27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4267 í B-deild Alþingistíðinda. (3911)

364. mál, utanríkismál 1982

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann flutti hér á hv. Alþingi fyrir páska. Um skýrsluna sjálfa ætla ég ekki að ræða mikið, reyna að sneiða hjá henni, en ég styð stefnu ríkisstj. í utanríkismálum og tel að þau mál séu í traustum höndum. Við höfum notið trausts og virðingar þar sem Ísland er í samstarfi við aðrar þjóðir, og engin þjóð telur tilveru sinni ógnað af okkar völdum. Vinabönd liggja í allar áttir og þannig mun áfram verða. Ég vil undirstrika að gefnu tilefni, að ég tel að utanríkisþjónusta okkar hafi unnið störf sín þannig að til virðingarauka sé fyrir okkar litlu þjóð.

Það var gott að heyra í ræðu starfandi utanrrh. að utanríkisviðskipti okkar hafa gengið eðlilega og frá því að hæstv. núv. viðskrh. tók við því embætti hafa þau aukist. En þó gat hann þess, að endurskipulagningar væri þörf. Ég vil taka undir það og hvet hæstv. ríkisstj. til að láta hendur standa fram úr ermum og endurskipuleggja utanríkisverslunina hið fyrsta og sameina þá verslun, líklega undir utanrrn., því að ég hef áður sagt það í utanrmn. og endurtekið nokkrum sinnum, að á margan hátt er okkar utanríkisverslunarþjónusta í sendiráðunum úrelt, ef hún er þá til eða hefur nokkurn tíma verið til.

Þegar skýrsla utanrrh. var lögð fram og rædd kom hæstv. utanrrh. víða við í samskiptum Íslands við umheiminn, og ég ætla ekki að gera hana að umræðuefni. Þm. hafa nú farið vítt og breitt um skýrsluna og langt út fyrir skýrsluna, og ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði í upphafsorðum sínum áðan.

En þá dagana, sem skýrslan var rædd, voru blikur á lofti. Argentína hertók Falklandseyjar. Stóra-Bretland og Argentína höfðu í hótunum hvort við annað. Bretar sendu fjölmennt herlið áleiðis til eyjanna. Bæði löndin vígbúast. Stór floti breskra herskipa er nú í viðbragðsstöðu við eyjarnar. Átök hafa orðið við eyjuna San George. Bandaríkin hafa reynt að miðla málum án árangurs. Sendiherra Breta í Reykjavík hefur gengið á fund starfandi utanrrh. og upplýst hann um hernaðaraðgerðir og hið alvarlega ástand.

Ríkisstjórn Íslands og utanrmn. hv. Alþingis hafa rætt þetta mál — ég vil segja þetta alvarlega mál — lítillega, mál sem e.t.v. er kveikja að stórátökum með víðtækum afleiðingum fyrir okkur alla. Ég vil beina því til hæstv. starfandi utanrrh., að hann ræði þetta alvarlega mál undir þessum dagskrárlið, sem er skýrsla um utanríkismál og upplýsi hv. Alþingi um afstöðu Íslands til þess ástands eins og það nú er, þess ástands sem ég hef getið hér um að skapast hefur á alþjóðavettvangi og er þeim mun alvarlegra að í kvöld kom það fram í fréttum frá breska forsrh., að innan 24 tíma yrði eitthvað það að gerast sem væri skref í friðarátt, því lengur treysti breska heimsveldið sér ekki til að bíða með aðgerðir. Ég tel ekki rétt að sneiða fram hjá heimshluta sem þessum, enda þótt hið nýja vandamál sé yngra en sú skýrsla sem hér er til umr., og vil því endurtaka ósk mína til hæstv. utanrrh., að hann gefi þessu máli eilítinn tíma við þessar umr. um utanríkismál nú í kvöld.