27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4245 í B-deild Alþingistíðinda. (3909)

364. mál, utanríkismál 1982

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í stórræðu hv. 11. þm. Reykv. þriðjudag fyrir páska mátti „kansellí“ hæstv. utanrrh. þola nokkrar snuprur. Hv. Þm. þótti sem sitthvað væri í meira lagi bogið við heimsmynd þeirra kansellímanna, áherslur ýmsar væru á skökkum stað og eyður stórar í allri heimsmyndinni.

Annað, sem ekki vakti síður athygli mína, var það, að þm. kvaðst hafa gert heimssögulega uppgötvun í þessum umr. Hann komst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa hlýtt á ræðu formanns Alþfl., Kjartans Jóhannssonar, að þeim bæri eiginlega ekkert orðið í milli, nema nokkur smáatriði í miðkafla, og tíundaði með þungum áherslum að því væri ekki saman að jafna, hversu miklu meir hv. þm. væri sammála formanni Alþfl. og málflutningi jafnaðarmanna í utanríkis- og alþjóðamálum en utanrrh. eigin stjórnar, og nefndi til þess mörg dæmi. Þetta er að sönnu stórmerkileg uppgötvun, þó að þessum umr. sé að vísu ekki enn lokið og þess vegna eftir að ganga úr skugga um hvenær af sameiningu þessara tveggja fornu fjenda verður á grundvelli þessarar heimssögulegu uppgötvunar um einingarband í alþjóðamálum. Að vísu skal það tekið fram, að hv. 11. þm. Reykv. undanskildi í þessu efni einn mann, þ.e. þann sem hér stendur, ritstjóra Alþýðublaðsins, og kvað ósannað með öllu, að þeir tveir væru á einu máli, gaf jafnvel í skyn, að svo væri ekki. Að þessu mun ég víkja svolítið síðar, af því að þetta er svo heimssögulegt að það verður að kryfja svolítið betur.

Að því er varðar ásökun um hina „broguðu“ heimsmynd og stóru eyður í skýrslu utanrrh. ber náttúrlega að játa að þeir kansellímenn eru ekki óskeikulir, og vera kann að sitt hvað sé til í því. Að vísu geri ég ekki kröfu til þeirra kansellímanna, að þeir birti í skýrslu utanrrh. samantekna lofgjörð um andlega yfirburði reyndasta stjórnvitrings framsóknarmanna í utanríkismálum, hv. fyrrv. þm. Þórarins Þórarinssonar, sem ég tel hann þó að öllu maklegan. Spurningin væri, hvort þessi lofgjörð ætti heima í skýrslu utanrrh. Sömuleiðis geri ég ekki þá kröfu til þeirra, að þeir taki að sér að túlka flóknar og fínlega orðaðar ályktanir Framsfl. um utanríkismál, tel að það verkefni sé mun betur komið í höndum hv. þm. sjálfs, sem eins og kunnugt er er mjög vel heimakunnugur á þeim slóðum.

Ekki geri ég heldur þá kröfu til þeirra kansellímanna, að þeir birti niðursoðinn útdrátt úr heimspressunni frá New York Times til Tímans í Síðumúla um hvaða umræður fari fram um utanríkis- og varnarmál. Ég efast um að þeir kansellímenn leiki það eftir hv. 11. þm. að gera þann útdrátt jafnglæsilega og hann gerði.

Hann ræddi í ræðu sinni á mörgum stöðum um að NATO hefði íhugað ýmsa möguleika vandlega, að augljóst væri að meðal áhrifamikilla manna væru ýmis hugðarefni augljóslega ofarlega á dagskrá um aukinn vígbúnað, að fyrir lægi skýrsla sérstakrar nefndar, að rætt væri alvarlega um eitt og annað, að fyrirætlanir væru komnar í áætlunarfarveg. En þegar líða tók á ræðuna voru allar þessar umræður í heimspressunni orðnar að samþykktum, ákveðnum áætlunum á vegum hernaðaryfirvalda vesturveldanna. Þetta efast ég um að kansellíið léki eftir þm.

Nú er það engu að síður svo, að ég verð að taka undir með þm. um nokkur atriði. Vissulega léki mér nokkur forvitni á að vita hver væri afstaða hæstv. utanrrh. til fram kominnar þáltill. þm. Framsfl. um að efnt skuli til alþjóðlegrar ráðstefnu um takmörkun vígbúnaðar á norðanverðu Atlantshafi. Þetta er mál af því tagi sem ég teldi eðlilegt að utanrrh. ríkisstj. fjallaði nokkuð um. Meðan svo er ekki legg ég náttúrlega ekki hlustir við orðspor um hvað haft er eftir hæstv. utanrrh. um þá till.

Sömuleiðis teldi ég eðlilegt, að í skýrslu utanrrh. eða í umr. hér á eftir yrði utanrrh. við svo sjálfsagðri ósk sem þeirri, sem er fram borin í stórræðu hv. 11. þm. Reykv., að þingheimur yrði nú upplýstur um hvernig Atlantshafsbandalagið gerir ráð fyrir því að verja Ísland ef til átaka kemur. Þetta er spurning sem oft hefur verið reifuð í opinberum umr., ekki hvað síst af núv. formanni kommúnistasamtaka Íslands í ritdeilum hans við varnarmálasérfræðing Morgunblaðsins, og meira en tímabært að úr því verði skorið og þessar upplýsingar lagðar fram fyrir alþjóð.

En áður en ég vík að hinum heimssögulegu sáttum hv. þm. og okkar jafnaðarmanna vil ég vekja athygli á einum parti í ræðu hans, sem ég hygg að einhverra hluta vegna hafi farið fram hjá mönnum. Þannig er mál með vexti, að í margívilnaðri stórræðu hafði ræðumaður ummæli þess efnis, að hann hefði vitneskju um, og gæti jafnvel því til sönnunar lagt fram gögn ef óskað yrði eftir, að mjög náin samvinna væri milli íslenskra stjórnmálamanna og bandaríska sendiráðsins um viðkvæm íslensk innanlandsmál. Þetta sagði hv. ræðumaður af því tilefni að hæstv. utanrrh. hafði tekið mjög óstinnt upp ásakanir um íhlutun varnarliðsins um íslensk innanlandsmál og kveðið mjög sterklega að orði um viðbrögð sín við því, ef hann vissi þess nokkur dæmi. Ummæli hv. þm. um þetta efni eru þess eðlis, að þau geta ekki legið í þagnargildi. Þess vegna vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að rifja þau upp. Hv. þm. sagði orðrétt.

„Hér starfar bandaríska sendiráðið, hér starfar Menningarstofnun Bandaríkjanna og það er alveg augljóst að þessar tvær stofnanir, bandaríska sendiráðið og hin svokallaða Menningarstofnun Bandaríkjanna, hafa margvísleg afskipti af málefnum hersins hér á landi. Bandaríski sendiherrann er æðsti viðræðuaðili utanrrh. um herinn hér á landi, og starfsmenn Menningarstofnunar Bandaríkjanna hafa, eins og gögn hafa sýnt og fjölmörg dæmi sannað, margvísleg afskipti af afstöðu Íslendinga til herstöðvarinnar og varnarsamningsins.

Ber að skilja þetta svo, að yfirlýsing hæstv. utanrrh. taki einnig til þessara aðila, líka til bandaríska sendiráðsins og Menningarstofnunar Bandaríkjanna, vegna þess að þessar tvær stofnanir eru á mjög náinn hátt tengdar starfsemi hersins hér á landi og ábyrgðar fyrir ákveðnum hluta þeirrar starfsemi í samræmi við bandaríska stjórnkerfið?

Ég gæti nefnt ýmis dæmi um það, að náin samvinna hefur verið með íslenskum stjórnmálamönnum og bandaríska sendiráðinu í deilum um innanlandsmál á Íslandi, þar sem náið samráð, ráðgjöf og upplýsingaþjónusta hefur komið fram af hálfu bandaríska sendiráðsins gagnvart þessum íslensku stjórnmálamönnum. Kannske gefst tækifæri til þess einhvern tíma síðar að leggja fram gögn, sem sýna þetta svart á hvítu, til viðbótar við þau gögn sem ég hef nú þegar kynnt Alþingi. Það er alveg ljóst af þeim gögnum, sem ég hef séð og skoðað, að þeir eru nokkuð margir stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur á Íslandi sem hafa mjög náið samband við bandaríska sendiráðið um gang mála hér innanlands, og ef yfirlýsing hæstv. ráðh., sem hann gaf hér áðan, tekur einnig til þessarar starfsemi væri vissulega tilefni til að athuga það nánar á grundvelli þeirra gagna sem hægt verður að leggja fram um þessi efni.“

Þessi orð hv. þm., meðlims utanrmn., eru þess efnis, að það er ástæða til þess ósköp einfaldlega að skora á hann eða samstarfsmann hans, sem hafa einhver slík gögn undir höndum, að leggja þau fram þegar í stað. Ef hér er verið að dylgja um hluti af því tagi sem fram komu í umr., sem mig minnir að hafi orðið hér á Alþingi í framhaldi af strandi sovésks kjarnorkukafbáts í kálgörðum hins hlutlausa sænska ríkis, þar sem veifað var kostnaðaráætlun upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna, telst málið kannske ekki ýkja — alvarlegt. En hér er vissulega verið að gefa í skyn allt annað og þýðingarmeira, og það er lágmarksskylda að sá maður, sem þessi orð viðhefur, leggi gögnin á borðið.

Nú er það alkunna, að hér eru starfandi áróðursstofnanir stórvelda. Ég get t.d. upplýst það af reynslu minni sem ritstjóri við eitt dagblaðanna, að inn á ritstjórnarskrifstofur blaðanna berast haugar af áróðursefni frá áróðurs- og upplýsingastofnunum stórvelda. Stundum er rætt í þessu sambandi um styrkleikahlutföll, og samkv. minni reynslu mun láta nærri að þau styrkleikahlutföll séu svona 10:1, hvað sá áróður, sem inn á ritstjórnarskrifstofur berst frá sovéska sendiráðinu, frá fréttastofnun Sovétmanna á Íslandi, er þar miklu mestur að magni til. Reyndar er með ólíkindum hvílík ókjör af ræðum og áróðri þeirra Sovétmanna, Kremlverja, er þýddur á íslensku. Alkunna er að fréttastofnun Sovétmanna hér á landi gefur út heilt blað, og þess eru ýmis dæmi að þeir ætli sér það hlutverk fullum fetum að taka þátt í íslenskum umræðum um íslensk innanlandsmál og íslensk utanríkismál, eins og dæmi sanna.

Auðvitað verða menn líka varir við það,að fulltrúar Bandaríkjanna hér á landi hafi komið á framfæri sínum áróðurssjónarmiðum. Undirritaður hefur t.d. orðið var við það í sambandi við málflutning Alþýðublaðsins vegna málefna Mið- og Suður-Ameríkuríkja og þá ekki síst deilurnar um EI Salvador. Það er sitthvað að koma á framfæri upplýsingum, enda auðvelt að færa sönnur á það af málflutningi blaða hvað af því hefur áhrif, eða að gefa í skyn og lofa gögnum því til sönnunar, að einhverjir íslenskir stjórnmálamenn séu handgengnir erindrekar erlendra sendiráða. Við höfum heyrt slík brigsl áður, en það á enginn að þola þau. Þess vegna er sú krafa lögð fram til staðgengla hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að þessi gögn verði lögð á borðið og að sjálfsögðu í þessum umr.

Ég vék að því áðan, að í stórræðu sinni hefði hv. 11. þm. Reykv. vikið að hinni bjöguðu heimsmynd, sem fram kæmi í skýrslu hæstv. utanrrh., og hann lagði sig fram um að leiðrétta þessa heimsmynd og fylla í eyðurnar. En það, sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. Meginathugasemdin, sem gera ber við ræðu hv. þm., er einmitt sú, að ræðan var öllu merkari fyrir það, sem sleppt var, en það, sem í henni mátti finna. Svo var að skilja í öllu tali hans um vígbúnaðarmál í heiminum og ófriðvænlegar horfur, að annað risaveldanna, Bandaríkin, ætlaði sér eitt út í styrjöld, og það mátti eiginlega ekki greina af hans heimsmynd við hverja. Við skulum nefna aðeins örfá atriði um það sem æskilegt hefði verið að hv. þm. hefði ekki sleppt í þessari heimsmynd sinni. Ég nefni nokkur dæmi.

Hver hefur reynslan verið af öryggiskerfi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópumanna frá stríðslokum s.l. 35 ár í okkar heimshluta? Veigamikil rök hlýtur að verða að færa fyrir því að varpa því fyrir róða, og þau rök komu ekki fram í umræddri ræðu.

Annað atriðið: Hver hefur verið reynslan af einhliða samdrætti vígbúnaðar vesturveldanna á undaförnum áratug slökunarstefnu í Evrópu? Við að meta þá reynslu komumst við kannske eitthvað nær því að svara spurningunni: Er trúlegt að við með góðu fordæmi einhliða samdráttar vígbúnaðar eða afvopnunar munum fá risaveldið Sovétríkin til þess að fylgja því góða fordæmi? Stundum er nær að lita á verkin en orðin.

Í þriðja lagi: Hv. þm. vildi leiðrétta þær upplýsingar sem fram komu í skýrslu utanrrh. um styrkleikasamanburð risaveldanna og hernaðarbandalaganna. Þó er þess að geta, að í þeim samanburði, sem fram kemur í skýrslu utanrrh., er stuðst við þau gögn sem einna flestir vísa til þegar þau mál ber á góma, þ.e. skýrslu sem árlega er út gefin á vegum International Institute for Strategic Studies í London í ársriti þeirra. En látum það vera. Það, sem hv. þm. sleppti hins vegar fyrst og fremst úr öllum þeim samanburðarfræðum og í frásögnum sínum af öllum þeim umræðum sem átt hafa sér stað í fjölmiðlum bæði austan hafs og vestan, er hver séu öryggisvandamál Vestur-Evrópu sem slíkrar. Menn deila ekki um að í stórum dráttum ríki hernaðarjafnvægi milli risaveldanna sjálfra, en umræðan í Evrópu snýst fyrst og fremst um varnaraðstöðuna í Evrópu sjálfri og afleiðingar af gerbreyttum valdahlutföllum í þeim heimshluta. Ég fann ekki eitt einasta orð í ræðu hv. þm. um þau efni.

Ég saknaði þess líka, að í ræðu hv. þm., svo löng sem hún var, var eiginlega ekki vikið einu einasta orði að Ráðstjórnarríkjunum. Það var nánast eins og þau væru ekki til eða m.ö.o., eins og komist var að orði í fréttabréfi Samtaka herstöðvaandstæðinga af svipuðu tilefni: Ráðstjórnarríkin koma okkur ekkert við. Hvers vegna var þar enga greiningu að finna á eðli þessa risaveldis, á vígbúnaðaruppbyggingu þess, á utanríkispólitískum markmiðum þess eða þeim vanda sem Vestur-Evrópuríkin og vesturveldin standa frammi fyrir, vígbúnaði þess og útþenslustefnu? Hvers vegna var hvergi vikið að því, hverjar skýringar væru á hinni svokölluðu tvíþættu ákvörðun NATO-ríkja frá því í des. 1979 um endurnýjun meðaldrægra eldflaugakerfa í Evrópu? Á því var engin skýring, gersamlega óskiljanlegt. Þar af leiðandi var að sjálfsögðu ekkert minnst á hverjar yrðu afleiðingarnar, hernaðarlegar og pólitískar, ef einhliða væri fallið frá þessari ákvörðun.

Það, sem er kannske fyrst og fremst aðfinnsluefni í málflutningi af þessu tagi, er að stundum finnst manni að þeir menn, sem tala líkt og hv. þm., telji sig hafa nánast einkarétt á hugarfari friðar, einkarétt á siðferðilegum dómum, þegar talinu víkur að friði eða stríði. Mér finnst málflutningur af þessu tagi, svo bjöguð heimsmynd, jafnstórar eyður og jafnrangar áherslur og einkenndu ræðu hans, ekki vera samboðinn manni sem telur sig vera í þjónustu svo göfugs málstaðar sem barátta fyrir heimsfriði óneitanlega er. Þess vegna er óhjákvæmilegt að fylla upp í þessar eyður og árétta drætti í heimsmyndinni, sem eru dálítið aðrir en þarna koma fram. Við skulum víkja að nokkrum atriðum.

Hver er reynsla vesturveldanna frá s.l. 10–15 árum og þó sérstaklega frá s.l. áratug af sannanlegri viðleitni þeirra til að draga úr vígbúnaði og koma á eðlilegum friðsamlegum samskiptum við Sovétríkin? Þetta er afar þýðingarmikil spurning, ekki síst vegna þess að Evrópuríki, og þá ekki síst Vestur-þýska sambandslýðveldið, hafa haft forustu um að móta, eftir að kalda stríðinu tók að linna, eðlilegri, friðsamlegri og vinsamlegri samskipti við Sovétríkin. Við skulum stikla á örfáum atriðum.

Vesturveldin hafa mörg hver afnumið herskyldu og fækkað stórlega í herafla sínum. Þau hafa sannanlega dregið úr framlögum sínum til hermála sem hlutfalli af þjóðarframleiðslu. Athygli vekur að milli Bandaríkjanna annars vegar og Vestur-Evrópuríkjanna er stöðug deila um að ýmis ríki Vestur-Evrópu hafa ekki getað uppfyllt kröfur eða samþykktir NATO um að verja 3% þjóðarframleiðslu á ári til varnarmála.

Það er athyglisverð staðreynd, að meðaldræg kjarnavopnakerfi á meginlandi Evrópu hafa ekki verið endurnýjuð í 17 ár og nú er svo komið, að ekkert kerfi, sem staðsett er á meginlandi Evrópu, nær skotmörkum í Sovétríkjunum sjálfum. Það má nefna fleiri dæmi um þann stórkostlega samdrátt sem orðið hefur í herflota vesturveldanna, í tonnum talið um 40% á um það bil 13 árum, og það misvægi sem orðið er í uppbyggingu kafbátaflota.

Það er ekki úr vegi að nefna í þessu viðfangi hvað hefur verið að gerast að því er varðar upplausn hinna gömlu evrópsku nýlenduvelda. Það væri ekki úr vegi að gera nokkurn samanburð á framlagi þessara ríkjaheilda til hinna vanþróuðu þjóða. Þar kemur m.a. fram að Vestur-Þýskaland eitt veitir meiri efnahagsaðstoð — þá er ekki verið að tala um stuðning til vopnakaupa — en sovétblokkin öll í heild.

Það væri ástæða til að rekja hver reynslan er af framkvæmd Helsinki-sáttmálans, sem er stór þáttur í viðleitni manna til að koma á eðlilegum samskiptum milli þessara stríðandi heimshluta. Það væri ástæða til að staldra við Afganistan. Það væri líka ástæða til að nefna að fjölmennar hreyfingar rísa upp í lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu og nú í Bandaríkjunum, magnaðar upp af ótta, eðlilegum, skiljanlegum ótta, við örlög mannkyns ef vígbúnaðarkapphlaupið heldur áfram, en hugleiða um leið hver yrðu örlög slíkra hreyfinga bak við járntjaldið, í alræðisríkjum kommúnismans.

Á sama tíma og þessi þróun hefur einkennt gang mála að því er varðar slökunarstefnuna af hálfu vesturveldanna, hvað hefur verið að gerast í Sovétríkjunum? Á sama tíma hafa Sovétríkin aukið mannafla sinn undir vopnum um þriðjung og hafa nú tvöfaldan mannafla undir vopnum á við Atlantshafsbandalagsríkin. Þau hafa aukið framlög sín til hermála um 50% á þessum síðasta áratug. Þau verja þannig að staðaldri um 13% af þjóðarframleiðslu sinni, sem er á milli 2–3 sinnum hærri hundraðshluti en í Bandaríkjunum. Þau hafa lagt kapp á að tryggja sér og auka algera yfirburði sína á sviði venjulegs vopnabúnaðar. Það er viðurkennd herfræðileg staðreynd, að sovéski herinn starfar samkv. áætlunum, er þjálfaður samkv. áætlunum og er búinn venjulegum vopnum sem miðast við sóknarhernað, enda svo komið að ef til styrjaldarátaka kæmi, og tala menn þar í römmustu alvöru, væri ekki nema vikuverk, ef ekki væri beitt öðrum vopnum, fyrir Sovétríkin að leggja undir sig Vestur-Evrópu í „hitlerskri“ leiftursókn.

Yfirburðir Sovétríkjanna á öllum sviðum venjulegs vopnabúnaðar eru löngu staðfestir. Sama þróun hefur verið að gerast á sviði uppbyggingar heimsflota, kafbátaflota og þá síðast en ekki síst á sviði meðaldrægra kjarnorkukerfa, þar sem eru hinar margnefndu SS-20 eldflaugar sem nú er beint að 750 skotmörkum í Evrópu.

Á sama tíma og vesturveldin eru sökuð um nýlendustefnu þrátt fyrir að þau hafa á áratugunum eftir 1957 sérstaklega leyst upp nýlenduveldi sín, hefur hið sovéska nýlenduveldi þanist út. Um það má nefna mörg dæmi og verða kannske nefnd hér á eftir. Þar beinist sóknarþungi þessa vígvædda alræðisríkis fyrst og fremst að hernaðarlega mikilvægum stöðum á heimsbyggðinni og um leið að veikum áhrifasvæðum. Það er alkunna, að efnahagsaðstoð sovétblokkarinnar við vanþróaðar þjóðir er nær eingöngu á sviði vígbúnaðar og vopna. Það er ekki úr vegi að nefna þá staðreynd, að á annan tug milljóna flóttamanna frá þessu heimskerfi kommúnismans hefur nú rekið á fjörur vesturveldanna og þeim er ætlað að sjá þeim farborða. Það er staðreynd, að vonir, sem bundnar voru við framkvæmd Helsinkisáttmálans af hálfu sovétmanna, hafa orðið að engu og sáttmálinn ekki virði þess pappírs sem hann er skrifaður á. Þar sæta allir andstöðuhópar, mannréttindabaráttuhópar, áfram og í vaxandi mæli ofsóknum og fangelsunum fyrir utan að skoðanakúgunarkerfið er algert. Vissulega styðja Sovétríkin friðarhreyfingar, en alls staðar annars staðar en heima fyrir.

Þessi þróun, þessi stutti samanburður, gefur okkur kannske tilefni til að svara þessari spurningu: Er trúlegt að með því að draga einhliða úr vígbúnaði vesturveldanna, ég tala nú ekki um ef orðið yrði við kröfunni um einhliða afvopnun, — er líklegt í ljósi reynslunnar að Sovétríkin mundu fylgja því góða fordæmi? Það er spurt: Hverra kosta eigum við völ? Og öfgakenndasta svarið er að sjálfsögðu þetta: Það vofir yfir okkur allsherjartortíming og svarið við því er aðeins eitt og það er einhliða og alger afvopnun. — Þessi heimssýn styðst að mínu mati varla við raunverulegar staðreyndir um reynsluna.

Er ekki annarra kosta völ? Vissulega er til sá kostur, að vesturveldin gangi lengra í því að afsala sér kjarnavopnum, sem varnir Vestur-Evrópu hafa þó hingað til byggst á vegna algerra yfirburða Sovétríkjanna á sviði venjulegs vopnabúnaðar. En það kostar ákveðnar fórnir. Það kostar það, að Vestur-Evrópuríkin leggi á sig þær fórnir að halda uppi herskyldu, að halda uppi vel þjálfuðum herjum og að leggja fram þá fjármuni sem þarf til að byggja upp varnarkerfi í Vestur-Evrópu sem væru mun dýrari og gerðu mun meiri kröfur til fórnfýsi og vilja fólksins í þessum löndum til að kosta einhverju til í staðinn fyrir að vilja þiggja öryggi sitt að gjöf frá Bandaríkjunum. Þeir menn, sem vekja athygli á háskanum sem stafar af kjarnorkuvopnavígbúnaðarkapphlaupinu, hafa talsvert til síns máls, og það hefur enginn einkarétt á því að vara við þeim háska. En ég fyrir mitt leyti mundi taka meira mark á þeim mönnum, sem um leið og þeir vara við hugsanlegum afleiðingum, þó ekki væri nema fyrir tæknileg mistök og slys, fylgdu því eftir með því að setja fram kröfuna um að Vestur-Evrópuríkin tækju á sig þá ábyrgð og legðu á sig þær fórnir sem þarf til að byggja upp venjulegan varnarviðbúnað í staðinn.

Hinn kosturinn, að binda endi á það varnarsamstarf sem verið hefur á tímabilinu frá stríðslokum milli Vestur-Evrópuríkjanna og Bandaríkjanna, er að sjálfsögðu meginmarkmið sovéskrar utanríkisstefnu í okkar heimshluta og mundi náttúrlega þýða stórkostlegasta sigur sovéskrar utanríkisstefnu sem um getur frá upphafi byltingar. Þar með væri Vestur-Evrópa komin í pólitíska gíslingu Sovétríkjanna með nákvæmlega sama hætti og Austur-Evrópa. Það er spurt: Vilja menn heldur vera dauðir en rauðir? Vilja menn heldur vera rauðir en dauðir? Og spurningin er út í hött. Menn vilja lifa í fyrsta lagi og menn vilja lifa sem frjálsbornir menn í þjóðfélagi frjálsborinna manna. Það er of mikill skortur á æðruleysi að gangast heimsendaspánni á hönd og segja: Við eigum aðeins tveggja kosta völ; skilyrðislausrar uppgjafar eða tortímast ella.

Ég sagði, að það væri sitthvað að athuga við samanburðarfræði hv. þm. að því er varðaði vopnastyrkleika hinna tveggja hernaðarbandalaga, og ég saknaði þess, að þar hefði ekki verið vikið einu orði að því sem í þessum umræðum er gjarnan kallað „hin evrópska martröð“. Yfirburðir Bandaríkjamanna á sviði langdrægra kjarnavopna heyra fortíðinni til. Það er svo komið að hvorki evrópskar ríkisstjórnir né sovéskir herfræðingar leggja lengur trúnað á að kjörinn Bandaríkjaforseti muni fást til þess í alvöru að ýta á hnapp til að setja af stað allsherjartortímingar- og gereyðingarstyrjöld, sem m.a. fæli það í sér að leggja Bandaríkin í rúst, til að verja Evrópu, jafnvel þótt svo væri komið að hún væri að tapa venjulegri styrjöld sem Sovétríkin hefðu hafið með venjulegum vopnum. Sá mikilhæfi og gagnmerki stjórnmálaleiðtogi de Gaulle Frakklandsforseti var á sínum tíma, mörgum árum áður en þessi umræða varð almenn, ekki trúaður á raunverulegt gildi þessarar kenningar um hið ameríska ógnarjafnvægi. Hann brást við með þeim hætti að hann ákvað fyrir hönd Frakka að byggja upp eigin kjarnavopnakerfi. Þarf ekki að hafa mörg orð um það, að kjarnavopnakerfi hinna minni háttar Evrópuríkja, Bretlands og Frakklands, eru ekki af því taginu að þau aftri Sovétríkjunum eða skapi þeim þá áhættu sem dugi til að aftra þeim frá innrás ef til kemur. En það breytir ekki því, að hugsunin er sú hin sama. Hin margfræga kjarnavopnaregnhlíf Evrópu, sem Evrópumenn trúðu á á árunum eftir stríð, er endanlega úr sögunni frá og með þeim tíma að risaveldin urðu jafnvíg á því sviði. Þá standa Vestur-Evrópubúar frammi fyrir því, að þeir horfast í augu við margfalda yfirburði Sovétríkjanna í venjulegum vopnabúnaði. Þeir geta ekki treyst á einhverja vernd undir bandarískri kjarnavopnaregnhlíf. Og þeir eiga þriggja kosta völ. Annar er sú ákvörðun, sem tekin var af NATO í des. 1979, að endurnýja meðaldræg kjarnavopnakerfi í Evrópu, sem á að tryggja að varnarsamstarf Evrópu og Bandaríkjamanna rofni ekki, tryggja bandaríska þátttöku í vörnum Evrópu. Hinn kosturinn er að hafna þessari leið, en byggja þá í staðinn upp nothæfan varnarviðbúnað á sviði venjulegra vopna. Og þriðji kosturinn, sem sumir boða, er pólitísk og hernaðarleg uppgjöf.

Í stórræðu sinni á þriðjudaginn fyrir páska gaf hv. 11. þm. Reykv. okkur svolítinn útdrátt af umræðum um þessi mál í heimspressunni og Tímanum. Það væri ekki úr vegi að leiðrétta svolítið þá heimsmynd með því að vitna í eitt rit, gefið út á vegum International Institute for Strategic Studies, sem áður hefur verið vitnað til, og ber heitið „Kjarnavopn í Evrópu.“ Þar segir á bls. 9:

„Reynsla síðustu tveggja áratuga sýnir greinilega að Sovétstjórnin leggur mun meiri áherslu á örugg skotmörk fyrir eldflaugaárásir á Vestur-Evrópu en menn hugðu. SS-20 eldflaugarnar sanna að ef til átaka kemur er tilgangurinn sá að koma í veg fyrir að NATO beiti takmörkuðum kjarnavopnum, jafnvel þótt styrjöld með venjulegum vopnum væri að takast. Á friðartímum beinist þessi mikli kjarnorkuvopnavígbúnaður Sovétríkjanna að Vestur-Evrópu, að því að minna evrópskar ríkisstjórnir á vald Sovétríkjanna og sem tæki til að rjúfa samvinnu Evrópuríkjanna.“

Á bls. 6–7 í sama riti segir: „Upp úr miðjum sjöunda áratugnum varð sú breyting, að sovétstjórnin lagði vaxandi áherslu á kjarnavopn sem beinast eingöngu að meginlandi Vestur-Evrópu. Hér er ekki eingöngu átt við SS-20 eldflaugakerfið eða Backfire sprengjuflugvélar. Þessi vopn styrkja hernaðarlega og pólitíska stöðu Sovétríkjanna gagnvart Vestur-Evrópu. Sérhver SS-20 eldflaug er búin þremur kjarnaoddum. Þær eru hreyfanlegar og þar af leiðandi auðverjanlegri en fyrri kerfi. Þær eru miklu nákvæmari en forverar þeirra, SS-4 og SS-5: nákvæmni innan marka 440 fet á 2000 mílna færi eða vegalengd. Vegalengdin er nægjanleg til að ná öllum vestur-evrópsku skotmörkum sem til greina koma þótt skotpallar þessara flauga yrðu færðir austur fyrir Úralfjöll.“

220 slíkar eldflaugar, 660 kjarnaoddar, voru í skotstöðu, beint á skotmörk í Vestur-Evrópu, um mitt ár 1981. Síðan hefur einni slíkri verið bætt við á viku hverri þar til náð var því marki sem dugði til þess að ná öllum hugsanlegum skotmörkum í Evrópu. Þá hélt félagi Brésnev merka ræðu og sagði: Nú ætla ég ekki að gera meira, ef ykkur væri sama, gegn því að vesturveldin aðhafist ekkert og falli frá fyrri ákvörðun um varnarviðbúnað, — sem reyndar á að koma til framkvæmda á árunum 1983–1988.

Önnur meginbreyting, lítið rædd, er endurnýjun mun skammdrægari svokallaðra „taktískra kjarnavopnakerfa“ af hálfu Sovétmanna. Þeir hafa komið upp 1300 eldflaugaskotpöllum í herafla sínum á landssvæðum Austur-Evrópuríkjanna, þ.e. leppríkja sinna í Austur-Evrópu, fyrir mun skammdrægari eldflaugar. Þessi kerfi hafa nú verið endurnýjuð. Þau heita SS-21, SS-22 og SS-23. Öll þessi nýju skammdrægu eldflaugakerfi Sovétmanna eru nákvæmari og hreyfanlegri og er beint að fjölbreytilegri skotmörkum en forverum þeirra. Sprengikrafturinn er minni og tilgangurinn er notkun í takmörkuðu Evrópustríði. Herfræðingar ræða um að þessi nýju skammdrægu eldflaugakerfi geti nægt til að fæla Atlantshafsbandalagsríkin frá því að beita kjarnorkuvopnum yfirleitt, jafnvel við skilyrði tapaðrar styrjaldar með venjulegum hætti, auk þess að þau tryggja Sovétmönnum margumrædda fyrsta höggs getu. Á móti þessu er það staðreynd, að Atlantshafsbandalagið hefur ekki endurnýjað meðaldrægt eldflaugakerfi sitt í 17 ár, að engin af núverandi eldflaugakerfum á vegum Atlantshafsbandalagsins, sem komið er fyrir á meginlandi Evrópu, ná út fyrir Austur-Evrópu á sovéskt landssvæði. Menn segja hins vegar: Vesturveldin eiga yfir að ráða flugvélum sem búnar eru kjarnorkusprengjum. Svarið við því er að þar er ekki um gildan samanburð að ræða, m.a. vegna þess, hversu loftvarnartækni hefur fleygt fram, þannig að líkurnar á því að slíkar flugvélar næðu í gegnum loftvarnarmúr fara síminnkandi. Ein niðurstaðan af þessum umræðum er að sjálfsögðu sú, að við erum að nálgast vígbúnaðarkapphlaup á sviði kjarnorkuvopna sem er að leiða til þeirrar rökréttu niðurstöðu, að ógnin, sem af þeim stafar, veldur því, að þeim er ekki hægt að beita, og sá þáttur andmælanna gegn kjarnorkuvígbúnaði hefur við gild rök að styðjast. Ef menn fallast hins vegar á annað borð á þau rök verða menn að taka til gaumgæfilegrar athugunar hvort eina svarið sé ekki að efla venjulegan vígbúnað með svokölluðum venjulegum hefðbundnum vopnum í staðinn.

Ég spurði áðan hvernig stæði á því, að í umræðum um þessi mál, í umr. um samanburð á styrkleika og vígbúnaði þessara tveggja hernaðarbandalaga, hefði hvergi verið vikið að neinni skýringu á því, hvers vegna evrópskar ríkisstjórnir tóku ákvörðun um það í des. 1979 að endurnýja meðaldræg kjarnavopnakerfi sín. Var það frumkvæði að nýju vígbúnaðarkapphlaupi? Er ekki nóg sagt til að sýna fram á að það eru viðbrögð við því hvernig Sovétmenn hafa einbeitt sér að því að vígbúast með kjarnavopnakerfum og beina þeim einvörðungu að Vestur-Evrópu? Af hverjum var sú ákvörðun tekin? Er það rétt, sem fullyrt er, að þessari ákvörðun um endurnýjun kjarnavopnakerfa hafi verið þröngvað upp á evrópskar ríkisstjórnir? Það er alrangt. Þessi ákvörðun var tekin að frumkvæði ríkisstjórna í Evrópu. Tilgangurinn var að endurreisa svokallað „deterrence power“, þ.e. öftrunargetu Vestur-Evrópu, með því m.a. að tryggja bandaríska nærveru og þátttöku í vörnum Evrópu, svo sem verið hefur frá stríðslokum og þetta varnarsamstarf hefur byggst á. M.ö.o.: það, sem á bak við þessa ákvörðun bjó, var óttinn við takmarkað Evrópustríð sem gæti hlotist af jafnvægi vígbúnaðar milli risaveldanna, vegna þess að eftir að það jafnvægi náðist býr Evrópa ekki yfir neinum þeim búnaði sem þarf til að aftra Sovétríkjunum eða skapa þeim áhættu sem dugir til þess.

Það má spyrja og er nauðsynlegt að spyrja: Hverjar væru afleiðingarnar pólitískt og hernaðarlega ef vesturveldin féllu einhliða frá fyrri ákvörðun sinni um þetta efni? Sovétríkin hafa nú þegar í skotstöðu fleiri SS-20 eldflaugar með kjarnabroddum en Atlantshafsbandalagsríkin í heild mundu hafa árið 1988, eftir að búið væri að framkvæma umrædda ákvörðun. Nú þegar er það svo. Ef þau falla frá þessari ákvörðun er ein mjög áhrifamikil spurning: Um hvað eiga Sovétríkin að semja á samningafundunum í Genf þegar þau hafa þegar náð tilgangi sínum og fyrir liggur að vesturveldin hafa einhliða ákveðið að láta gott heita? Hvaða hvatningu hafa Kremlverjar til að ná samningum um gagnkvæma afvopnun að því er varðar meðaldræg kjarnavopnakerfi í Evrópu? Má spyrja þeirrar spurningar, hvort líkurnar á styrjöld og átökum muni aukast eða minnka þegar svo er komið að ljóst er að varnargeta Evrópuríkjanna er lítil sem engin? Er ekki niðurstaðan sú, að þá væri svo komið að Vestur-Evrópa væri að endurlifa nýjan Münchensamning, m.ö.o.: hún væri í reynd komin í pólitíska gíslingu Kremlverja?

Ég held að það sé ekki hægt að ræða þessi mál án þess að víkja einu einasta orði að utanríkispólitískum markmiðum Sovétríkjanna. Og það væri náttúrlega hægt hér að fara mörgum orðum um skilgreiningu t.d. franskra jafnaðarmanna, skilgreiningu ráðherra í ríkisstjórn Mitterands, sem þeir Alþb.-menn hafa stundum verið að gæla við um stuðning við, hvernig þeir skilgreina þann háska sem Evrópuríkjunum stafar af gífurlegri hernaðaruppbyggingu Sovétmanna sem beint er að Evrópu. Það er alveg ljóst, að meginmarkmið sovéskrar utanríkispólitíkur í heimshluta okkar er að rjúfa Atlantshafssamstarfið, að reka fleyg milli Evrópu og Bandaríkjanna, að binda endi á það öryggiskerfi sem dugað hefur Evrópu í svo óvenjulega langan tíma sem hinn hálfi fjórði áratugur óneitanlega er, að hnekkja „deterrentkenningunni“ í reynd, að skapa sér þá aðstöðu, að Sovétríkjunum verði ekki aftrað með neinni áhættu frá því að hóta að beita valdi og ná þannig fram því sem þau vilja í pólitískum áhrifum. Slík pólitík væri lamandi á friðartímum, hún væri banvæn á ófriðartímum, og sögulega séð er óhjákvæmilegt að rifja upp að hún minnir um of á reynslu Evrópuþjóðanna af svokallaðri „appeacement“ eða Münchenarstefnu Chamberlains og fylgifiska hans á sínum tíma. Þess vegna kemur mér það a.m.k. ekki á óvart þótt tékkneskir andófsmenn loki dyrum sínum þegar þeir eru sóttir heim af fulltrúum vestur-evrópskra hreyfinga sem vilja boða þeim það fagnaðarerindi, að Vestur-Evrópa afvopnist einhliða frammi fyrir hernaðarmætti hins vígvædda lögregluríkis í austri.

Þá er ég kominn að hinum heimssögulegu tímamótum. Þau eiga að vera í því fólgin að eftir að hugmyndafræðilegar deilur, sem líkja má við 100 ára stríð, hafa staðið með litlum hléum milli kommúnista og sósíaldemókrata, þá var svo komið að í stórræðu sinni fyrir páska sagði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson að hann væri því sem næst í öllum meginatriðum sammála málflutning jafnaðarmanna í alþjóðamálum og bæri þar mun minna á milli en milli hans annars vegar og hæstv. utanrrh. í þeirri ríkisstjórn, sem hann styður, hins vegar. Hann taldi upp mörg dæmi þessu til sönnunar, en tók að vísu fram að það hefði verið miðkafli í ræðu formanns Alþfl., Kjartans Jóhannssonar, sem hann mundi, ef tími gæfist til, gera nokkrar aths. við. Við erum hér að ræða skýrslu utanrrh. og við erum hér auðvitað fyrst og fremst að ræða íslensk utanríkis- og öryggismál, sem að sjálfsögðu þýðir um leið að við tökum afstöðu til alþjóðamála. En í tilefni af þessum heimssögulegu fyrirhuguðu sáttum má ég til með að koma að nokkrum spurningum, — að vísu get ég ekki beint þeim til hv. þm. þar sem hann er fjarstaddur, en treysti því, að flokksbræður hans hér í húsinu verði til þess við þessar umr. að svara þeim spurningum. Spurningarnar eru mjög einfaldar. Þær eru: Er svo komið að Alþb. sé sammála eftirfarandi atriðum sem fram komu sem meginkjarni í ræðu formanns Alþfl., Kjartans Jóhannssonar?

Kjartan Jóhannsson sagði: „Sívaxandi vígbúnaður Sovétríkjanna á undanförnum árum, innrás þeirra í Afganistan og nú síðast frelsiskúgunin í Póllandi, sem gerðist undir sovéskum þrýstingi, er vissulega rót þeirrar aukningar í hernaðarútgjöldum sem nú á sér stað.“

Þetta er önnur heimsmynd en fram kom í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Ég spyr: Eru þeir Alþb.menn sammála Kjartani Jóhannssyni um þetta?

Kjartan sagði: „Nú er hins vegar vaxandi spenna milli austurs og vesturs. Aðgerðir Sovétríkjanna hafa lagt eldiviðinn í þann tortryggnisloga.“

Ég spyr enn: Eru Alþb.-menn sammála þessari yfirlýsingu formanns Alþfl.? Eitthvað er þetta önnur heimsmynd en fram kom í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar þar sem Sovétríkin komu eiginlega ekkert við sögu.

Kjartan Jóhannsson sagði um friðarhreyfingar: „Þetta eru sundurleitar hreyfingar að því leytinu, að áhersluatriði ýmissa hópa innan hreyfinganna eru misjöfn. Helsta ágreiningsefnið er um kröfuna um einhliða afvopnun.“ Um það sagði Kjartan Jóhannsson: „Hinn einfaldi sannleikur er nefnilega sá, að einhliða takmörkun vígbúnaðar mun ekki endast. Hér getur hvorki gilt: Fyrst þú, svo ég, né heldur: Fyrst ég, svo þú. Skrefin verður að stíga jafnt.“

Ég spyr enn: Eru þeir Alþb.-menn sammála þessari afstöðu til friðarhreyfinganna? Það kom ekki fram í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar.

Kjartan Jóhannsson sagði um kjarnavopnalaus svæði á Norðurlöndum: „Einhliða yfirlýsing án tilslakana af hálfu grannans í austri eða án samhengis við aðra þætti hefur hins vegar aldrei komið til greina, enda leysir hún engan vanda, sem sást berlega af því þegar sovéskan kafbát rak á sænskar fjörur, og mun það vera eina skiptið sem Norðurlönd hafa ekki verið kjarnorkuvopnalaust svæði.“

Ég spyr enn: Eru þeir Alþb.-menn sammála því, að tilslakanir komi ekki til greina nema því aðeins að það risaveldi, sem á Kólaskaga og höfnum Eystrasalts beinir 16 eldflaugum að skotmörkum á Norðurlöndum, verði dregið inn í það og dragi ógnarvopn sín til baka?

Kjartan Jóhannsson sagði um Afganistan: „Sovétríkin gengu þar á land vegna þess að í Afganistan var valdalegt tómarúm sem þau töldu sig geta fyllt upp í afskiptalaust.“

Ég spyr þá Alþb.-menn: Aðhyllast þeir kenninguna um tómarúmið, um að líkindi séu á því, að Sovétríkin muni, þegar tómarúm er skapað, fylla það með hervaldi eins og þeim þóknast? Ekki kom það fram í ræðu hv. þm.

Kjartan Jóhannsson sagði í ræðu sinni um Falklandseyjar: „Innrás Argentínu í Falklandseyjar nú á dögunum sýnir hvernig óprúttnir einræðisherrar hagnýta sér varnarleysi eða viðbúnaðarleysi til að hernema lönd.“ Og enn fremur: „Í þessum þremur dæmum af Afganistan, Póllandi og Falklandseyjum getum við séð að viðbúnaðarleysi býður freistingu heim, að útþenslustefna Sovétríkjanna nýtir sér sérhvert tómarúm, sem ógnun um íhlutun leiðir til herlaga og kúgunar mannréttinda á áhrifasvæðum Sovétkommúnismans og hver sá, sem lent hefur undir járnhæl þessa kommúnisma, er sífelldlega brotinn til hlýðni.“

Ég spyr enn: Eru Alþb.-menn sammála því sem hér er sagt? Það kom ekki fram í margvitnaðri stórræðu. Formaður Alþfl. sagði um Atlantshafsbandalagið:

„Atlantshafsbandalagið var stofnað sem vörn gegn útþenslu kommúnismans. Hlutverk þess var að tryggja lýðfrjálsum þjóðum á norðurhveli frið og öryggi og standa þannig vörð um lýðræðisskipulagið. Það hefur tekist.“

Í ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar kom það fram, að Kjartan hefði hvergi minnst á það, góðu heilli, að Atlantshafsbandalagið hefði neinu hlutverki að gegna til varnar lýðræðisskipulaginu og væri það honum til hróss. Þarna skaust honum. En ég spyr enn: Eru þeir Alþb.menn sammála þessari afstöðu til Atlantshafsbandalagsins? Það væru sannarlega söguleg tíðindi.

Kjartan Jóhannsson sagði enn fremur: „Hlutleysi er engin trygging. Þvert á móti skapast tómarúm við ríkjandi aðstæður, sem útþensluþjóð leitast við að fylla sem dæmin sanna.“ Og hann sagði enn fremur: „Það varnar- og öryggisfyrirkomulag, sem við höfum búið við, hefur látið okkur njóta friðar. Það vitum við og við kunnum engin betri ráð til að treysta öryggi okkar. Það hefur ríkt jafnvægi á okkar slóðum. Röskun þess jafnvægis af okkar hálfu væri mjög óviturleg.“

Ég segi enn: Ef þeir Alþb.-menn vilji lýsa yfir í umr. hér á eftir, að þeir styðji þessi grundvallarsjónarmið jafnaðarmanna í utanríkismálum, kalla ég það nokkur tíðindi.

Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl., sagði um stefnu Alþb. um hlutleysið eftirfarandi: „Varnarleysi Íslands, eins og Alþb. boðar, byði heim hættu á hernámi og ógnunum af því tagi sem ég rakti dæmi um áðan.“

Ég spyr: Hafa Alþb.-menn fallið frá hlutleysiskenningum sínum?

Kjartan Jóhannsson fjallaði í ræðu sinni um skotmarkskenningu Alþb. og sagði: „Ég segi: Varnarleysi við núverandi aðstæður mundi gera okkur að tálbeitu og skotmarki beggja. Tómarum á Íslandi í þessum skilningi, eins og Alþb. berst fyrir, mundi auka umsvif beggja á hafinu umhverfis okkur og við gerðum frelsi okkar, öryggi og sjálfstæði að leiksoppi.“

Eru þeir Alþb.-menn sammála því, að sú utanríkispólitík Íslendinga, sem þeir hafa rekið á fjórða áratug, sé tóm vitleysa, eins og hér er lýst? Það væri ómaksins vert að fá að heyra það af þeirra vörum.

Um eðlisbreytingu herstöðvarinnar í Keflavík sagði Kjartan Jóhannsson, en það er ein kenning þeirra Alþb.manna: „Kjarninn í þessum áróðri hefur verið sá, að Keflavíkurstöðin hafi tekið eðlisbreytingu og sé árásarstöð. Þessar fullyrðingar fá ekki staðist. Í 20 ár hefur engin eðlisbreyting átt sér stað.“

Er þessi kenning líka fallin um koll? Kannske þeir Alþb.-menn svari því hér á eftir.

Um eðlisbreytingu sovéska flotans sagði Kjartan Jóhannsson hins vegar eftirfarandi: „Á hinn bóginn hafa orðið verulegar eðlisbreytingar á sovéska flotanum á norðurhöfum. Uppbygging hans er gífurleg.“ Hann rakti frekari dæmi um það.

Eru Alþb.-menn reiðubúnir að lýsa því yfir hér á eftir, að eðlisbreytingarkenning þeirra nái líka til sovéska flotans og þeirrar ógnunar sem hann veldur okkur sem eyþjóð á norðurhöfum, á einhverju vígvæddasta svæði jarðarinnar?

Um upphlaup Alþb. varðandi samskipti við varnarliðið sagði formaður Alþfl.: „Öll hafa þau runnið út í sandinn. seinast hafði það, Alþb., í hótunum í svonefndu Helguvíkurmáli, er við lá að iðnrh. tækist að koma í veg fyrir að íslenskar hendur fengju að vinna verk við rannsóknir á svæðinu. Þessi málatilbúnaður var ráðh. til háðungar.“

Vilja þeir Alþb.-menn taka undir þetta?

Um flugstöðvarbyggingu sagði Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl.: “Ég vil nota tækifærið til að skora á hæstv. utanrrh. að beita sér með öllum tiltækum ráðum og alkunnri festu og klókindum fyrir framgangi flugstöðvarmálsins.“

Það mundu þykja nokkur tíðindi fyrir þinglok ef þeir Alþb.-menn, og þá sér í lagi hv. 11. þm. Reykv., tækju nú undir þetta sjónarmið jafnaðarmanna.

Að lokum komst formaður Alþfl. að orði á þessa leið, um sjálfan hornstein Íslenskrar utanríkisstefnu: “Ég hef gert grein fyrir viðhorfum okkar Alþfl.-manna til ýmissa þátta í utanríkismálum. Við teljum bæði rétt og sjálfsagt að gildandi fyrirkomulag í vörnum landsins verði einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu hér eftir sem hingað til.“

Þetta var ekki í miðkaflanum. Þetta voru niðurlagsorðin til áréttingar á kjarna þess máls sem hann hafði flutt. Og nú spyr ég mjög einfaldlega og sakleysislega: Hv. 11. þm. Reykv., helsti talsmaður Alþb. í utanríkis-, öryggis- og alþjóðamálum, lýsti því yfir, að hann hefði orðið fyrir'heimssögulegri vitrun þegar hann hlýddi á þessa ræðu. Hann sagði að í öllum grundvallaratriðum, öllu því sem mestu máli skipti, væri hann sammála formanni Alþfl. í þeim málflutningi sem hann hefði flutt hér, að undanskildum nokkrum minni háttar atriðum í miðkafla sem hann mundi gera aths. við. Ef rétt reynist kolla ég það sannarlega — ef ekki heimssöguleg þá a.m.k. mjög söguleg tíðindi í íslenskum stjórnmálum, og nú bíð ég eftir svörum þeirra hv. Alþb.-manna. Ég vildi mjög gjarnan heyra svör formanns Alþb., Svavars Gestssonar, við þessum spurningum, hvort hann hefur orðið fyrir sömu vitruninni og hvort hann telur að hin sömu sögulegu tímamót séu upprunnin. Ég bíð eftir þeim svörum til þess að við getum þá gengið úr skugga um og haft nokkurn undirbúningstíma að því að kalla saman nýtt sameiningarflokksþing og ganga frá endanlegum samruna þessa nýja jafnaðarmannaflokks á grundvelli þeirrar utanríkisstefnu sem hér hefur verið mótuð.

Ég minnist þess að vísu að háfa heyrt þá talsmenn Alþb. fyrr lýsa því yfir, að héðan í frá sé fortíð þeirra í ösku og þeir séu nú afturbatasósíaldemókratar. Einkum og sér í lagi er þeim gjarnt að lýsa þessu yfir þegar það hendir, sem ber ósjaldan við, að sósíaldemókratar vinni kosningasigra í útlöndum. Þá koma skeytasendingar og yfirlýsingar um að Alþb. íslenska sé nú eiginlega alveg eins og franski sósíalistaflokkurinn eða alveg eins og gríski sólsíalistaflokkurinn eða alveg eins og spænski sósíalistaflokkurinn. Og það er í samræmi við yfirlýsingu hv. 11. þm. Reykv. Hann er eiginlega í stórum dráttum alveg sammála jafnaðarmönnum um utanríkis- og öryggismál, en með fáeinum undantekningum. Undantekningin var í hans tilviki ritstjóri Alþýðublaðsins. En skyldu þeir Alþb.-menn vera mikið sammála málflutningi franskra jafnaðarmanna í utanríkismálum. Hver er stefna franskra jafnaðarmanna í helstu dráttum alþjóðarnála sem við höfum verið að ræða hér í kvöld? Hver er stefna franskra jafnaðarmanna í málefnum Evrópu? Hver er afstaða þeirra til Atlantshafsbandalagsins? Við skulum gefa utanrrh. í ríkisstjórn Mitterands orðið. Hann sagði í viðtali við bandarískt vikurit orðrétt: “Atlantshafsbandalagið er forsenda utanríkisstefnu okkar.“ Hingað til hefur þetta heitið á máli Þjóðviljans að vera Bandaríkjaleppur og heimsvaldasinni. Utanrrh. franski sagði: “Atlantshafsbandalagið er aðferð til andófs gegn útþenslu alræðisafla.“ Hingað til hefur þetta verið kallaður kaldastríðsáróður í Þjóðviljanum. — Utanrrh. franskra jafnaðarmanna sagði tíka: “Við munum halda áfram að byggja upp og endurnýja hervarnir okkar og þó alveg sérstaklega einhliða vald okkar yfir kjarnavopnum. “Er ekki þetta syndsamlegt tal? Hvernig stendur á því, að utanrrh. franskra jafnaðarmanna, sem Alþb. hefur margítrekað sent skeyti og áréttað samstöðu sína við — allt annað mál en með Íslenska jafnaðarmenn — getur slíkar yfirlýsingar? Utanrrh. franskra jafnaðarmanna segir orðrétt í umræddu viðtali: “Frá okkar bæjardyrum séð raska SS-20 eldflaugar Sovétmanna, sem beint er að 660 skotmörkum í Vestur-Evrópu, valdajafnvæginu í Evrópu. Við getum ekki sætt okkur við það og við munum ekki sætta okkur við það.“ Í fréttabréfi íslenskra herstöðvaandstæðinga er sjaldan fjallað um Sovétríkin, en þó minnist ég þessarar tilvitnunar: “Sovétríkin koma okkur ekkert við.“ Ætli þetta dugi ekki sem svolítið sýnishorn um það, að yfirlýsingarnar um hina nýuppgötvuðu samstöðu með sjónarmiðum jafnaðarmanna í alþjóðamálum eigi nokkuð langt í land áður en hægt er að mæla með inntökubeiðni þeirra í Alþjóðasamband jafnaðarmanna.

Hins vegar er ástæða til að spyrja. Sögulega séð er auðvitað alþekkt staðreynd, að hinn íslenski kommúnistaflokkur og sósíalistaflokkurinn íslenski gerðu það að eins konar prófsteini á hollustu manna við sósíalisma að menn styddu málflutning Sovétríkjanna, utanríkisstefnu Sovétríkjanna yfirleitt á alþjóðavettvangi skilyrðislaust. Þetta var grundvallarkenning, grundvallartrúarsetning, sem var svo mikils virði að hún skipti sköpum um flokkaskipun á Íslandi, skipti sköpum um hverjir gætu starfað saman á vinstra væng íslenskra stjórnmála.

Nú kunna menn að segja: Þetta var í fortíðinni og a.m.k: eftir innrásina í Tékkóslóvakíu hefur kveðið nokkuð við annan tón. — Og það er rétt. Það hefur ítrekað gerst að þegar mönnum þykir upp úr sjóða í Gúlaginu, þá hafa forustumenn hins endurreista Alþb. sent samúðarkveðjur sínar til fórnarlamba alræðiskerfisins. En spurningin er: Eru samúðarkveðjur nóg? Er ekki ástæða til að spyrja? Ef það er svo, að þeir hafi nú hafnað þeirri þjóðfélagsfyrirmynd sem þeir börðust fyrir áratugum saman og var reyndar sjálfur pólitískur tilverugrundvöllur þeirra og Sovétríkin komu þeim ekki lengur neitt við í þeim skilningi, er þá ókurteisi að spyrja: Hvað hefur komið í staðinn? Hafa þeir endurskoðað þennan hugmyndaarf? Hafa þeir endurmetið sovétríkin? Viðurkenna þeir nú að Sovétríkin séu hervætt alræðisríki sem lýðræðisríkjunum stafi ógn af Hafa þeir þá ekki endurmetið afstöðu sína til þátttöku í varnarsamstarfi lýðræðisríkja? Er ekki kominn tími til að játa það, eins og ítalski kommúnistaflokkurinn t.d. gerir, að vörnum Ítalíu sé þrátt fyrir allt best komið í varnar- og öryggiskerfi Evrópuríkjanna? Hvað er langt í land að þeir dragi rökréttar niðurstöður af pólitísku gjaldþroti sínu í hugmyndafræðilegum efnum? Það væri óskandi að hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson, færi með rétt mál þegar hann sagði að hann hefði orðið fyrir þeirri vitrun að honum og jafnaðarmönnum, íslenskum jafnt sem erlendum, bæri orðið lítið í milli.

Í þessum umr. hefur nokkuð verið fjallað um friðarhreyfingarnar. Matið á þeim er nokkuð mismunandi. Sú sögulega breyting hefur átt sér stað á seinustu árum, að Evrópa getur ekki lengur lifað í ímynduðu öryggi undir bandarískri kjarnavopnaregnhlíf. Og þá ber svo við að Evrópumenn, sem létu sér ógn kjarnavopna í léttu rúmi liggja meðan afleiðingarnar af hugsanlegu kjarnorkustríði hefðu sneitt h já garði þeirra, lita þau mál nú öðrum augum. Það er eðlilegt og það er mannlegt og það er skiljanlegt. Þessi umræða fer fram í ljósi þeirra staðreynda, að ef Vestur-Evrópuríkin hafna, sem rök má færa fyrir, þeirri kenningu, að endurnýjun kjarnavopna í Evrópu færi þeim nokkra raunverulega vörn, þá verða menn að gera það upp við sig hvort heldur skuli gera; gefast upp, afvopnast eða byggja upp varnarstyrk með venjulegum vopnum.

Það eru margar ástæður fyrir því, að það er eðlilegt að Evrópubúar beri ekki lengur skefjalaust traust til bandarískrar stjórnmálaforustu. Því veldur margt. Hin pólitíska forusta Bandaríkjamanna fyrir málstað vestrænna lýðræðisríkja beið nánast ómælanlegan hnekki í Víetnamstríðinu og afleiðingum þess. Watergate bætti ekki úr skák. Reikul og ráðvillt og sveiflukennd utanríkispólitík Carters fyrrv. Bandaríkjaforseta var ekki traustvekjandi. Það var ekki mjög traustvekjandi að horfa upp á hið forðum nær almáttuga bandaríska risaveldi horfa hjálparlaust og hjálparvana upp á að svokallaðir stúdentar tóku bandaríska sendiráðið í Íran herskildi og héldu því í gíslingu. Menn standa jafnvel frammi fyrir því, að tilraun sendiráðsmönnum til bjargar mistókst. Það er ákaflega lítil ástæða til að lýsa yfir miklum stuðningi við pólitíska forustu Bandaríkjanna fyrir bandalagi lýðræðisríkjanna, eins og hún hefur birst víðs vegar í Asíu, Afríku, hvað þá Suður- og Mið-Ameríku.

Það er líka athyglisvert að staldra við þá staðreynd, eins og breska blaðið The Guardian vék að í ritstjórnargrein fyrir einum 2–3 mánuðum, að það verður að teljast makalaust með ríki eins og Sovétríkin, alræðisríki af því tagi sem hangir uppi á valdbeitingunni einni saman og útilokar allar þjóðfélagsbreytingar, viðurkennir engin mannréttindi, sem kappsamlega hefur á sama tíma og vesturveldin drógu úr varnarviðbúnaði sínum byggt upp gífurlegan hernaðarmátt, bæði með venjulegum vopnum og kjarnavopnum, að á sama tíma og þetta gerist, á sama tíma og þau hernema hlutlaust grannríki,sitt Afganistan, á sama tíma og þau kveða niður mannréttindahreyfinguna í Póllandi er það útbreidd skoðun í Vestur-Evrópu, að þetta alræðisríki, þetta hervædda alræðisríki, sé boðberi friðarins, sé aldeilis sérlegur boðberi friðarins, og það er borið saman við Bandaríkin t.d. með þeim hætti að Evrópubúum stafi miklu meiri ógn af Bandaríkjunum en af þessum grönnum sínum í austri. Breska blaðið Guardian gaf áróðursmeisturum Kremlverja fyrstu verðlaun fyrir snilld í vel heppnaðri áróðursherferð, að menn skyldu kaupa þessa söluvöru svo auðveldlega.

Allir vita að það bætir ekki úr skák og það vekur ekki traust á Bandaríkjamönnum með hverjum hætti Reagan Bandaríkjaforseti hefur hugsað upphátt um hluti sem hann virðist ekki hafa vit á. Það er auðskilið mál, að fjölmiðlaumræða í sjónvarpi og blöðum, sem upphófst eftir að NATO tók ákvörðun sína 1979 um endurnýjun meðaldrægra kjarnavopnakerfa, vakti athygli almennings og í kjölfar hennar komu meiri upplýsingar um hinar ógnvænlegu afleiðingar þess sem gerist ef til raunverulegs kjarnorkustríðs kemur. Það er mjög eðlilegt að það er sjálf kveikjan að því að hreyfingar rísa upp í Vestur-Evrópu, sem fela það kannske fyrst og fremst í sér að þessi mál eru ekki lengur rædd bara af sérfræðingum, heldur eru pólitíkusar og sérfræðingar krafðir ábyrgðar og skýringa á gerðum sínum, og það er jákvætt. Það er skiljanlegt í þröngbýli Vestur-Evrópu, að menn fyllist ótta og beyg þegar slökunarstefnan skilar ekki meiri árangri en raun ber vitni. Það er eðlilegt að félagi Helmut Schmidt, kanslari Þýskalands, kalli þessa hreyfingu Angstbewegung, en hún er ekkert ómerkilegri fyrir það.

Evrópubúar hafa reynslu og hana mikla á þessari öld af því hvað styrjöld þýðir. Þeir eiga að geta skilið það, jafnvel sú kynslóð sem ekki man þær píslir, að ef til slíkra átaka kemur eru allar frásagnir fyrri tíða af plágum, skotgrafahernaði og jafnvel hinni viðbjóðslegu helför, sem nasisminn þýski bauð heilum þjóðum fyrir nokkrum áratugum, barnaleikur í samanburði við þau ósköp sem þá kynnu að vofa yfir. Það er auðvitað hverju orðinu sannara og getur hver maður farið með langar tölur um hver fórnarkostnaður varnanna er, hvað við getum byggt marga skóla, hvað við getum byggt mörg sjúkrahús, hvað við getum virkjað starfskrafta margra hæfra vísindamanna í þágu félagslegra umbóta, í þágu aukinnar hagsældar almennings, hvað við getum lagt mikið af mörkum, velferðarþjóðfélög vestursins, til að rétta þurfandi meðbræðrum okkar í þriðja heiminum hjálparhönd ef við gætum lagt allar varnir á hilluna. En við skulum einmitt út af því atriði forðast eitt. Við skulum forðast að leggja þessi tvö þjóðfélagskerfi að jöfnu, sem svo allt of margir gera. Við skulum t.d. minnast þess, að á sama tíma og lýðræðisríki Vestur-Evrópu, sem í eðli sínu og að allri þjóðfélagsgerð eru að sjálfsögðu friðsamleg þjóðfélög, eru treg til þess vegna almenningsálits og mannúðarsjónarmiða kjósenda að verja nema mjög takmörkuðum hluta af fjármunum sínum til vígbúnaðar hafa þau sjónarmið engin áhrif austan járntjalds. Lýðræðisríkin verja minna en 3% af þjóðarframleiðslu sinni til vígbúnaðar á sama tíma og risaveldið Sovétríkin ver þannig 13% og það fer vaxandi ár frá ári. Við skulum ekki leggja þessi þjóðfélagskerfi að jöfnu vegna þess að það er rangt, það er siðferðilega rangt.

En í sambandi við málflutning ýmissa friðarhreyfingarmanna skulum við líka minnast þess, að það hefur enginn einn maður, hvaða skoðun sem hann hefur, neinn einkarétt á því að boða mönnum hið ósvikna hugarfar friðarins. Við skulum játa þeirri staðreynd, að það er eðlilegt að uppi sé ágreiningur um leiðirnar. Ég get vel skilið menn sem hugsa á þá leið, að nú sé svo komið vegna þeirrar ógnar, sem af kjarnavopnum stafi, að einhliða afvopnun og pólitísk uppgjöf sé þrátt fyrir allt betra, ef það að lifa af er háð því skilyrði. Ég er hins vegar ósammála því mati, og ágreiningurinn er þess vegna um það, hvort kostirnir séu aðeins tveir, einhliða afvopnun og tortíming, eða hvort þeir eru fleiri, hvort við getum ekki fundið aðrar leiðir, sem gefa okkur bæði kost á að lifa af og lifa í þjóðfélagi frjálsra manna. Og ég vil að lokum gera nokkrar aths. við málflutning sem hafður er í frammi í nafni slíkrar friðarhreyfingar og ég tel henni ekki samboðinn.

Það er ekki nóg að segja að nú þegar sé búið að hlaða upp í heiminum kjarnavopnabúnaði sem dugi til að sprengja heiminn í loft upp sjö sinnum og Evrópu fjórum sinnum. Það er staðreynd. En ég hef eytt talsverðum kafla í mínu máli til að sýna fram á að jafnvægi ógnarinnar milli risaveldanna leysir eitt ekki þann vanda sem Evrópa stendur frammi fyrir. Og við eigum annarra kosta völ en þeirra einna að fórna höndum og gefast upp.

Mér þykir miður þegar því er haldið fram í þessum málflutningi, að spurningin um ákvörðun NATOs, sem ég er búinn að nefna oftar en einu sinni, sé til komin vegna þess að fyrir bandarískum hernaðarsinnum vaki að fórna Evrópu og gera hana að kirkjugarði. Eru menn búnir að gleyma því, að tvisvar á þessari öld hafa bandarískir hermenn verið kvaddir til Evrópu af Evrópubúum til þess m.a. að aðstoða þá við að varpa af sér alræðisoki fasismans? Eru menn búnir að gleyma því, að það eru Evrópumenn sjálfir sem nauðbáðu Bandaríkjamenn um að yfirgefa Evrópu ekki í stríðslokin og biðja um það enn hástöfum að þeir haldi lágmarki hersveita í Evrópu til tryggingar því að þetta varnarbandalag sé gagnkvæmt? Ameríka getur verið vígi og þarf ekki að hafa áhyggjur af Evrópu. Vandamálið, sem við erum að ræða um, er varnir Evrópu. Það er röng fullyrðing, að Bandaríkjastjórn hafi þröngvað kjarnavopnum upp á Evrópu. Staðreyndin er sú, að fyrsti stjórnmálamaðurinn, sem lýsti því yfir í nafni ríkisstjórnar, var félagi Helmut Schmidt á ráðstefnu í London í okt. 1977, að þörf væri á endurnýjun slíkra meðaldrægra kjarnavopna vegna evrópskra hagsmuna. Því er haldið fram, að vesturveldin hafi hafnað viðræðum. Það er kjarni þess máls, sem hm tvíþætta ákvörðun NATOs var um 1979, að þessi kerfi skyldu ekki sett upp fyrr en 1983, fjórum árum síðar, og það skilyrt því, að ef í millitíðinni næðist árangur í viðræðum við Sovétríkin um að þau drægju úr og drægju til baka og fjarlægðu SS-20 eldflaugar sínar væri þetta „prógram“ til endurskoðunar.

Ég skil ekki kröfur eða málflutning þeirra manna sem tala um það sem algert forgangsverkefni og stórpólitískt mál að þau lönd, sem fyrir fram eru kjarnavopnalaus, og þá á ég t.d. við Norðurlönd, lýsi því yfir, að þau verði kjarnavopnalaus, á sama tíma og öryggi þeirra er ógnað af kjarnavopnaveldum allt í kring. Mér finnst það undarleg kröfugerð þegar því tali er hins vegar eytt, að þetta beri að tengja víðara pólitísku samhengi um að sá aðilinn, sem ógnar öryggi Norðurlanda, fjarlægi sin morðtól. Mér finnst það undarlegur málflutningur að lesa í tímaritinu Rétti, sem verið hefur tímarit rétttrúnaðarmarxista svokallaðra á Íslandi í meira en hálfa öld, í grein eftir einn stjórnmálaritstjóra Þjóðviljans, í 2. hefti 1981, eftirfarandi orð, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur Noregur verið að breytast í risastórt flugmóðurskip fyrir bandarískar sprengjuflugvélar sem borið geta kjarnavopn, auk þess sem neti hlustunar-, miðunar- og njósnastöðva hefur verið komið á fót í Noregi til þess að þjóna kafbáta- og flotahernaði Bandaríkjanna og NATO með svipuðum hætti og á Íslandi.“

Málflutningur af þessu tagi minnir mig á það sem hét á máli íslenskra sósíalista Finnagaldur, þegar þeir fundu upp hvað flóknastar röksemdir til að sanna að í vetrarstríðinu 1939 hefðu mál þróast á þann veg, að Finnland hefði ógnað öryggi Sovétríkjanna, og tóku afstöðu, íslenskir menn, með sovéskum hernaðaraðgerðum gegn einu Norðurlanda. Málflutningurinn, sem er af þessu tagi, minnir mig satt að segja á þá forneskju. Það hefur enginn maður neina einokun á málstað friðar og það eru engir menn sjálfkjörnir til að fara einir með þann málstað. Það væri eðlilegra að menn létu verkin tala fremur en yfirlýsingarnar einar saman.

Ég hef vikið að afstöðu franskra jafnaðarmanna til utanríkis- og alþjóðamála og tel að Alþb.-menn á Íslandi gætu mikið af þeim lært. Ég hef ekki farið mörgum orðum um svokallaða „Ostpolitik“ vestur-þýskra jafnaðarmanna, sem áttu meginþátt í því að reyna að koma á eðlilegum friðsamlegum samskiptum milli austurs og vesturs, en því miður með mjög takmörkuðum árangri vegna þess að góðu fordæmi var ekki fylgt eftir.

Að því hefur oft verið vikið, að sagan og reynslan staðfesta að jafnaðarmannahreyfingarnar eru í raun og veru, eins og Benedikt Gröndal hefur orðað það, friðarhreyfingar. Kjarni þeirrar hugmyndafræði er að vísa á bug hugmyndinni um valdatöku með vopnavaldi. Þess eru ekki dæmi, að jafnaðarmenn hafi tekið völd eða reynt að halda völdum með vopnavaldi. Hins vegar má nefna þess mörg dæmi, að ríkisstjórnir undir forustu jafnaðarmanna hafi hvarvetna á hverjum tíma reynt að beita sér fyrir utanríkisstefnu og stefnu í alþjóðamálum sem sannanlega í verki hefur stuðlað að friði og þjóðfélagsumbótum.

Það er alveg augljóst mál, að þessi afstaða, svo að ég nefni aftur dæmið af frönskum jafnaðarmönnum, þýðir að í samskiptum austurs og vesturs er sú skoðun ríkjandi að þar hljóti Vestur-Evrópa að leggja á það megináherslu að viðhalda því öryggisbandalagi og því öryggiskerfi sem hvað bestum árangri hefur skilað frá stríðslokum og felur í sér að viðhalda samstarfinu við Bandaríkin. Á hinn bóginn er jafnljóst að þetta samstarf útilokar ekki og breiðir ekki yfir, að milli jafnaðarmanna og ýmissa annarra stjórnmálaflokka í Evrópu, og þ. á m. núverandi valdhafa í Bandaríkjunum, er alger ágreiningur í matinu á málefnum þriðja heimsins og stefnunni sem lýðræðisríkin eiga að fylgja í málefnum þriðja heimsins. Þær umræður hafa nú borist inn á Alþingi Íslendinga, t.d. í umræðunum um El Salvador. Þær umræður hafa líka borist inn á Alþingi Íslendinga í umræðunum um Tyrkland. Í þeim umræðum hefur komið rækilega í ljós hver ágreiningur er milli stjórnmálaflokka á Íslandi, jafnvel þrátt fyrir að þeir kunni að vera sammála um meginatriði íslenskrar öryggispólitíkur í okkar heimshluta. Það er hægt að hafa mörg orð um þennan ágreining. Hann kom svo rækilega fram í ræðu Kjartans Jóhannssonar, formanns Alþfl., að ég ætla ekki að fjölyrða um það.

Herra forseti. Lokaorð mín skulu vera þau, að mér sýnist að loknu þessu yfirliti að allmikið skorti enn á hlutlægni í þeirri heimsmynd sem birtist í málflutningi talsmanns Alþb. í þessum umr. Mér þykja enn fremur eyðurnar í málflutningi hans vera nokkuð stórar. Og samanlagt bendir þetta til þess, að þeir Alþb.-menn eigi því miður enn æðimikið ólært áður en við getum tekið að okkur, við jafnaðarmenn, að mæla með inngöngu þeirra í Alþjóðasamband jafnaðarmanna.