14.10.1981
Sameinað þing: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við beiðni hv. 1. þm. Vestf. um að gefa Alþingi skýrslu um stöðu þessara mála í sjávarútvegi. Ég verð hins vegar að biðja hv. þm. að meta það, að margt í þessum málum er nú á mjög viðkvæmu viðræðustigi milli seljenda og kaupenda og þar eru hlutir í gangi sem mér er vart unnt að skýra frá, enda á annarra vegum þó að það sé gert í samráði við okkur. En ég mun gera þetta eins ítarlega og ég tel nokkurn kost. En ég vil nefna það jafnframt, að ég hef óskað eftir fundi með sjávarútvegsnefndum Alþingis og vænti þess, að hann verði á morgun kl. 4, og þá mun ég dreifa þeim gögnum sem fyrir liggja um þetta mál. Ég vona að í því, sem ég segi hér, fái ég einnig svarað því sem er málefnalegt í ræðu og fyrirspurnum hv. fyrirspyrjanda áðan, hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Ég mun hins vegar leiða hjá mér stóru orðin hans. Ég vil bara segja það, að það er dálitið undarlegt að hlusta á þennan hv. þm. tala hér af slíkri kokhreysti nú. Ég sat í ríkisstj. með honum á annað ár, og það verð ég að segja, að ég hef ekki í annan tíma heyrt eða séð meiri vandræði í sambandi við sjávarútveginn. En ég leiði þessi stóru orð hjá mér og það er best að leyfa hv. kjósendum Alþfl. að dæma. Mér sýnist að þeir séu á góðri leið hvort eð er að gera það.

Í sambandi við fiskverðið vil ég fyrst minnast á nokkrar undirstöðuupplýsingar og tek þá fyrst botnfiskveiðar og vinnslu. Ég vil nefna það, að við ákvörðunina á fiskverði í júní s. l. var talið að frystingin væri þá rekin með halla sem næmi 2.5%. Þetta var mat Þjóðhagsstofnunar, vil ég taka fram, en fiskvinnslumenn töldu að hallinn væri nokkru meiri. Hins vegar, eins og margoft hefur komið fram, taldi Þjóðhagsstofnun að hagnaður af skreið og saltfisk væri mjög verulegur. Ég sé ekki ástæðu til að fara með þær fölur hér, en hann er mjög verulegur og taldi Þjóðhagsstofnun að heildarafkoma vinnslunnar væri vel fyrir ofan núllið. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, að það er alls ekki unnt að leggja algerlega til grundvallar slíkar heildarafkomutölur því að þetta er ákaflega breytilegt á milli landssvæða og húsa. Það er mjög breytilegt hvað saltfiskur er mikill og skreið, og reyndar er aðstaða til slíkrar verkunar ákaflega mismunandi um landið. Þess vegna hefur vitanlega slík heildarafkoma aldrei verið lögð fullkomlega til grundvallar, en hins vegar tek ég tillit til hennar og tel reyndar að það hafi verið óumdeilt að á hana yrði litið.

Frá því að þessi niðurstaða varð í júní hefur það hins vegar gerst, að afkoma frystingarinnar hefur stórlega versnað og er metið af Þjóðhagsstofnun að tap á frystingu sé nú mínus 6.7%. Hins vegar telur Þjóðhagsstofnun að svipaður hagnaður og áður var sé enn af skreið og saltfiski og að afkoma vinnslunnar í heild sé enn þá nokkuð fyrir ofan núllið. Menn hafa að sjálfsögðu athugað mjög vandlega hvernig stendur á þessari miklu breytingu hjá frystingunni þrátt fyrir hækkað verð á flökum á Bandaríkjamarkaði. Svörin við þessu eru ekki einhlít, það er margt sem þessu ræður. Skal ég nefna þar nokkur atriði.

Í fyrsta lagi hefur orðið verðfall á blokkinni á Bandaríkjamarkaði um kringum 8–10%, mismunandi eftir fisktegundum. Í öðru lagi hefur orðið veruleg röskun og breyting á gjaldeyrismörkuðum. Það hefur orðið, eins og hv. þm. þekkja, mikið verðfall á gjaldeyri Evrópulanda, en dollarinn hefur hækkað. Og staðreyndin er sú, að frystingin hefur í lok síðasta árs og byrjun þessa árs gert mjög ítarlega tilraun til þess að auka sína framleiðslu, sérstaklega í Bretlandi. Þegar birgðasöfnun varð á síðasta ári vegna tregðu í sölu á Bandaríkjamarkaði var lögð á það áhersla af hygg ég öllum aðilum, sem að því máli komu, að leitað yrði eftir aukinni sölu í Bretlandi, og við þessu brást frystingin að mínu mati á kröftugan hátt. Þessi sala jókst verulega. Hins vegar verður að segja eins og er, að breyting til baka varð hægari en menn höfðu gjarnan viljað á þessu ári þegar sú röskun varð í gjaldeyrismálum sem ég nefndi áðan.

Þjóðhagsstofnun metur að óhagstæð framleiðslusamsetning frystingarinnar þýði um 4% lakari afkomu hennar. Ef þetta er rétt er komin þarna sú verri afkoma sem nú er orðin miðað við það sem var í júní. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram, að allir eru sammála um að það er aldrei hægt að gera þær kröfur, að svona vinnsla geti hagað seglum algerlega eftir vindi og hlaupið frá einni vinnslu í aðra eftir því hvað gerist á gjaldeyrismörkuðum heimsins. Þetta kemur þarna aðeins fram sem skýring á verri afkomu. Jafnframt hefur því nokkuð verið haldið fram, að skortur á vinnuafli í sumar hafi valdið því, að ekki hafi verið unnt að nýta aflann eins og vera bæri í flök. Þetta hefur nú verið kannað nokkuð og er áreiðanlega nokkuð rétt. Það hefur verið minna af reyndum starfsmönnum í vinnslunni í sumar og orðið að nýta starfslið sem hefur ekki eins mikla reynslu og ekki eins mikil afköst og þá ekki ætíð hægt að koma miklu hráefni frá í það sem verðmætast er, en krefst mestrar vinnu. Ég get aðeins getið þess hér í þessu sambandi, að á fundi, sem haldinn var á Ísafirði nýlega, upplýsti Eyjólfur Ísfeld-og það var birt í blöðum — að aukin framleiðsla á Bretlandsmarkað í SH-húsum væri um 10% á fyrstu 8 mánuðum þessa árs og þar af reyndar á Vestfjörðum 60% aukning á milli ára, sem er náttúrlega gífurlega mikið. Skýringin á því með Vestfirðinga mun fyrst og fremst liggja í því, að mjög mikil framleiðsla á Bretlandsmarkað var á fyrsta hluta ársins, en menn gerðu sér ekki eins glögga grein fyrir því og síðar varð, að pundið félli svo mjög með tilliti til dollarans. Slík er því afkoma frystingarinnar þegar nú er sest niður til að ákveða fiskverð, og ég vil svo minna hv. þm. á það, sem vitanlega er öllum ljóst, að Verðlagsráði ber að ákveða fiskverð eftir ákveðnum leiðum sem þar eru farnar og ég vil fullvissa hv. fyrirspyrjanda að það hefur engu verið breytt um meðferð í Verðlagsráði í þessu máli frá því að hann sat í þessum stól eða hv. þm. Matthías Bjarnason. Það hefur verið unnið á nákvæmlega sama máta. Þar hafa vitanlega í samráði við ráðh. og á stöðugum fundum með þessum aðilum, þegar í vandræði er komið, verið lagðar fram upplýsingar Þjóðhagsstofnunar, þær skoðaðar af báðum aðilum eins og frekast er unnt og um þær upplýsingar fjallað. Á þessu hefur ekki verið nokkur minnsta breyting. Ég hef rætt það við forstöðumann Þjóðhagsstofnunar og fengið hjá honum þær upplýsingar sem sannfæra mig um að þar er ekki nokkur breyting á. Í Verðlagsráði hefur það gerst að seljendur hafa lagt fram tillögur um 9% fiskverðshækkun, en kaupendur hafa ekki lagt fram neina tillögu og hafa borið því við, að svo mikil breyting hafi orðið á grundvelli frystingar af þessum ástæðum, sem ég rakti áðan, og afkoma hennar svo slök að þau mál þurfi að athuga miklu betur en gert hefur verið.

Sú athugun hefur farið fram og viðræður hafa að sjálfsögðu verið tíðar við þessa menn og síðast í gær átti ég ásamt forsrh. fund með fulltrúum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Áður en ég kem að því sem þarna má gera vil ég hins vegar nefna það, að ítarleg skoðun hefur farið fram í sumar sérstaklega á afkomu þess hluta togaraflotans sem verst stendur, og munu það vera um 20–25 skip. Var valin sú leið að athuga afkomu þeirra togara sem skráðir eru 1977 og síðan. Í ljós kemur, þegar þetta er athugað, að gífurleg aukning hefur orðið á fjármagnskostnaði þessara skipa, og það virðist ljóst, að það er fjármagnskostnaðurinn sem ríður baggamuninn hér. Á því er ekki nokkur vafi. Það er alveg ljóst að þeir, sem eiga ekki um 50% eigið fjármagn í slíkum tækjum, fá ekki við reksturinn ráðið. Að vísu kemur fleira til. Það er gífurlegur aflamunur, meira að segja á þessum skipum frá 6500 lestum á ári niður í 2700–2800 lestir, þar sem ekki verða verulegar tafir frá veiðum vegna bilana. Vitanlega er það vonlaust dæmi þegar á slíkt er litið. En engu að síður er mjög áberandi hvað fjármagnskostnaður rýkur upp úr öllu valdi og eru mörg tilfelli þar sem vaxtakostnaðurinn einn, eins og tekist hefur að aðgreina hann, er í kringum 25–30 og jafnvel yfir 30%. Ég vona að menn geti allir sæst á það, að slíkt er útilokað. Og hvað er þá til ráðs að taka?

Ég vek athygli á því, að við gengisbreytingar árum saman hefur tíðkast að fjármagn hefur verið fært yfir í Stofnfjársjóð fiskiskipa og áhrif gengisfellingar á þessi skip hafa verið greidd niður þannig að t. d. 10% gengisfelling hefur orðið 6% gagnvart þessum skipum, sem er náttúrlega ákaflega mikilvægt þar sem lánin eru gengistryggð. Og þó að mikilvægt sé að koma hér á skuldbreytingu, eins og verið er að gera og t. d. Fiskveiðasjóður og Byggðasjóður eru komnir langleiðina með mjög verulega umtalsverða skuldbreytingu, þá nægir það ekki til, og þótt haldið verði áfram að breyta þeim vanskilaskuldum í skil, eins og verið er að gera þokast jafnt og þétt í rétta átt, þá er það mín sannfæring að þarna þurfi að koma í raun og veru til viðbótar, eins og áður var, niðurgreiðsla á þessum skuldum, þ. e. í gegnum Stofnfjársjóð fiskiskipa þurfi að koma, eins og áður var, nokkur lagfæring á stofnkostnaði. En fyrst og fremst nefni ég þetta vegna þess að það er mjög áberandi að fjármagnskostnaður, ekki bara veiðanna, heldur líka vinnslunnar og atvinnufyrirtækjanna í heild er orðinn gífurlegur. Það er að mati Seðlabankans búið að ná nokkurn veginn því sem stefnt er að með Ólafslögum: fullri verðtryggingu inn- og útlána. Hér eru hins vegar notaðir dráttarvextir sem eru miklu hærri að sjálfsögðu, 54% á ári, ákaflega mikið notaðir. Skuldheimtumenn eru mjög fljótir að beita dráttarvöxtum og miklu meira en áður tíðkaðist. Sannfæring mín er sú, að dráttarvaxtanotkun sé í algeru óhófi. Vitanlega eiga að vera dráttarvextir, en spurningin er hvort dráttarvextir eigi að vera það háir að menn beinlínis leiti ekki annarra leiða til að heimta inn sínar skuldir og láti þær standa á dráttarvöxtum með þeirri miklu aukningu og miklu tilfærslu sem þá verður á flutningi fjármagns til banka, til lánastofnana, til sjóða og yfirleitt til þeirra sem fjármagnið eiga. Ég get getið þess hér til upplýsingar af því að það hefur m. a. verið minnst á það hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og ég sé það í blöðum í dag, að endurmatsaukning á gjaldeyrisstöðu Seðlabankans var árið 1977 um 650 millj. kr., 1978 3.5 milljarðar, 1979 8.5 milljarðar, en 1980 er það komið upp í 27 milljarða. Ég skal ekkert dæma um þetta. Það bættust við á síðasta ári 18 milljarðar. Þetta er vitanlega komið frá útflutningsatvinnuvegunum að einhverju leyti, auk þess sem gjaldeyriseign bankans er að sjálfsögðu tryggð erlendis o. s. frv. En þarna er ekki um tvöföldum milli ára að ræða, þarna er um eitthvað nálægt þreföldun milli ára að ræða í sumum tilfellum. Ég met þetta svo að þarna sé um verulegar tilfærslur frá atvinnuvegunum til fjármálastofnananna að ræða. Þess vegna hef ég beitt mér fyrir því, gerði það reyndar þegar í fyrra, að viðræður yrðu við Seðlabankann um þessi mál, og ég minni á það, að í fyrra náðist samkomulag við Seðlabankann um að endurgreiða 3.6 milljarða af gengishagnaði bankans og það var gert. Þessar viðræður hafa einnig verið nú, m. a. með þeim afleiðingum að Seðlabankinn hefur fallist á að endurmeta afurðalánin, sem veitt voru í dollurum, en þar sem gjaldeyri var skilað í Evrópugjaldeyri, og hefur fallist á að leiðrétta það frá áramótum. Sú leiðrétting nemur um 34–35 millj. kr. Þá tala ég að sjálfsögðu í nýkrónum, en tölurnar á undan voru í gömlum krónum. Af því er metið að um það bil 24 millj. kr. renni til frystingarinnar vegna mikillar framleiðslu hennar á Evrópumarkað, Bretland, eins og ég gat um áðan. Þetta er nálægt 1% af framleiðsluverðmæti frystingarinnar. Auk þess hafa átt sér stað viðræður við Seðlabankann um það, hvernig megi greiða þá skuld sem er í frystideild. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því, að fyrr hefur verið stofnað til skuldar þar, á árinu 1976 og reyndar 1977–1978. Í brbl., sem gefin voru út fyrst í jan. 1978 og síðan í sept., ef ég man rétt, 1978, er ákvæði sem segir að af gengishagnaði skuli tekið til þess að greiða þá skuld sem safnast hafði í þessum deildum, þ. e. að endurgreiða ríkissjóði það sem hann hafði orðið að greiða í þessu sambandi.

Ég sagði áðan að nú standi yfir viðræður við Seðlabankann um að ráðstafa einhverju af gengisuppfærslunni frá gengisfellingunni 26. ágúst til að greiða þessa skuld og til að greiða til baka til annarra vinnslugreina líka eitthvað af gengishagnaði bankans. Ég leyfi mér að fullyrða að samstarf muni nást við bankastjórana um þetta mál og þannig leysist þessi skuld og greiddar verði þessar 25 millj. sem hér er um að ræða. Þetta á hins vegar að sjálfsögðu eftir að fara fyrir bankaráð og reyndar víðar. Um þetta þarf að setja lög, eins og gert var með brbl. 1978. En ég leyfi mér að fullyrða að þetta muni leysast.

Hér var áðan spurt að því, hvort forsendur væru ekki brostnar fyrir því að taka í Verðjöfnunarsjóð 2.286% af gengisfellingunni síðustu. Ég er því sammála því að dollarinn hefur sigið og er kominn niður fyrir það sem hann var 26. ágúst s. l. Hann sveiflast nú einhvers staðar í kringum 7.52–7.53 aura, en var áður 7.90. Nákvæmlega upp gefið er hann 26. ágúst 7,903, en var 12. okt. 7,525, en hefur svo breyst eitthvað smávegis síðan. Ég er því sammála um að forsendur fyrir þessu eru brostnar, og ég mun því leggja til við ríkisstj. að notuð verði heimild í brbl. til að undanþiggja frystinguna því að greiða þennan þátt. Hins vegar hefur um þessi mál verið fjallað gagnvart saltfiski og skreið og er ekki talin ástæða til að undanþiggja þær greinar. Þvert á móti er talin rík ástæða til þess að þær safni nokkru í þennan sjóð sem ég heyrði að hv. fyrirspyrjandi bar mjög fyrir brjósti, og ég er honum út af fyrir sig alveg sammála. En af því að um þennan sjóð er talað vil ég upplýsa það, að samtals er inneign í Verðjöfnunarsjóði 46 millj. kr. og að sjálfsögðu hækkar hún um þessar 25 millj. Ef meira af þessum gengismun Seðlabankans verður o,reitt í sjóðinn, sem ég geri fastlega ráð fyrir, mun staða hans batna mjög verulega á næstu vikum. Ég get jafnframt upplýst, ef menn hafa áhuga á því, að innistæðan í humardeildinni er u. þ. b. 14 millj. kr., rækjur 5 millj., saltfiskur 21 millj., saltsíld 1.5 millj. og fiskimjöl 2.5 millj. kr.

Ég vil loks geta þess í sambandi við botnfiskverðlagninguna eða fiskverðið, að í framhaldi af fundum, sem stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna átti með forsrh. og mér í gær, mun málið verða rætt í ríkisstj. í fyrramálið og ræddar þar nýjar ábendingar sem fram komu hjá þessum aðilum, ef það getur orðið til að leysa málið. Ég vil í þessu sambandi loks geta þess, að það er vitanlega alveg ljóst, og ég tek undir það, að ekki verður búið við þessa stöðu hjá frystingunni. Og ríkisstj. er fullkomlega sammála um það. Ég vil hins vegar segja að það er heldur skammgóður vermir að fella eingöngu gengið til að lagfæra slíka stöðu. Með alla hluti gengis- og vísutölubundna, eins og við vitum, er þetta komið inn í verðbólguna samstundis, má segja, og nú er svo komið að 1% gengisfelling þýðir 1% hækkun vísitölu.

Hv. fyrirspyrjandi talaði töluvert um óraunhæfa gengisskráningu. Það má vel vera og það er Seðlabankans að fjalla um það. Seðlabankinn kannaði það um miðjan ágúst og gerði þá tillögu til ríkisstj. sem farið var eftir. Það er Seðlabankans að hafa frumkvæði í þeim málum, en vinna það í samráði við ríkisstj. Mér sýnist atveg ljóst að það verðfall, sem orðið hefur á dollara síðan þá, breyti forsendum, og ég geri fastlega ráð fyrir því, þó að ég hafi ekki fjallað sérstaklega um það, að Seðlabankinn skoði málin í því ljósi. Frá áramótum hefur gengi krónunnar fallið u. þ. b. um 20% miðað við dollara og einhvers staðar í kringum 9% miðað við meðalgengi. Ég viðurkenni að það er stíft haldið á þeim málum, og ég viðurkenni einnig að með því móti hefur þeim greinum útflutningsatvinnuveganna, sem ekki hafa náð hækkun á annan máta, verið settur ærið þröngur kostur. Ríkisstj. er hins vegar að sjálfsögðu á einu máli um það, um það er ekki nokkur ágreiningur, að rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins og reyndar iðnaðar líka verður að vera tryggur og það verða að haldast í hendur öruggur rekstrargrundvöllur og hjöðnun verðbólgunnar sem er vitanlega sú meinsemd sem alvarlegust er.

Ég ætla þá næst að koma að síldarverðinu. Ég vil lýsa undrun minni á ýmsu sem hv. þm. sagði um það mál, eins og t. d. um þá reglugerð sem var gefin út um ferskfiskmat. Eitt af fyrri bréfum, get ég sagt, sem komu á mitt borð, var bréf frá vinnslunni eða saltendum þar sem var lögð mikil áhersla á að fá þetta mat. Þeir töluðu við mig persónulega og báru sig mjög undan því, að fyrri beiðnum um þetta mál hefði ekki verið sinnt þrátt fyrir að í lögum um ferskfiskmat segi, að Ferskfiskmatið skuli meta ferskan fisk sem á land komi, og töldu þeir að þeir hefðu lög að mæla þegar þeir óskuðu eftir slíku mati. Ég skal svo sannarlega láta athuga hvort slíkar beiðnir hafi ekki komið inn áður. Þeir fullyrtu við mig að þeir hefðu komið með slíkar beiðnir áður, og skal ég þá upplýsa hv. þm. um það. Þetta er því gert að beiðni þeirra og reglugerðin sett í samráði við þá og sérstaklega síldarútvegsnefnd. Hún var sett þótt mönnum væri fyllilega ljóst að hún mundi valda deilum við seljendur. En ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að allt, sem ætla má að leiði til þess að bæta gæði okkar framleiðslu, mun ég gera, og vitanlega þarf að gera það þannig að samstaða geti orðið um það. Um þessa reglugerð vil ég segja það jafnframt, að síðustu tvo daga hefur framkvæmd hennar verið mjög ítarlega skoðuð og ljóst er að í upphafi þeirrar framkvæmdar hefur verið gengið miklu harðar fram í þessu mati en virðist rökrétt. Það hefur verið metin í úrgangsflokk síld sem vissulega má nota til söltunar, við skulum segja haussködduð síld. Þótt annað kjálkabarðið vanti eða eitthvað slíkt má vitanlega salta þá síld, og ég gæti talið upp fleiri slíka höfuðgalla á síldinni sem ég veit ekki hvort þm. hafa úf af fyrir sig áhuga á. Á þetta hefur verið fullkomlega fallist af saltendum, að þarna væri um allt of harðan framgang að ræða, og rætt hefur verið við Ferskfiskmatið og samkomulag hefur náðst við saltendur og við sjómenn, að vísu með þeim fyrirvara að annað takist líka; um að viss breyting verði gerð á framkvæmd þessarar reglugerðar þannig að það verði ekki metin til úrtaks síld sem nýta má í fullboðlega framleiðslu. Jafnframt hef ég ákveðið að skipa nefnd til að athuga framkvæmd þessa mats enn betur fyrir næstu vertíð þannig að menn læri af þessari reynslu og reyni að koma sér niður á eðlilegan framgangsmáta.

Það, sem þarna hefur náttúrlega fyrst og fremst valdið vandræðum gagnvart sjómönnum, er það mat sem framkvæmt var á fyrstu dögum þessara framkvæmda, og ég vil segja að séu miklu frekar mannleg mistök, getum við sagt, mismunandi á milli manna. Hins vegar var strax gengið í að samræma þetta á milli matsmanna og þá breyttist matið mjög svo á síðari stigum.

Hins vegar er það að segja um síldveiðarnar, að þar hefur orðið lækkun í dollurum eins og menn vita, — lækkun sem er um það bil 6%. Auk þess hafa ekki náðst neinir samningar við Svía. Fyrst og fremst er þetta sala til Rússlands og samtals er þessi sala einhvers staðar í kringum 22–23 þús. lestir af síld. Ég vil lýsa því strax, að ég hef verulegar áhyggjur af því hvert sækir með síldveiðarnar.Það er ljóst að verið er að stórauka síldveiðar í Norðursjónum. Kanadamenn hafa tekið upp söluhætti sem ég held að séu ekki sérstaklega álitlegir. Þeir selja síld nú orðið beint yfir borðstokkinn, eins og sagt er, til Sovétríkjanna, og allt veldur þetta því, að það verð, sem við höfum fengið fyrir síldina áður fyrr, er í mjög mikilli hættu. Á því er ekki nokkur vafi.

Ákvörðun um síldarverð var tekin í yfirnefnd Verðlagsráðs, eins og lög gera ráð fyrir, eftir allmikla fundi. Eftir að síldarsaltendur höfðu endurskoðað nokkuð sínar tillögur, hækkað 1. flokkinn nokkuð, var samið og mátti þá segja að nokkurt meðaltal væri fundið. Í þeim ákvörðunum, sem þá voru teknar, var talið að skiptaverðið hækkaði um 18.5%, en hins vegar söltunin rekin með halla sem næmi frá 8–11% eftir flokkum. Hins vegar vil ég segja það, að það er ákaflega eðlilegt að síldarsjómönnum líki slík ákvörðun illa, og kemur þar fram megingallinn á okkar kerfi. Gengið hafði verið frá samningum um laun í vinnslu áður á mörgum síldarsöltunarstöðvum og launahækkunin er um 50% frá árinu áður. Það er mjög eðlilegt og ég get ekki annað en tekið undir það með sjómönnum, að það er óviðunandi að verðfallið skuli þannig allt lenda á þeim og þeir fá aðeins 18.5% hækkun, en eiginkonurnar, sem vinna í landi við söltun og aðrir, sem þar vinna, fá 50%. Þarna er ekki um aukinn afla að ræða sem bæti tekjur sjómanna.

Ég get tekið undir það með hv. þm., þó að ég ætli ekki að fara að tala hér um skipakaup, ég vil tala um það við hann síðar, minnist kannske á það örfáum orðum í lokin, — en ég tek undir það með honum, að það er ákaflega æskilegt að fækka bátum á síldveiðum. Ég hef skoðað það allt saman eins og ég hef getað. Við þetta glímdi hv. þm. þegar hann var í ráðherrastól, og hann veit mætavel við hvaða erfiðleika þar er að etja. Hverja á að hafa útundan? Hvaða báta í kjördæmi hv. þm. á að láta vera heima og hverjum á að leyfa að sigla og veiða? Þó að megi segja að þetta sé uppbót á þorskveiðarnar hjá þessum mönnum, þá er það mjög mikilvæg uppbót á þorskveiðarnar. Í ár var þetta enn þá skoðað og rætt við LÍÚ mjög ítarlega um leiðir í þessu sambandi. Það tókst ekki, en ég tel að ekki síst með tilliti til þess, sem framundan er á síldarmörkuðum, sé mjög nauðsynlegt að finna leið til að fækka bátum á síldveiðum. En þetta er náttúrlega meginástæða fyrir óánægju sjómanna sem var til þess, að þeir sigldu í land, eins og þeir hafa gert reyndar áður og a. m. k. hv. 1. þm. Vestf. kannast við. Frá því að það gerðist má segja að hafi verið stöðugir fundir um þessi mál, bæði með sjómönnum og með saltendum.

Hv. þm. lýsti furðu sinni á því, að ráðh. skyldi ekki hafa lesið skýrslu Fiskifélagsins lauslega. Vitanlega hef ég lesið skýrslu Fiskifélagsins. Og hann lýsti furðu sinni á því og vildi ekki trúa því, að einhver breyting hefði orðið á flokkun Fiskifélagsins á síld. Þá verð ég bara að segja að þá hefur hann ekki lesið skýrsluna nægilega vel. Þessar skýrslur Fiskifélagsins eru lagðar til grundvallar í mati Þjóðhagsstofnunar, og ég er sannfærður um að þeir ágætu menn, sem hjá Þjóðhagsstofnun eru, hafa sannarlega lesið þær skýrslur. En staðreyndin er sú, að í ljós kemur þegar þetta er nú athugað að Fiskifélagið hefur í ár slegið saman 1. og 2. flokki og út úr því kemur það, að síðasta ár er metið að 86% af síld fari í 1. flokk. Þetta vefengdu sjómenn og við athugun á því kom í ljós að sjómenn höfðu rétt fyrir sér. Þessi skipting er einhvers staðar í kringum 45% í 1. flokk og 40% í 2. flokk. Þetta breytir þannig þessu verði að í staðinn fyrir að koma út með 18.5% hækkun á skiptaverði á milli ára verða það 16.5%. Hv. þm. getur kennt ráðh. eða hverjum sem er um þetta, en þetta er staðreynd málsins. Svona var það unnið í tölvum Fiskifélagsins, og ég hef ekki fengið skýringar frá Fiskifélaginu á því, hvers vegna þetta var gert, vegna fjarveru manna þar sem eru ekki við í dag. En ég taldi sjálfsagt og fól forstjóra Þjóðhagsstofnunar að endurskoða reikninga sina um afkomu þessara greina með tilliti til þessara nýju upplýsinga, og þær breytast eins og ég hef sagt.

Af þeim fundum, sem nú hafa verið haldnir og fóru fram bæði á milli saltenda og fulltrúa sjómanna og einnig í minni viðurvist og hafa í dag verið haldnir hjá mér, er nú komið það, að sjómenn hafa verulega dregið úr fyrri kröfu og sagt að þeir fari fram á að fá hækkun á skiptaverði svipaða og hækkun hefur orðið á markaðsverði erlendis, sem er í kringum 28.4–30%. Þetta fer dálítið eftir flokkum og fleiru þess háttar. Ég verð að segja það, að mér finnst þessi krafa orðin mjög sanngjörn og raunar varla hægt að ætlast til þess, að sjómenn taki á sig meiri skell en þeir verða þannig fyrir. Og ég hef beitt mér fyrir því, að um þetta náist samkomulag. Ég tel allar líkur til að svo geti orðið. Vinnslan hefur viðurkennt að þetta sé ekki ósanngjörn krafa, og saltendur hafa lagt sig fram við að finna leið til að mæta þessu. Hins vegar blasir það að sjálfsögðu við, að ákvörðun Verðlagsráðs liggur fyrir yfirnefnd og það er erfitt að breyta henni. Á morgun mun verða fundur í Verðlagsráði því að sjálfsögðu verður Verðlagsráð að koma inn í þetta mál. Spurningin er hvort rangar forsendur, sem lagðar voru til grundvallar fyrri ákvörðun, geta nægt til þess, að Verðlagsráð megi taka þetta mál upp að nýju. Það væri út af fyrir sig mjög fróðlegt að heyra skoðun t. d. hv. fyrrv. sjútvrh. á því. Þetta er ákaflega viðkvæmt mál, og ég vil segja fyrir mitt leyti að það kemur ekki til greina, eins og ég hef sagt, að rifta ákvörðun Verðlagsráðs með lögum. Hins vegar ef Verðlagsráð er sammála um, að þarna hafi orðið mistök, og fer fram á að mega endurskoða það, þá finnst mér það allt annað mál. Ég vona því að lausn fáist á síldarmálinu mjög fljótlega.

Um loðnudæmið vil ég taka undir með hv. þm. að það er hrikalegt dæmi. Það er rétt að það vantar að mati Þjóðhagsstofnunar um 36% upp á að vinnslan fái uppi borinn vinnslukostnað ef það verð, sem var ákveðið til bráðabirgða í ágúst og gilti fram til loka sept., á að gilda áfram, 450 kr. á tonnið. Þarna hafa gerst miklu alvarlegri hlutir en með síldina. Það hefur beinlínis orðið verulegt verðfall í dollurum á próteineiningu sem hefur lækkað úr 8.50 dollurum, sem var um tíma, niður í 7 dollara, og annað hefur gerst þar sem hefur komið mönnum á óvart. Ef menn líta á verðlagsþróun á mjöli í gegnum árin, þá er staðreynd að mjölið hefur hækkað öll árin að hausti til og stundum mjög mikið. Þess vegna töldu aðilar við verðákvörðun í ágúst rétt að taka bráðabirgðaákvörðun og endurskoða málið í október. Nú hefur hins vegar engin verðhækkun komið fram. Þvert á móti hefur lýsi enn þá fallið og dæmið verður þess vegna miklu verra. Með þeirri verðákvörðun, sem ákveðin var til bráðabirgða, hefði halli vinnslunnar orðið 11.1%, en er nú með óbreyttu verði kominn upp í 36%. Ég skal fúslega viðurkenna að ég sé ekki lausn á þessu dæmi í bráð. Það er verið að vinna að ýmsu en þetta er gífurlegur munur. Hv. þm., að því er mér heyrðist, mælti mikið með gengisfellingu. Er hann að mæla með því, að þessi munur verði brúaður með gengisfellingu? Ég vildi mjög gjarnan fá svar við þeirri spurningu. Mér fannst það liggja í orðum hv. þm. Ég get ekki mælt með því.

Ég treysti mér ekki á þessu stigi til að fara ítarlega út í þetta loðnumál. Ég mun hins vegar ræða það á fundum sjútvn. á morgun. Ég geri það ekki hér vegna þess að ég er með ýmislegt frá þessum aðilum sem þeir hafa ekki sjálfir kosið að birta á þessu stigi. Málið er komið á borð mitt núna. Það eru að byrja viðræður um það. Ég átti fyrsta fund í morgun með mjölframleiðendum. Ég hef vitanlega rætt við sjómenn og rætt við útgerðarmenn um þetta mál, en það verður að segja eins og er, að það hefur kannske verið meira til hliðar við síldina sem hefur verið fyrst og fremst til umræðu hjá okkur nú, en þó verið rætt og bryddað þar á ýmsum hugmyndum á báða bóga sem gætu dregið úr þessum mun. En ég vil segja strax að það hefur engin hugmynd komið fram hvorki frá mér né öðrum, sem gæti brúað þennan mun. Að vísu kom fram sú spurning, hvort ríkissjóður vildi ábyrgjast þennan mun og þar með líklega greiða hann. Þetta kom í blöðum. Þetta var rætt. Hv. þm. talaði um 70 millj. mun, en það hefur verið talað um 60 millj., það munar ekki miklu. Ég treysti mér ekki til að mæla með því, að .ríkissjóður greiði slíkt. Ég veit ekki hvaðan þeir peningar ættu að koma, enda er ljóst að þá geta fleiri gengið í skrokk á ríkissjóði, t. d. iðnaðurinn í landinu sem býr við vissa erfiðleika, en miklu minni en þarna eru með loðnuna. Vitanlega verður að rétta grundvöll þessara atvinnuvega og að því er ítarlega unnið. Ég veit að það tekur ekki langan tíma að grípa til þeirra aðgerða sem eru nauðsynlegar, en þar verður ekki unnt að miða við eina grein sem stendur langtum, langtum lakar en aðrar. Þar verður að koma til önnur lausn sem geti þá fleytt henni yfir vonandi tímabundið ástand. En það mál er ákaflega erfitt eins og ég sagði.

Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að ræða mikið um skipastólinn. Ég er mjög ósammála hv. þm. um þau mál. Ég er með tölur sem sýna að samþykkt nýsmíði á skipum í hans ráðherratíð fór margfalt fram úr því sem úrelt var og tekið úr notkun. Ég hef verið að reyna að miða við að endurnýjun fari þarna fram. Ég held að menn geti heldur aldrei tekið tonnatöluna af þorski eða tonnatöluna af einhverjum afla og deilt í með tonnatölu báta og sagt: Sjáið, þeir geta veitt miklu meira. — Þetta er breytilegt eftir landshlutum, þetta er breytilegt eftir árstíðum. T. d. get ég upplýst að það var sett af stað í sumar vinna að því að miðla afla, og tók Landssamband ísl. útgerðarmanna það að sér í samráði við okkur í sjútvrn. og viðskrn. Þegar óskir voru um siglingar var hringt um allt land til að spyrja hvort menn gætu tekið við afla, og þá voru svörin alls staðar nei. Ég held að það hafi tekist að losna við einn togarafarm, og mig minnir að 2–3 staðir hafi svarað: Við getum tekið 50 lestir. — Það siglir enginn togari með fullfermi inn og landar 50 lestum og svo út aftur. Hins vegar kemur í ljós að þegar menn fara að hringja og biðja um afla, þá er hann ekki til, þá er ekki afgangsafli. Ég verð að segja það, að eftir marga fundi, sem ég átti með mætum og duglegum aflamönnum hér á Suðvesturlandi á síðustu vertíð, og viðræður við þá þótti mér það athyglisvert, sem þeir sögðu um slíkar hugmyndir. Þeir sögðu: Þó að þú fækkir bátum á vertíðinni komum við ekki með meira í land, það er alveg ljóst. Við erum of hlaðnir störfum eins og er. Alveg sérstaklega þegar verið er að auka kröfur um meðferð aflans, betri gæði, þá getum við ekki gert það. Og það er náttúrlega svo að við verðum að sinna veiðunum þegar fiskurinn gefur sig. — Það er alveg ljóst, að bátaflotinn er of stór á öðrum tímum, en hann er ekki of stór ef við ætlum að veiða eins mikið hér við Suðvesturland og við höfum gert s. l. tvö ár. Og ég er undrandi ef hv. þm. vill draga verulega úr því.