09.11.1981
Efri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka almennt góðar undirtektir undir málið sem slíkt, og þó að fram hafi komið aths. við það tel ég að þær séu flestar af því tagi að ekkert óeðlilegt sé að þær séu ræddar, neina síður sé, enda er yfirleitt svo um mál að þau eru þannig fram borin og þannig í eðli sínu að það er varla við því að búast að allt sé fullkomið þegar þau eru hér rædd við 1. umr. Ætlunin er að þetta mál gangi eins og önnur í gegnum þessa þd. og Nd. síðar með því nefndarstarfi sem því fylgir. Ég vona að í því starfi verði hægt að bæta úr annmörkum sem kunna að vera á einstökum þáttum þessa máls, en jafnframt vil ég lýsa yfir, að ég vona að frv. fái greiðan gang í gegnum þingið. Hér er um býsna brýnt mál að ræða, eins og oft hefur verið tekið fram, að Sinfóníuhljómsveitin fái lagalegan grundvöll eins og hún er upp byggð og eins og að henni er staðið.

Sú aths., sem hér hefur komið fram og segja má að sé hvað veigamest, er það sem hv. 4. þm. Reykn. nefndi, að eðlilegra hefði verið að leggja fram ásamt þessu frv. skýra kostnaðaráætlun um rekstur hljómsveitarinnar og þá þann aukakostnað sem kynni að verða af rekstri hennar, miðað við að þetta frv. verði að lögum. Ég skal fúslega viðurkenna að þessi greinargerð liggur ekki fyrir og ég er ekki við því búinn nú að svara því nákvæmlega, hvernig þetta mundi fara. Ég vil hvorki játa né neita í því efni að þetta kunni að hafa kostnaðarauka í för með sér, en hitt skal ég taka fúslega til greina, að beita mér fyrir að slík kostnaðaráætlun verði gerð á næstunni og hún verði lögð fyrir menntmn. þegar málið kemur þar til sérstakrar meðferðar.

Hér hefur líka verið minnst á það, bæði af hv. 4. landsk. þm. og 3. landsk. þm., að þeim fyndist eðlilegra að Sinfóníuhljómsveitin væri algert ríkisfyrirtæki. Þetta er út af fyrir sig ekki fráleit hugmynd, en ég vil þó benda á að eins og 3. gr. er gerð hefur tekist samkomulag fjögurra aðila, fyrst og fremst þriggja aðila sem leggja fram mjög mikið fjármagn, fjögurra aðila þó sem standa að þessu. Ég held að því beri fremur að fagna en hitt, að slíkt samkomulag hefur orðið um rekstur hljómsveitarinnar, að ríkissjóður stendur þarna að verulegum hluta undir rekstrinum, án þess þó að bera þar alla ábyrgð, og að Ríkisútvarp og borgarsjóður Reykjavíkur eru þarna með mjög stóran hlut ásamt því sem bæjarsjóður Seltjarnarness sýnir mjög virðingarverða viðleitni í þá átt að taka þátt í þessum rekstri. Ég skal ekki gera lítið úr því, að sú skoðun eigi fyllsta rétt á sér að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé hreint ríkisfyrirtæki. Samt sem áður held ég að við ættum ekki að eyða miklum tíma í að ræða það nú, heldur reyna að sameinast um að lögfesta það samkomulag sem orðið hefur milli þeirra aðila, sem getur í 3. gr., og búið er að vinna verulegt undirbúningsstarf undir að gæti orðið að veruleika.

Eins og menn þekkja, og áform eru hér í hv. deild um það efni, hefur Sinfóníuhljómsveitin frá upphafi verið fyrirtæki sem Ríkisútvarp og borgarsjóður hafa staðið að lengst allra aðila. Ríkissjóður kemur ekki inn í þetta mál sem rekstraraðili fyrr en nokkru seinna, ég man ekki nákvæmlega hvaða ár, sennilega 4–5 árum síðar, en hljómsveitin var stofnuð 1950. Það er því fjarri því, að hljómsveitin hafi nokkurn tíma verið algert ríkisfyrirtæki.

Um yfirstjórnina, að hún sé viðamikil eins og kom fram hjá hv. 4. landsk. þm., má kannske segja að svo sé, en þó vil ég benda á að þessi yfirstjórn er ekki viðameiri en svo, að þarna er um almenna stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar að ræða og þar sem rekstraraðilarnir eiga fyrst og fremst fulltrúa. Síðan er framkvæmdastjóri, sem nauðsynlega verður að vera til að reka hljómsveitina. Starfslið hljómsveitarinnar á skrifstofu er ekki mikið. Það er framkvæmdastjórinn ásamt einum skrifstofumanni sem þar starfar. Verkefnavalsnefnd er talin nauðsynleg í slíkri starfsemi. Hefur niðurstaðan orðið að hafa þennan hátt á eftir að þetta mál hefur verið mjög gaumgæfilega rætt mörg undanfarin ár.

Eins og ég hef áður greint frá er þetta frv., eins og það liggur fyrir, að meginstefnu og að öllu meginefni alls ekki nýtt. Þetta hefur verið að mótast undanfarin 4–5 ár. Frv. hefur verið borið fram þing eftir þing allt frá því 1976, hygg ég, en ekki náð fram að ganga af ýmsum ástæðum, og síðast þegar það kom fram, þ. e. 1979–1980, urðu deilurnar fyrst og fremst um hverjir skyldu vera rekstraraðilar samkv. 3. gr. Þá hafði það komist inn í 3. gr. að nánast öll sveitarfélögin á Reykjavíkursvæðinu tækju þátt í rekstrinum. Gegn þessu voru sterk mótmæli. Ég beitti mér síðan fyrir því, að nánar viðræður fóru fram við öll þessi sveitarfélög sem hér eru, og niðurstaðan varð sú sem hér stendur í 3. gr., að það eru aðeins borgarsjóður Reykjavíkur og bæjarsjóður Seltjarnarness af sveitarfélögunum sem taka þátt í þessu af fúsum vilja ásamt ríkissjóði og Ríkisútvarpi.

Í rauninni er einn höfuðtilgangurinn að löggilda það samkomulag sem fyrir liggur milli rekstraraðilanna sem um getur í 3. gr.

Eitt er það atriði sem hér hefur áður borið á góma og hv. þm. Eiður Guðnason hefur spurt mig um og gerði í umr. áður en henni var frestað. Það varðar þá setningu sem stendur í 2. mgr. 2. gr., hvernig tengja beri starf hljómsveitarinnar tónlistarkennsla í landinu. Þetta er auðvitað býsna mikið mál og sjálfsagt ekki öllum ljóst hvernig þetta má verða. Þó er það svo, að ég held að ef menn lesa þetta og hugsa svolítið um þessa setningu átti þeir sig á því, hvað hér er á ferðinni.

Það er fyrst og fremst hugsað með þessu að koma á beinum tengslum milli hljómsveitarinnar og almennra skóla í landinu. Það er sem sagt meiningin með þessu orðalagi að reyna að beita sér fyrir því, að hlutverk sinfóníuhljómsveitarinnar verði aukið frá því sem nú er í tónmenningu þjóðarinnar. Það er hægt að hugsa sér ýmiss konar útfærslu á þessu stefnumarkandi ákvæði. Reyndar hefur á undanförnum árum verið leitast við að vinna í þessum anda, þó að það muni ekki hafa staðið neins staðar áður í reglugerðum eða lagabókstaf. En sem sagt: Það er ætlunin með þessu ákvæði að reyna að tengja starf hljómsveitarinnar skólunum sem allra mest. Þetta mundi m. a. gerast með því, að tónlistarkennarar í almennum skólum yrðu látnir fylgjast með verkefnavali hljómsveitarinnar og síðan yrði stuðlað að því, að tónlistarkennararnir noti þau verkefni, sem á döfinni eru, í sambandi við kennslu sína og tengi þannig kennsluna og nemendurna við það starf, sem fram fer hjá hljómsveitinni hverju sinni, og skapi þannig eins konar vináttutengsl á milli.

Þá er einnig hægt að hugsa sér þetta þannig að það verði skipulagðar ferðir nemenda á æfingar hjá hljómsveitinni og einnig að Sinfóníuhljómsveitin skipuleggi sjálf heimsóknir í skólana og hitti nemendur í skólunum og gefi þeim kost á að kynnast starfinu og þeim tónlistarflutningi sem í Sinfóníuhljómsveitinni fer fram. Það er einmitt þetta atriði sem þegar hefur verið nokkuð framkvæmt í samstarfi Sinfóníuhljómsveitarinnar og skólanna og hefur gefið mjög góða raun. Það hefur verið reynt að framkvæma þetta þannig að það félli inn í venjulegar starfsskyldur hljóðfæraleikaranna. Þetta hefur engan aukakostnað haft í för með sér og ég veit ekki annað en þetta hafi gefið góða raun og að allir aðilar hafi verið ánægðir með þetta.

Það stendur þarna að þetta skuli gera svo sem kostur er. Í því er náttúrlega fólgið að menn verða að fikra sig eitthvað áfram með þetta og ætla sér ekki um of í þessu efni. Ég held eigi að síður að þetta sé merkilegt stefnumarkandi atriði og geti haft þýðingu við það að tengja hljómsveitarstarfið skólunum og efla þannig tónlistarsmekk nemendanna og tónlistarþekkingu þeirra og þannig smám saman auka tónlistarsmekk fólksins í landinu eftir því sem við verður komið.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek það, að ég er þakklátur fyrir þær undirtektir, sem orðið hafa almennt í sambandi við þetta mál, og vænti þess, að það séu engir þeir alvarlegir meinbugir á þessu máli að það megi ekki fá eðlilega fyrirgreiðslu hér í hv. deild og í nefnd sem um það fjallar. Ég legg það enn til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til menntmn. og 2. umr.