09.11.1981
Efri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Þegar umr. var frestað um þetta frv. til laga, um Sinfóníuhljómsveit Íslands var ég á mælendaskrá. Það eru víst að verða fjórar vikur síðan. Nú er tækifæri gefið til að taka þráðinn upp að nýju og ber að þakka það.

Erindi mitt í ræðustól var og er fyrst og fremst að fagna því, að frv. kemur nú fram í þingbyrjun, en ekki í þinglok, eins og gerðist á síðasta þingi, sem bendir til þess, að nú sé alvara á ferðum og nú eigi að koma þessu frv. gegnum þingið.

Frv. komst þó aðeins á dagskrá s. l. vor í menntmn. Ed., en umfjöllun þar einkenndist aðallega af tímaleysi, enda komið að þinglokum. Þá kom það fram í n., að ekki hafði verið mjög náið samráð við forráðamenn Ríkisútvarpsins eða framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar við gerð frv., en vonandi hafa þessir aðilar haft nægan tíma til að kynna sér frv. og eru undir það búnir að gefa umsagnir þegar það kemur til menntmn. hv. Ed.

Hv. 5. þm. Vesturl. taldi í umr. á sínum tíma fjármögnun óeðlilega eins og hún er sett fram í frv., sbr. 3. gr., og skildist mér að hann vildi lögbinda öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem rekstraraðila. Ég er á öndverðri skoðun í þessu efni. Ég tel að hljómsveitin eigi að vera alfarið rekin af ríkissjóði, enda er það markmið að fækka verkefnum, þar sem saman er blandað fjármálum ríkis og sveitarfélaga, og gera sem mest hrein skil á milli. Ég tel að rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands sé dæmigert verkefni sem eigi að vera á hendi ríkisins, sé á annað borð um opinberan aðila að ræða. Þannig verði það best tryggt að hún verði í raun eign þjóðarinnar allrar án forgangsþjónustu við einstök sveitarfélög sem óhjákvæmilega gæti komið upp með beinni lögbundinni aðild þeirra. Þátttaka fleiri sveitarfélaga ætti að mínum dómi að vera samningsatriði á frjálsum grundvelli, eins og reyndar er gert ráð fyrir í 3. gr. frv., og spurning er hvort þannig ætti ekki að vera yfirleitt um þá rekstraraðila aðra sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Varðandi yfirstjórn hljómsveitarinnar, þá finnst mér hún bera nokkurn keim af mörgum silkihúfum. Þá er spurning hvort ekki hefði mátt einfalda hana. Þarna er gert ráð fyrir tveimur stjórnum, sjö manns í annarri og fimm í hinni, ásamt framkvæmdastjóra. Þó er rétt að taka það fram, að þetta er til bóta frá því sem áður var að því leyti, að nú er gert ráð fyrir að rekstraraðilar eigi fulltrúa í stjórn, en það hefur ekki verið fram að þessu neina að hluta.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um einstök atriði frv. Tækifæri mun gefast til þess þegar það kemur til menntmn. Við höfum fengið nokkurt veganesti þegar farið verður að fjalla um þetta frv. Það er skýrsla stjórnsýsluendurskoðunar og aths. við þá skýrslu frá Félagi ísl. hljómlistarmanna. Það er sjálfsagt að skoða vel þau atriði sem þar er lögð áhersla á. En meginatriðið er að það takist að setja hljómsveitinni slíka löggjöf að hún gegni því menningarhlutverki, sem henni er ætlað, og standi undir því nafni að vera Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Ég vil endurtaka það, að ég fagna því að frv. er nú komið fram, og ég trúi ekki öðru en hv. Alþingi taki nú á sig rögg og komi þessu máli í gegnum þingið.