja og um það birtast oft fréttir, m.a. í Þjóðviljanum í morgun, að hafður sé uppi þrýstingur á stjórnvöld í Austur-Evrópu í þessu sambandi, og minnst er á undirskriftasafnanir t.d. í Austur-Þýskalandi í Þjóðviljanum í morgun. Þeir, sem þekkja til í stjórnkerfi þessara ríkja, t.d. tékkneski bréfritarinn, sem ég vitnaði til áðan, og reyndar ýmsir aðrir vafalaust, m.a. ýmsir þm. hér á hv. Alþingi, vita að allt tal um slíkan þrýsting á stjórnvöld þar er hrein vitleysa. Slíkar hreyfingar fá að starfa og mega starfa meðan þær gera ekki of mikinn skaða, en hervaldi er miskunnarlaust beitt gegn þeim, ef þörf krefur, eins og dæmin sýna m.a. um Samstöðu í Póllandi. Þessari staðreynd breyta engar fjöldagöngur eða útifundir í vestrænum borgum. Þrýstingurinn getur haft áhrif á Vesturlöndum, honum er ætlað að hafa áhrif þar, getur hugsanlega leitt til einhliða afvopnunar vesturveldanna, sem er afar háskaleg fyrir öryggi Vestur-Evrópu. Og reyndar telja ýmsir stjórnmálafræðingar að þessi starfsemi hafi þegar tafið fyrir afvopnunarviðræðum, þar sem Sovétríkin telji að það sé rétt að bíða, halda að sér höndum og sjá hvað setur, hvort vesturveldin muni ekki hreinlega sjálf afvopnast vegna þrýstings innan frá.

Það þarf ekki mörgum orðum að því að eyða, að einhliða afvopnun vesturveldanna gerir að sjálfsögðu annan aðilann sterkari, þann aðilann sem um árabil hefur stundað grímulausa útþenslustefnu hér í Evrópu og mundi væntanlega ekki hika við að grípa inn í hvar sem tómarúm myndaðist á þessum slóðum, eins og gerist annars staðar í heiminum.

Að undanförnu hafa átt sér stað miklar umræður í Bandaríkjunum sem líkt hefur verið við þær friðarhreyfingar sem hafa verið starfandi í Evrópu og voru mjög áberandi s.l. sumar. Enginn vafi er á því, að grundvöllur þessarar hreyfingar í Bandaríkjunum er sá sami og hreyfinganna í Evrópu — og reyndar sá sami sem býr í hugum okkar allra, þ.e. hugsjónin um frið og að mannkyni verði forðað frá hildarleik styrjaldar. Hins vegar er verulegur munur á þessari hreyfingu í Bandaríkjunum og í Evrópu. Um það get ég sérstaklega hér að gefnu tilefni frá hv. 11. þm. Reykv. í umr. hér fyrir nokkrum vikum. Þessi hreyfing hefur allt annað yfirbragð í Bandaríkjunum. Baráttan þar hefur verið með miklu hæglátara yfirbragði. Þar hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á umræðufundi, kvikmyndasýningar, fræðslu- og bænastundir í kirkjum. Að vísu er nú fyrirhuguð allmikil ganga og mikill útifundur sem haldinn verður í New York 12. júní n.k. í tengslum við afvopnunarþing Sameinuðu þjóðanna, sem hefst fyrri hluta júní. En þessi hreyfing hefur þó haft á sér allt annað yfirbragð. M.a. hafa þeir í Bandaríkjunum losnað við það yfirbragð sem ýmsir kommúnistaflokkar í Evrópu hafa sett á hreyfinguna þar.

Það er annar mjög mikilvægur munur einnig sem rétt er að hafa í huga. Í öllum umræðum um frystingu eða „freezing“, eins og það heitir þar, og í öllum tillögum um það hefur höfuðáhersla verið lögð á tvíhliða samninga. Hugmyndirnar um einhliða afvopnun, sem er ákaflega grunnt á hjá ýmsum forsvarsmönnum friðarhreyfinganna í Evrópu, eins og ég gat um áðan og vitnaði til ummæla Thompsons, þær umræður hafa ekki átt sér stað í Bandaríkjunum. Tillögurnar þar eru fyrst og fremst tillögur um gagnkvæma stöðvun á framleiðslu og niðursetningu kjarnorkuvopna. Vitnað var til þess, að tveir þm. í öldungadeildinni bandarísku, þeir Edward Kennedy og Mark Hatfield, sem eru hvor úr sínum flokki, hafi flutt tillögu um þetta efni inn í bandaríska þingið. En það er eitt atriði mjög athyglisvert í þessum tillöguflutningi, sem m.a. hefur komið fram í yfirlýsingum sem hafðar hafa verið eftir Kennedy um þetta efni. Hann hefur lýst því yfir, að framkvæmd þessarar tillögu kalli á gagnkvæmt eftirlit. En þar yrði um að ræða algerlega nýtt spor í afvopnunaraðgerðum því að Sovétríkin hafa aldrei fallist á slíkt eftirlit hingað til. Tillaga þeirra er reyndar mjög umdeild í Bandaríkjunum. Og það er mjög athyglisvert fyrir okkur Evrópubúa, að helstu mótrök gegn tillögunni um frystingu á framleiðslu og niðursetningu kjarnorkuvopna eru þau, að Sovétmenn hafi slíka yfirburði í Evrópu að frysting nú mundi gera það að verkum, að þessir yfirburðir yrðu festir í sessi til óákveðins tíma. Þess vegna hafa ýmsir í Bandaríkjunum snúist gegn þessari tillögu, en jafnframt flutt aðrar tillögur um svipað efni, sem byggja á sömu hugmyndum, þ.e. afvopnun og fækkun kjarnorkuvopna, en hafa viljað fara öðruvísi að. Mér þótti rétt að gera þetta nokkuð að umtalsefni af sérstaklega gefnu tilefni frá hv. þm. Ólafl Ragnari Grímssyni.

Hv. þm. ræddi allmikið um kjarnorkuvopn í hafinu og hefur reyndar bæði hér á Alþingi og annars staðar svo og Alþb. og Þjóðviljinn tekið upp mjög mikinn áróður um það, að nú sé fyrirhuguð stórfelld aukning á kjarnorkuvopnum í hafinu umhverfis Ísland eða hér á Norður-Atlantshafi. Ég vil í þessu sambandi í fyrsta lagi rifja upp að áður en ákvörðunin var tekin í des. 1979 um að setja niður Pershing-II eldflaugarnar hjá Atlantshafsbandalaginu og að það verk skyldi hafið 1983, þá áttu sér stað miklar umræður um hvort setja skyldi niður þessar eldflaugar á landi eða í sjó, þ.e. hvort færa skyldi þær út í hafið. Þær umræður leiddu til þess, að ákvörðun var tekin um að þær skyldu settar niður á landi. Því réðu bæði tæknilegar og fjárhagslegar ástæður sem ég skal ekki fara nánar út í hér. Því var sem sagt hafnað að setja þessar eldflaugar niður í hafið.

Hins vegar er vafalaust eitthvað til í því, að starfsemi friðarhreyfinganna og mótmæli gegn því að setja þær niður á landi geri það að verkum að einhverjum a.m.k. dettur í hug að hægt sé að taka upp gömlu hugmyndirnar aftur og setja þessar eldflaugar niður í hafið, en þá er að sjálfsögðu fyrst og fremst fyrir að þakka þeim aðilum sem vilja ýta þeim frá sér, þ.e. þeim sem berjast innan friðarhreyfinganna í Evrópu. En því er ekki að leyna og við skulum horfast í augu við það, að það hafa átt sér stað umræður um aukinn vígbúnað á hafinu.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vitnaði í skrif Tímans í þessu sambandi og vitnaði sérstaklega í viðtöl sem blaðamenn Tímans hafa átt við stofnun sem heitir „Center for Defence Information“ í Bandaríkjunum. Þessi stofnun hefur ekki hingað til reynst áreiðanleg heimild um vopnabúnað á Íslandi. Það var þessi stofnun sem hélt því fram á sínum tíma, að líklegast væru kjarnorkuvopn staðsett á Íslandi. Það var þessi stofnun sem olli miklu umróti hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, hjá Alþb. og fréttastofu Ríkisútvarpsins, sem tók þessa frétt upp fyrir rúmu ári, þó að hún væri reyndar orðin gömul þá, og gerði mikið veður út af henni. Nú hefur þessi sama stofnun kveðið upp úr með það, að kjarnorkuvopn séu ekki geymd á Íslandi. Það eru engin ný sannindi fyrir okkur Íslendinga. En það hefði mátt búast við að þetta yrði alla vega tilefni til þess, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson eða einhver annar þm. Alþb. viðurkenndi nú, eftir þessari sömu heimild, að bæði hann, Þjóðviljinn og aðrir hefðu haft rangt fyrir sér á sínum tíma. En ekkert hefur heyrst í þá áttina. Hins vegar er nú að nýju byrjað að vitna til þessarar ágætu stofnunar í Bandaríkjunum um vígbúnað í hafinu og vitnað til viðtala sem Tíminn átti við forsvarsmenn stofnunarinnar þar sem segir, eins og Tíminn orðar það, að ráðamenn í Bandaríkjunum og hjá NATO hafi „íhugað þann möguleika vandlega“ að koma eldflaugum fyrir í skipum og kafbátum vegna andstöðu friðarhreyfinganna í Evrópu við kjarnorkueldflaugum í landi.

Þessu má ekki rugla saman, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert, við hugmyndir og áætlanir um aukningu bandaríska flotans. Þar eru vissulega uppi hugmyndir um að búa flotann eldflaugum eða stýriflaugum. En eldflaugar þurfa alls ekki að vera búnar kjarnorkuvopnum. Og það liggur fyrir að a.m.k. ekki nema í mjög litlum mæli er fyrirhugað að búa þessar eldflaugar, sem ætlunin er að setja í kalbáta og skip, kjarnorkuvopnum. Þetta á við flotann almennt, en ekki sérstaklega þann flota sem staðsettur er á Norður-Atlantshafi. Þetta á við um Kyrrahafsflotann, þetta á við um flotann í Indlandshafi og víðar, þannig að það eru ýkjur þegar því er haldið fram, að þessar áætlanir beinist sérstaklega að því að auka kjarnorkuvopnabúnað í skipum hér á hafinu kringum Ísland eða í Norður-Atlantshafinu.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði mikið úr því, að hæstv. utanrrh. skyldi ekki hafa minnst á þennan aukna vopnabúnað flotans í sinni skýrslu. Honum verður gjarnan tíðrætt um það, sem menn minnast ekki á í ræðum sínum eða skrifum, og leggur út af því. En ég tók sérstaklega eftir því, að hv. þm. minntist ekki í sinni ræðu á kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, sem var mjög mikið í umræðum t.d. fyrir ári þegar við ræddum um skýrslu hæstv. utanrrh. Ástæðan er augljós. Talið um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, þ.e. um einhliða yfirlýsingu Norðurlanda um kjarnorkuvopnalaust svæði par, hefur mjög fallið niður á Norðurlöndum eftir þá atburði sem þar hafa gerst. Þar má m.a. minna á kafbátinn sem strandaði í Karlskrona, sovéska kafbátinn sem var búinn kjarnorkuvopnum. Og í Danmörku og Noregi hefur hver atburðurinn rekið annan sem benda til þess, að Sovétríkin leggi verulegt fjármagn til starfsemi friðarhreyfinganna í þessum löndum, og skal ég ekki fara nánar út í það. En allt þetta hefur gert það að verkum, að almenningur á Norðurlöndum er auðsjáanlega búinn að sjá tengslin þarna á milli og því hefur sá mikli áhugi, sem virtist vera á tímabili fyrir einhliða yfirlýsingum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, mjög dofnað.

Það er athyglisvert í sambandi við umræður um utanríkismál hér, að allar ræður, t.d. Alþb., um vopnabúnað á Íslandi eða í kringum Ísland eða sem tengist Íslandi á einhvern hátt, eru mjög ýktar. Það kom m.a. fram í ræðu hv. 11. þm. Reykv. Ég átta mig ekki alveg á hver er tilgangurinn með þessu, nema ef vera skyldi sá sem Alþb. hefur boðað, að hafa uppi einhvers konar hræðsluáróður, að reyna að hræða Íslendinga frá þátttöku í varnarsamstarfi vestrænna þjóða. Það kann vel að vera að þetta sé liður í þeirri áróðursherferð. Ég er í engum vafa um það hins vegar, að þessi áróður, sem Alþb. heldur uppi hér, er gripinn á lofti í Sovétríkjunum og Sovétríkin telja sig a.m.k. í orði kveðnu draga af honum mjög miklar ályktanir. Þetta sjáum við hvað eftir annað í fréttum, sem berast hingað um fréttaflutning sovéskra blaða, hvort sem það er blaðið Rauða stjarnan eða Pravda. T.d. birtist í Morgunblaðinu fréttaskeyti frá Associated Press í Moskvu 8. apríl s.l. haft eftir málgagni sovéska kommúnistaflokksins, að Bandaríkjamenn væru að breyta Íslandi í sóknarstöð. Þeir rekja í þessari frétt sinni, að það hafi komið til alvarlegs ágreinings innan íslensku ríkisstj. vegna bandarísku herstöðvarinnar, og fullyrða „að samkv. því, sem segir í íslenskum blöðum, eru áætlanir bandaríska varnarmálaráðuneytisins þær, að við flugherstöðina í Keflavík skuli bætast herskipahöfn þar sem bandarísk herskip geta athafnað sig í framtíðinni. Með þessum hætti eru ráðamenn í Washington að reyna að auka hernaðarstyrk sinn á Íslandi undir margvíslegu yfirskini og þar með breyta eyjunni í marghliða sóknarstöð til að hrinda árásaráformum í framkvæmd.“ Þetta segir Pravda. Og hvaðan skyldi Pravda hafa þessar hugmyndir um að verið sé að breyta Íslandi í slíka árásarstöð? Þær heimildir, sem Pravda, málgagn sovéska kommúnistaflokksins, hefur, eru fyrst og fremst Þjóðviljinn og fyrst og fremst hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson.

Slíkar fullyrðingar, sem eru algerlega staðlausir stafir, eins og margoft hefur verið talað um bæði hér á hv. Alþingi og annars staðar, eru að sjálfsögðu til þess eins fallnar að leitast við að koma því inn hjá Rússum, að hér séu að eiga sér stað gífurleg hernaðarumsvif, sem er fjarri lagi. Það eitt út af fyrir sig er að sjálfsögðu ekki gert með íslenska hagsmuni fyrir augum.

Herra forseti. Ég læt nú senn máli mínu lokið. Við erum vafalaust öll á þeirri skoðun, að sú mesta hætta, sem steðji að mannkyni í dag, sé hættan á styrjöld og að heimurinn fari sér að voða í kjarnorkustríði. Og ég held að við séum öll sammála um að slíkt beri að forðast, því að afleiðingarnar yrðu slíkar að enginn getur séð þær fyrir. Menn kann að greina á um það, hvernig komið verði í veg fyrir slíka styrjöld. Við, sem aðhyllumst samstarf við vestrænar þjóðir, höfum verið þeirrar skoðunar, að tilvist Atlantshafsbandalagsins og samstarf við það hafi orðið til þess að varðveita frið í þessum heimshluta í þau rúmu 30 ár sem Atlantshafsbandalagið hefur starfað. Við vitum líka að hér er um að ræða vissa hugsjónabaráttu. Þetta er spurningin um stríðandi öfl í heiminum. Þetta er spurningin um það, hvort við viljum skipa okkur á bekk með vestrænum lýðræðisþjóðum og vernda það þjóðskipulag, sem við höfum kosið, eða hvort við viljum kalla yfir okkur það þjóðskipulag sem kommúnistaríkin viðhafa hjá sér, þjóðskipulag einræðis, ofbeldis og kúgunar, sem alltaf kemur fram fyrr en varir og við sjáum síðasta dæmið um í Póllandi nú á þessum vetri.