28.04.1982
Efri deild: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4298 í B-deild Alþingistíðinda. (3995)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til umfjöllunar frv. til I. um breyt. á lögum nr. 18 11. maí 1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Ég hygg að hv. þdm. séu í fersku minni þær umr. sem fram fóru hér í þessari hv. deild þegar við 1. umr. málsins.

Iðnn. hefur fjallað um þetta mál og kynnt sér ýmis gögn sem fram hafa verið lögð í málinu. Það hafa allnokkrir aðilar mætt til fundar með nefndinni, svo sem Páll Flygenring frá iðnrn., Ólafur Davíðsson og Gamalíel Sveinsson frá Þjóðhagsstofnun, en jafnframt lét Þjóðhagsstofnun í té skriflega umsögn varðandi þetta mál. Jafnframt komu á fund nefndarinnar Garðar Ingvarsson frá Seðlabanka, Jón Sigurðsson forstjóri járnblendiverksmiðjunnar, Stefán Kristinsson fjármálastjóri svo og Hjörtur Torfason formaður stjórnar Járnblendifélagsins.

Þetta frv. gerir ráð fyrir að það verði veitt heimild til að auka hlutafé í járnblendiverksmiðjunni, þ.e. í lögin komi í stað 13.2 millj. dollara 19 millj. dollara. Gert er ráð fyrir samsvarandi framlagi Elkem móti því sem hér eru veittar heimildir til.

Ég vil í þessu sambandi geta þeirra skýringa sem fylgja með frv. Það var talið ráðlegt í ljósi þeirra upplýsinga, sem lágu fyrir, að hafa þessa lagaheimild nokkuð rúma. Það er í raun og sannleika ekki fastmótað í þeim áætlunum, sem menn hafa reynt að leggja niður fyrir sér varðandi fjárstuðning við járnblendiverksmiðjuna, að hve miklu leyti komi til fjármögnun vegna aukins hlutafjár eða með lánum. Það er sem sagt ekki afráðið í þeim áætlunum hvernig fjármagni verður skipt með tilliti til þessara tveggja þátta.

2. gr. frv. hljóðar um heimild til að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir 55% af láni, er félagið tekur og í heild nemi allt að 6 millj. Bandaríkjadollara eða jafngildi þess í annarri mynt, ásamt vöxtum. Samkv. þessu yrði hlutur ríkisins með tilliti til þessarar sjálfskuldarábyrgðar 3.3 millj. dollara, en hlutur Elkem 2.7 millj. dollara.

Það verður að segja þá sögu eins og hún er, að allir þeir, sem nefndin kallaði til viðræðna, mæltu með þeirri málsmeðferð sem frv. gerir ráð fyrir. Það kom auðvitað fram í nefndinni, eins og komið hafði fram áður, að fjárhagsstaða járnblendiverksmiðjunnar er mjög slök og því er farið í þessar ráðstafanir. Þær ráðstafanir, sem hér hafa verið kynntar og frv. gerir ráð fyrir að verði hrundið í framkvæmd, a.m.k. að hluta, eru e.t.v. þær illskástu sem tök eru á.

Það kom fram í umfjöllun um fyrirtækið, Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, að framleiðni verksmiðjunnar er mjög góð. Starfsemin hefur skilað því hlutverki, sem til var stofnað, að því leyti. Það, sem hefur brugðist, má segja, eru markaðirnir, og það er ekki svo lítið, eins og sést af þeim ráðagerðum, sem hér eru uppi og þeim fjárstuðningi, sem áformað er með þessu frv. að veita heimildir til.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þetta nánar. Nefndin mælir með að frv. verði samþykkt. Stefán Jónsson ritaði undir nál. með fyrirvara, en Þorv. Garðar Kristjánsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.