27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4233 í B-deild Alþingistíðinda. (3901)

364. mál, utanríkismál 1982

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Mér var vel kunnugt um það að formaður þingflokks sjálfstæðismanna óskaði eftir því, að hlé væri gefið á fundum í dag til þess að halda þingflokksfundi. Sú ósk er eðlileg og sjálfsögð, þar sem krafist er af þm. að afstaða sé tekin til margra þingmála á þingnefndarfundum, og að sjálfsögðu er eðlilegt að nm. hafi samráð við flokkssystkini sín hér á þingi. Þess vegna er það liður í störfum Alþingis og þáttur í því, að þau geti gengið eðlilega fram, að hlé sé gefið til þingflokksfunda. Ég tel að frestun umr., til þess að þingflokksfundir séu haldnir sé sama eðlis og frestun umr., sem gerð er þegar kaffihlé er eða matarhlé veitt, og því allt annars eðlis en þegar á að skjóta inn málum og slíta umr. þannig í sundur. Og með því að það hafi verið of mikil brögð að því á þessum vetri, að þessi háttur fundarstjórnar hafi verið hafður á af hálfu forseta, þá tel ég ástæðu til nú að finna mjög að því ef uppteknum hætti á að halda.