28.04.1982
Efri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4291 í B-deild Alþingistíðinda. (3955)

30. mál, lyfjadreifing

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft um alllangt skeið til umfjöllunar frv. til I. um lyfjadreifingu. Með nefndinni hefur unnið aðili frá

heilbrmrn., Ingolf Petersen deildarstjóri. Nefndinni hafa borist fjölmargar umsagnir um frv., m.a. frá Lyfjaeftirliti ríkisins, Lyfjatæknifélagi Íslands, Lyfjatækniskóla Íslands, Læknafélagi Íslands, Apótekarafélagi Íslands, Félagi ísl. stórkaupmanna, þ.e. lyfjavöruhóp, Lyfjafræðingafélagi Íslands og samstarfsnefnd sjúkrahúsalyfjafræðinga. Þessir aðilar gerðu ýmsar athugasemdir í umsögnum um frv. Í störfum nefndarinnar hefur verið leitast við að taka inn ýmsar þær tillögur sem þar komu fram og nm. voru sammála um að yrðu til bóta í þessu frv. ef að lögum yrði.

Það má segja að með þessu frv. sé lokið endurskoðun á lyfsölulögum nr. 30/1963. Út úr þeim lögum höfðu áður verið teknir hlutar eins og lyfjalög og lög um lyfjafræðinga.

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þá breytingu sem verður á þessum hluta lyfsölulaga, lyfjadreifingunni, ef frv. það, sem hér er til umr., verður að lögum. Með frv. falla úr gildi eftirtaldir kaflar lyfsölulaga: II. kafli, III. kafli, V. kafli VI. kafli, VII. og VIII. kafli, enn fremur II. kafli laga um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf.

II. kafli lyfsölulaga fjallar um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi. Í frv. er gert ráð fyrir einum uppfyllingaraðila í stað tveggja vegna umsókna um lyfsöluleyfi. Gert er ráð fyrir þriggja manna nefnd undir formennsku lyfjamálastjóra, en landlæknir fellur út sem umsagnaraðili. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að þau samvinnufélög, sem lyfsöluleyfi hafa, haldi þeim áfram, en þau falli ekki niður árið 1988 eins og lög gera nú ráð fyrir.

Þá er og nýmæli að Háskóli Íslands geti öðlast eitt lyfsöluleyfi vegna kennslu og rannsókna á sviði lyfjafræði lyfsala, en eins og hv. alþm. muna samþykktum við frv. þess efnis fyrr í vetur. Ráðh. er hér heimilað að leggja þá kvöð á lyfsala, að hann annist rekstur lyfjaútibús og/eða lyfjaforða í lyfsöluumdæmi sínu. Aðrar breytingar eru ekki stórvægilegar samkv. frv.

III. kafli lyfsölulaga fjallar um starfsmenn lyfjabúða. 14. og 15. gr. þessa kafla voru felldar úr gildi með gildistöku laga um lyfjafræðinga nr. 35/1978. Í 15. gr. frv. (16. gr. lyfsölulaga) er nýmæli um heimild ríkisins til þess að standa að menntun tæknimenntaðs aðstoðarfólks við lyfjagerð og lyfjaafgreiðslu, en í reynd hefur Lyfjatækniskóli Íslands starfað frá árinu 1974.

Þá er breyting á kafla um missi starfsréttinda sem er í lyfsölulögum. Greinar kaflans voru felldar niður með lögum um lyfjafræðinga nema hvað varðar veitingu lyfsöluleyfis. Helstu breytingar í frv. fjalla, eins og áður er getið, um heimild Háskóla Íslands til þess að öðlast eitt lyfsöluleyfi og vísast þá til II. kafla hér að framan.

VI. kafli lyfsölulaga fjallar um lyfseðla og afgreiðslu lyfja. Breytingar á þessum kafla eru heldur lítilvægar. Þar er um að ræða ávísun lyfja samkv. þessum VI. kafla, lyfseðla og afgreiðslu þeirra, jafnframt um merkingu lyfja. Hér er ekki um neinar afgerandi breytingar að ræða.

VII. kafli lyfsölulaga fjallar um verðlagningu lyfja. Þessi kafli var í raun og sannleika felldur úr gildi við gildistöku lyfjalaga og því ástæðulaust að telja hann upp í 62. gr. frv., en þar er getið um það sem úr gildi fellur.

VIII. kafli lyfsölulaga er um lyfjabúðir, rekstur þeirra og smásölu lyfja. Með lögum um lyfjafræðinga var 46. gr. kaflans felld úr gildi. Önnur ákvæði kaflans er einnig að finna í lyfjalögum þótt sams konar ákvæði sé að finna í þessu frv., enda ber að hafa í huga að um er að ræða endurskoðun laga, þ.e. lyfsölulaganna, en lyfjadreifingarþátturinn var tekinn út úr lyfjalögunum.

Í því frv., sem hér er til umr. er kafli sem fjallar eingöngu um Lyfjaverslun ríkisins. Helstu breytingar eru þær að Lyfjaverslun ríkisins fellur undir heilbr.- og trmrn. Af öðrum breytingum má nefna að skipuð mun stjórn fyrir Lyfjaverslun ríkisins og er lyfjamálastjóri formaður hennar. Þá er og það nýmæli, að forstöðumaður Lyfjaverslunar ríkisins geti verið viðskiptafræðingur. Sú breyting er komin inn fyrir tilstilli nefndarinnar. í frv. er annars leitast við að styrkja stöðu Lyfjaverslunar ríkisins.

Það má segja um þær brtt. sem nefndin hefur lagt til við frv., að flestar þeirra eru ekki stórvægilegar. Margar hverjar eru raunar samræming til þess að það sé heil hugsun í frv. Það má geta þess fyrst og fremst, að 39. gr. er allveruleg breyting frá því sem áður hefur gilt. Ég held að ég leyfi mér þá að fara yfir í sem fæstum orðum þær breytingar sem nefndin hefur gert á frv.

Ég vil leyfa mér að byrja á 39. gr. Að mínum dómi eru þær breytingar, sem eru gerðar á fyrri greinum frv., ekki svo stórvægilegar að ástæða sé fyrir mig hér og nú að tína þær allar til. Eins og hv. alþm. vita hefur mönnum orðið tíðrætt um innihald 39. gr. sem fjallar um umboðsmenn erlendra sérlyfjaframleiðenda. Þar segir að starfandi læknar (dýralæknar, tannlæknar), lyfsalar og lyfjafræðingar, aðstoðarlyfjafræðingar jafnframt, megi ekki vera umboðsmenn þessara aðila. Í huga eru þá höfð hugsanleg hagsmunatengsl þeirra, sem ávísa þessum lyfjum, og þeirra, sem selja lyf. Þá ber að hafa í huga að það eru læknar sem ávísa lyfjum, en ekki lyfjafræðingar, og hafa þeir síðarnefndu lítil sem engin tök á því að hafa áhrif á ávísanir lækna. Hins vegar er hugsanlegt að læknar gætu átt hagsmuna að gæta varðandi ávísun lyfja. Í frvgr., eins og nú er lagt til að hún verði, er ekki með öllu tekið fyrir eignaraðild lyfsala og lyfjafræðinga að fyrirtækjum sem rekin eru á félagslegum grundvelli, eins og t.d. hlutafélög, enda eigi þeir ekki verulegra hagsmuna að gæta í fyrirtækinu og eignarhlutdeild þeirra sé ekki meiri en 5%. Þess ber að gæta, að greinin tekur aðeins til þeirra lyfjafræðinga og aðstoðarlyfjafræðinga er starfa í lyfjabúðum og sjúkrahúsapótekum, en ekki annarra. Það er sjálfsagt að vekja athygli á því, að það eru engar hömlur settar á eignaraðild framangreindra aðila að innlendum framleiðslufyrirtækjum.

Ég hef lítillega komið að VIII. kafla frv. áður, þegar ég var að reyna að gera grein fyrir þeim meginbreytingum sem verða á þessari löggjöf miðað við að hverfa frá lyfsölulögunum gömlu frá 1963, en í VIII. kafla frv. er fjallað um Lyfjaverslun ríkisins. Lagt er til að Lyfjaverslun ríkisins falli undir heilbr.- og trmrn. Sú breyting var gerð á frv., að ekki er endilega nauðsynlegt að forstjóri Lyfjaverslunar ríkisins sé lyfjafræðingur að mennt, viðskiptafræðimenntun komi einnig til greina. Ég hef getið um það áður. Samfara þeirri breytingu er lyfjamálastjóri settur formaður stjórnar fyrirtækisins. Báðar þessar breytingar eru gerðar að tilhlutan nefndarinnar.

Þá er það og nýmæli, að umsóknir um stöðu forstjóra skulu lagðar fyrir nefnd þá, er fjallar um umsóknir um veitingu lyfsöluleyfa, og stjórn fyrirtækisins sem síðan lætur ráðh. í té umsagnir um hæfni umsækjenda. Þá er einnig fjallað um framleiðslu og sölu fyrirtækisins til lyfjabúða og er þar um að ræða nýmæli og að margra dómi eflandi fyrir starfsemi þessa umrædda fyrirtækis.

Ég vil leyfa mér að láta þetta nægja um þá kafla sem þegar hefur verið getið.

Þá er komið að X. kafla frv., þar sem fjallað er um dreifingu dýralyfja. Sannleikurinn er sá, að yfir hið góða samkomulag, sem ríkti í nefndinni allan tímann, dró aðeins hulu þegar komið var að X. kafla, um dreifingu dýralyfja, enda þótt ég vonist til að það valdi ekki vinslitum meðal nm. Heilbr.- og trn. hefur birt brtt. við báðar þessar greinar, bæði 57. gr. og 58. gr. Breytingin á 57. gr. er sú, að viðbætis eftirfarandi orð og þá vil ég leyfa mér að lesa hluta greinarinnar: „Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum hefur heimild til að selja lyfjabúðum og héraðsdýralæknum framleiðslu sína á dýralyfjum og bóluefni í heildsölu“ — síðan kemur viðbótin: „enda fullnægi hún ákvæðum lyfjalaga, nr. 49/1978, um framleiðslu lyfja.“

Það var samdóma álit í nefndinni að ekki væri nema eðlilegt og réttmætt að hafa slíkt ákvæði í þessari grein. 58. gr. frv., eins og það var lagt fram, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lyfjabúðir og lyfjaútibú skulu hafa á boðstólum algengustu dýralyf miðað við þarfir í hverju lyfsöluumdæmi. Héraðsdýralæknum er einnig heimilt að annast sölu dýralyfja og skulu þeir fá lyfin keypt hjá lyfjaheildsölum eða hjá tilraunastöðinni að Keldum. Þar sem héraðsdýralæknir situr, en ekki er lyfjabúð eða lyfjaútibú á staðnum, skal hann hafa í umdæmi sínu á hendi sölu dýralyfja, sem hann kaupir frá lyfjaheildsölu, lyfjabúð eða hjá Tilraunastöðinni á Keldum.“

Brtt. frá heilbr.- og trn. hljóðar svo, með leyfi forseta: „Lyfjabúðir og lyfjaútibú skulu hafa á boðstólum algengustu dýralyf miðað við þarfir í hverju lyfsöluumdæmi. Þeim er skylt að selja héraðsdýralæknum þau lyf, er þeir þurfa á heildsöluverði að viðbættu þjónustugjaldi, sem ákveðið er af ráðh. að fengnum tillögum lyfjaverðlagsnefndar, og skulu þau vera í stöðluðum, órofnum umbúðum.“

Breytingin, sem þetta felur í sér, er eingöngu sú, að þar sem dýralæknir starfar og apótek er jafnframt starfrækt á sama svæði er dýralækninum gert skylt að kaupa öll lyf í viðkomandi apóteki. Það eru engar skorður settar um magn lyfja. Apótekara er skylt að selja dýralækninum allt það sem hann þarf á að halda. Þetta er ekki bundið við vitjanir eingöngu. En eins og frv. er, þá er gert ráð fyrir að dýralæknirinn geti keypt sín lyf hvar svo sem vera skal. Þetta er meginmunurinn á 58. gr. eins og hún stendur skráð í frv. og í brtt. nefndarinnar.

Ég vil í lokin minna á ákvæði til bráðabirgða sem fjallar um 39. gr., en bráðabirgðaákvæðið hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eignaraðild starfandi lyfsala og lyfjafræðinga er heimil að fyrirtækjunum, sem rekin eru í hlutafélagsformi, ef eignaraðild hvers þeirra fer ekki fram yfir 5% eignarhlut. Fyrirtæki, sem starfa í bága við 39. gr. við gildistöku laga þessara, hafa 5 ára frest til að aðlaga sig þeim.“

Herra forseti. Ég þykist nú hafa gert grein fyrir þeim meginbreytingum, sem verða á þessari löggjöf, þ.e. um lyfjadreifingu, frá hinum gömlu lyfsölulögum frá 1963, og jafnframt þeim breytingum sem nefndin flytur á sérstöku þskj. Hins vegar vek ég athygli á því, að það eru allmargir fyrirvarar á nál. Flestir nm. rita undir nál. með fyrirvara, og ég vil minna á að einstakir nm. hafa óbundnar hendur í afstöðu sinni til einstakra brtt.

Undir nál. rita Davíð Aðalsteinsson, Karl Steinar Guðnason með fyrirvara, Salome Þorkelsdóttir með fyrirvara, Lárus Jónsson með fyrirvara, Gunnar Thoroddsen, Helgi Seljan og Jón Helgason með fyrirvara.

Ég vil svo að endingu þakka nefndinni gott samstarf við umfjöllun þessa máls og biðst afsökunar á því hvað formaðurinn hefur verið þrár og leiðinlegur allan tímann. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta að sinni.