14.10.1981
Sameinað þing: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég óskaði eftir því á fundi í Sþ. í gær við hæstv. forseta að þessi mál yrðu tekin til umr. í Sþ. í dag, og jafnframt óskaði ég eftir því, að hæstv. sjútvrh. skýrði frá stöðu þessara mála þannig að Alþingi fengi tækifæri til að fylgjast með því sem þar er verið að gera. Þessar umr. hafa nú farið nokkuð á annan veg, því að 2. þm. Reykn. var svo brátt að hann mun ekki hafa fallist á þessa málsmeðferð. Ég hefði talið allra hluta vegna eðlilegt að hæstv. sjútvrh. skýrði málin, eins og ég fór fram á í gær, en ég kærði mig ekki um að taka hér til máls fyrr en ráðh. væri búinn að tala þar sem það er í fullu samræmi víð það sem ég óskaði eftir fyrir hönd míns flokks í gær.

Áður en við förum að ræða ítarlega þetta efni finnst mér rétt að rifja upp stefnu núv. hæstv. ríkisstj. sem hún kunngerði í sínum stjórnarsáttmála, en þar segir í kaflanum um sjávarútveg:

„Í sjávarútvegsmálum verði lögð höfuðáhersla á eftirfarandi atriði:

1) Fiskveiðar og fiskvinnsla verði samræmd eftir því sem tök eru á, þannig að hagnýting fiskiskipastóls og fiskvinnslufyrirtækja verði sem best. Í þeim efnum verði komið á samstarfi þeirra aðila, sem mestra hagsmuna hafa að gæta, um löndun afla og dreifingu milli staða með það markmið í huga að tryggja jafnan og stöðugan rekstur og atvinnuöryggi þess fólks, sem við fiskveiðar og fiskvinnslu starfar.

2) Lögð verði áhersla á að auka nýtingu hráefnis og draga úr kostnaði, jafnt við veiðar og vinnslu. Gerð verði áætlun um framleiðniaukningu í fiskiðnaði og sérstök áhersla lögð á, að fiskverkunarfyrirtæki nái almennt því marki í hagkvæmum rekstri, sem nú þekkist best. Ráðstafanir verði gerðar til þess að beina fjármagni til þessa verkefnis.

3) Aukin verði hagnýting þeirra fiskstofna, sem nú eru lítið nýttir, samhliða því að fjölbreytni í fiskverkun og hagnýtingu sjávarfangs verði aukin.

4) Fiskveiðistefnan verið ákveðin þannig að hagsmunaaðilum sé ljóst með góðum fyrirvara, hvaða reglur eigi að gilda um nýtingu fiskimiðanna, og framkvæmd stefnunnar verði endurskoðuð með það í huga að tryggja sem víðtækust samráð.“

Svo mörg eru þau orð sem núv. hæstv. ríkisstj. lagði til grundvallar í sjávarútvegsmálum, og nú getur hver og einn spurt sjálfan sig og aðra hvernig til hefur tekist með þau ágætu loforð sem þarna eru gefin. Ég held að þegar við lítum yfir farinn veg þetta tímabil, sem núv. ríkisstj. hefur starfað, standi ekki steinn yfir steini í þessari stefnumörkun í sjávarútvegsmálum.

Hæstv. forsrh. hélt stefnuræðu ríkisstj. 23. okt. 1980, og þar segir hann:

„Útgerðin hefur átt í verulegum rekstrarerfiðleikum síðustu mánuði, og stafar það fyrst og fremst af hækkun á olíu og öðrum útgerðarkostnaði. Með ákvörðun um fiskverð 1. okt. er brúttóafkoma útgerðar orðin jákvæð að mati Þjóðhagsstofnunar. Skreiðar- og saltfiskverkun hefur staðið vel og virðist ástæða til að ætla að svo verði einnig á næsta ári. Gerðir hafa verið viðunandi samningar um sölu á saltsíld. Frystingin hefur átt í verulegum erfiðleikum. Í lok síðasta árs var verðhækkunum innanlands og stöðnun fiskverðs á Bandaríkjamarkaði ekki mætt með nauðsynlegri aðlögun gengis. En með ýmsum aðgerðum stjórnvalda, miklu gengissigi undanfarnar vikur, minnkandi birgðum og hagkvæmari framleiðslusamsetningu telur Þjóðhagsstofnun að rekstrargrundvöllur frystingarinnar sé að vera jákvæður.“

Og enn segir í stefnuræðunni: „Ríkisstj. hefur gert ráðstafanir til þess að bæta frystihúsunum upp á einn eða annan hátt, einkum með aðlögun gengis, bæði tekjutap og útgjaldahækkanir sem orðið hafa síðan stjórnin var mynduð. Hagur frystiiðnaðarins hefur því ekki versnað á þessu 8 mánaða tímabili. En til viðbótar þeim erfiðleikum, sem orðið hafa síðan í febr. og leyst hefur verið úr, kemur sá vandi frystihúsanna sem skapaðist á tímabilinu okt. 1979 og febr. 1980.“ — M. ö. o. er það viðurkennt, að til þess að endar nái saman hefur þurft að beita gengissigi. Þessi ræða er flutt 23. okt., en eftir þann tíma verður mikið gengissig og allt til áramóta.

Í sept. 1978, þegar vinstri stjórnin var mynduð, var dollarinn í 260.40 kr. Í febr. 1980 er dollarinn kominn í 400.70 kr. en um áramótin eða eftir tæplega 11 mánaða valdatíma núv. hæstv. ríkisstj. er verð á dollarnum komið í 614.70 kr. M. ö. o. er viðurkennt að það þurfi að mæta erfiðleikum útflutningsatvinnuveganna og sér í lagi frystiiðnaðarins með stórfelldum gengislækkunum. Það er talað um í stefnuræðunni í fyrra að gengissigi hafi verið beitt og hagur frystingarinnar standi því þá með nokkuð góðum hætti, þegar dollarinn er í ca. 439.20 kr, en þrátt fyrir þetta fer dollarinn, eins og ég sagði áðan, í 614.70 kr. til áramóta. Það er því ekkert hikað við að beita gengislækkunum þennan tíma, — ekki af því, að ég ætla, að þessir menn telji eitthvert sáluhjálparatriði fyrir íslenskt þjóðfélag að lækka gengi krónunnar, heldur hinu, að gengisbreytingunni er beitt af illri nauðsyn vegna þess að verðbólgan er það mikil innanlands að það verður að lækka gengi dollarans og gengi íslensks gjaldmiðils til þess að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi.

Það er þetta sem gerðist þá. En svo er tekin saman ný stefna um áramót, sem að vísu gekk nokkuð erfiðlega að berja saman, en var þó birt að kvöldi þess dags, og segir í þeirri stefnumörkun, Sem sagt efnahagsáætlun ríkisstj., að viðræður verði hafnar við samtök launþega og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um framkvæmd samræmdrar stefnu í kjaramálum, atvinnumálum og efnahagsmálum til næstu tveggja ára. Hvað líður þeirri stefnu? Hvar er þessi samræmda stefna? Það veit enginn um hana.

Í öðru lagi segir þarna: „Útgerð og fiskvinnslu verður gert kleift að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í lengri lán.“ — Blessaður sjútvrh. segir að þetta gangi bara vel. Hvernig var með olíuskuldirnar? Hverjir áttu vextirnir að vera af þeim? Um 60% á ári. Menn voru ekkert glaðir og það hefur ekkert gengið með að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í lengri lán. Hæstv. ráðh. veit mætavel að það eru mill jarðar gkr. í vanskilum hjá sjávarútvegi í opinberum sjóðum og bönkum landsins.

Í efnahagsáætluninni segir enn fremur: „Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins skal útvegað fjármagn til þess að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar, ef þörf krefur vegna stöðvunar gengissigs. — Það vita allir hvernig Verðjöfnunarsjóðurinn stendur núna. Hæstv. ráðh. las upp hvað væri til í ýmsum deildum sjóðsins, en hann nefndi ekki stærstu deildina, frystideildina. Þar er ekkert til, ekki króna, og minna en ekki neitt. Hann nefndi ekki heldur loðnuafurðirnar. Það er búið að éta það upp á óskynsamlegan hátt, eins og ég skal koma síðar inn á. Þarna segir líka: „Á hliðstæðan hátt verður útvegað fjármagn til að tryggja afkomu samkeppnisiðnaðar og útflutningsiðnaðar.“ — Það er kapítuli út af fyrir sig sem tækifæri gefst síðar að tala um.

Ríkisstj. mun stuðla að innkaupum í stórum stíl og stefna að því í áföngum og veita greiðslufrest á tollum. Þannig verði einnig dregið úr óhóflegum geymslukostnaði innfluttrar vöru og rýrnun umfram það sem erlendis gerist.

Vaxtakerfið verði endurskoðað í heild með einföldun fyrir augum og dregið verði úr þörf fyrir vaxtamismun með hækkun á þjónustugjöldum banka og sparisjóða.“

Vaxtakerfið hefur þá verið einfaldað! Þeir segja að ríkisstj. hafi lækkað vextina og það er rétt. Þeir hafa lækkað vexti af víxlum. En það var hætt svo að segja að lána víxla eftir að vextirnir voru lækkaðir, nema til mjög skamms tíma. Þetta er auðvitað fullkomin blekking. Það skiptir ekki máli þegar menn taka lán hvað heita vextir og hvað heita verðbætur. Það er kostnaðurinn við lántökuna sem skiptir máli og það er það sem menn, sem lánin taka, verða að standa undir.

Þá segir enn fremur í þessari efnahagsáætlun: „Tollheimta af tækjum til atvinnureksturs verði endurskoðuð með það fyrir augum að auka möguleika á framleiðniaukningu í þessum greinum.“ — Á síðasta þingi var ákveðið að lækka skatta af tækjum til fiskiðnaðar, og mér er sagt að þrátt fyrir ákveðna viljayfirlýsingu og samþykkt frv. frá Alþingi í þessum efnum um heimild til ráðh. neiti fjmrh, að verða við því og daufheyrist við vilja Alþingis, það verði tekið upp siðar og með öðrum hætti.

Og svo kemur hér: „Samhliða þessum aðgerðum verði mörkuð atvinnustefna, sem tryggi stöðugleika í hagkerfinu, aukna framleiðni og framleiðslu og hagkvæmni í fjárfestingu.“ — Felst hagkvæmnin í fjárfestingunni í því að svelta fyrirtækin með þeim hætti að þau eru við það að lokast hvert á eftir öðru? Er það leiðin til að auka framleiðni? Þetta leyfi ég mér að spyrja um. Áður en ég lýk við efnahagsáætlun hæstv. ríkisstj. vil ég koma inn á síðasta atriðið: „Af hálfu ríkisins verði stöðugleika gætt með skipulegri áætlanagerð um opinbera fjárfestingu eftir landshlutum í því tilefni að forða að komi til ofþenslu eða atvinnuleysis og verði þar bæði tekið mið af áætlunum um fjárfestingu einkaaðila og sveitarfélaga sem og ríkisins.

Meðal meginþátta slíkrar atvinnustefnu verði samræming veiða og vinnslu í sjávarútvegi, athugun á fjölda fiskvinnslufyrirtækja í einstökum byggðarlögum og samvinna milli þeirra, svo og áætlun um endurnýjun fiskiskipastólsins.“ — Allt hefur þetta farið á annan veg, eins og allir vita.

Þetta eru sem sagt höfuðyfirlýsingar núv. hæstv. ríkisstj. í sjávarútvegsmálum sem ég hef gert að umræðuefni.

Nú skulum við líta á hvernig málin standa. Síldarflotinn er inni vegna deilna um verð. Hæstv. ráðh. kom inn á það. Hann lét í ljós að það væri gaman að fá að heyra álit fyrrv. sjútvrh. á því, hvort taka ætti upp þetta mál aftur í Verðlagsráði. Ég tel fyrir mitt leyti mjög hættulegt fordæmi að taka upp aftur í Verðlagsráði mál sem Verðlagsráð hefur fjallað um. Það kemur að vísu til greina ef allir eru ásáttir um að gera leiðréttingu vegna rangra upplýsinga. En hitt kæmi að mínum dómi miklu frekar til greina, að kaupendur samþykktu þessa leiðréttingu sem sjálfsagðan hlut. Lagabreyting um Verðlagsráð í þessum efnum kemur að mínum dómi ekki til greina. Ég tel það fráleitt.

En við skulum líta á þessa verðlagningu, við skulum líta á stöðuna í sölu á sjávarafla, bæði síld, loðnu og almennum fiskafurðum. Við vitum að við búum í landi þar sem er alveg örugglega 50% verðbólga, hvað sem spekingar reikna út í sambandi við vísitöluvöru, ef hún er ekki mun meiri. Við getum því ekki sett mark á tekjur útflutningsatvinnuveganna og útflutningsfyrirtækjanna og sagt: Við ætlum að hafa gengið svona og þessu verður ekki breytt. M. ö. o.: við ætlum að ákveða fyrirtækjunum í landinu hvaða tekjur þau eiga að hafa, jafnvel heilt ár fram í tímann, en á sama tíma verður hækkun á kaupi og öllu verðlagi í landinu. Við skulum því líta á þróun þessara mála, verðbótahækkun launa. Hún var 1. des. 1980 9.52%, 1. mars 1981 5.95%, 1. júní 1981 8.10%, 1. sept. 8.92% og vafalaust verður hún ekki minni 1. des. Hvernig getur ábyrg ríkisstj. leyft sér að segja að gengið skuli verða sett fast, tekjur atvinnufyrirtækjanna eigi að vera þær sömu að óbreyttum markaðsaðstæðum á sama tíma og kostnaðarhækkunin innanlands er með þessum hætti? Ég öfunda ekki Steingrím Hermannsson að vera sjútvrh. í ríkisstj. með þessa stefnu eða réttara sagt þetta stefnuleysi. Á honum hvílir sem sjútvrh. fyrst og fremst sú skylda að framleiðslan á sviði sjávarútvegs haldi áfram. En hún getur ekki gengið, hún getur ekki haldið áfram. Og nú spyrja menn: Vilt þú gengislækkun? Gengislækkun er ekki neitt úrræði. Gengislækkun er ekki nein „patentlausn“ á vandanum. Gengislækkun er ekkert annað en afleiðing kostnaðarhækkana sem eiga sér stað í landinu. Peningaseðlarnir, m. a. s. nýkrónur,það er ekkert verðmæti í þeim. Þetta eru bara pappírsávísanir. Verðmætið á bak við þessar pappírsávísanir er framleiðsla þjóðarinnar og þegar stórhækkar — 40, 50, 60% — að framleiða vöru eru þessar ávísanir, sem við erum með á milli handanna, falskar. Þessa einföldu staðreynd verðum við að viðurkenna. En menn segja: Við viljum ekki viðurkenna þessa staðreynd — eins og núv. hæstv. ríkisstj. gerði á árinu 1980, en sneri við á gamlársdag þess árs. Það verður að finna aðrar leiðir sem duga fyrir framleiðslutækin í landinu þannig að framleiðsluverðmæti þjóðarinnar haldi áfram að verða til, því að grundvöllur alls annars, sem við lifum á og byggjum afkomu okkar á, eru útflutningsatvinnuvegirnir og framleiðslan. Það þýðir lítið að marka stefnu um að auka framleiðslu í þjóðfélaginu og gera svo ráðstafanir í þveröfuga átt, sem draga úr framleiðslu, með jafnheimskulegum aðgerðum og þessum.

Meðalgengi íslensku krónunnar var í maílok lækkað, að vísu í fyrsta sinn frá áramótum, og þá nam sú gengislækkun 3.85% og hafði í för með sér 4% meðalhækkun á verði erlends gjaldeyris. Meðalgengi krónunnar var síðan haldið óbreyttu að heita má í júní og júlí og fram til 25. ágúst þegar gengið var lækkað um 4.76% sem fól í sér 5% verðhækkun erlends gjaldeyris. Gengi Bandaríkjadollars hækkaði enn í júlí og ágúst, en það var nokkuð breytilegt eins og allir vita. Dollarinn lækkaði síðan heldur í s. l. mánuði, og þar sem meðalgengi krónunnar hefur verið haldið stöðugu, aðeins verið lækkað, eins og ég sagði, tvisvar sinnum frá áramótum, sem samsvarar um 9.2% verðhækkun erlends gjaldeyris að meðaltali, þá hefur gengisþróun dollarans valdið því, að verð á dollarnum hefur hækkað að mun í íslenskum krónum, en verð Evrópumynta ýmist hækkað óverulega eða jafnvel lækkað, þangað til nú upp á síðkastið að tekið hefur mjög að hallast þar sem dollarinn hefur fallið mjög í verði. Ef við miðum við stöðu dollarans frá áramótum til septemberloka hefur breytingin orðið hækkun um 24.8%. En við skulum taka breytingu íslensku krónunnar gagnvart sterlingspundi. Sterlingspundið hefur lækkað um 6.3%. Hvernig getur nokkur sá sem framleiðir afurðir og selur á sterlingssvæðið í sterlingspundum þolað 50–60% kostnaðarhækkun innanlands, en á að fá 6.3% minna, þegar hann selur vöruna, en í ársbyrjun? Hann hlýtur að fara beint á höfuðið. — Sama má segja um yfirleitt allan annan Evrópugjaldeyri. Sænska krónan hefur lækkað líka um 2.3%, þýska markið hefur að vísu hækkað, en aðeins um 5.5% á sama tíma. Er því augljóst að gengislækkun eða gengisbreyting er aðeins afleiðing af því sem áður hefur skeð. Hún er ekkert úrræði til bjargar, heldur er hún aðeins staðreynd sem er orðin og menn verða að horfast í augu við.

Hæstv. ráðh. sagði að þessi mál væru í höndum Seðlabankans. Það er ekki nema hálfur sannleikur. Seðlabankinn breytir ekki skráðu gengi krónunnar nema í fullu samráði og samstarfi við ríkisstj. á hverjum tíma. Ríkisstj. er sá aðili sem í raun ræður gengisbreytingunni.

Það er því auðséð á öllu að þeir miklu erfiðleikar, sem nú steðja að í sjávarútvegi, eru til komnir vegna rangrar stefnu núv. hæstv. ríkisstj. Hún játar staðreyndir á s. l. ári eða til áramóta, en á þessu ári, eða í 91/2 mánuð á morgun, hefur hún barið hausnum við steininn og neitað að skilja sjálfa sig, skilja þjóðina og atvinnureksturinn. Hversu lengi 10 menn í ríkisstj. geta barið hausnum við steininn veit ég ekki, en eitt veit ég, að atvinnulífið getur ekki haldið áfram á því að 10 menn berja hausnum við steininn.

Það er sjáanlegt á öllu að það eru vaxandi markaðserfiðleikar. Þá verður ríkisstj. ekki kennt um. Það væri mjög ósanngjarnt. Það eru erfiðleikar á því fyrir þjóð, sem lifir í jafnmikilli verðbólgu og þessi þjóð lifir við, að selja vörur. Við skulum taka kröfur Svía í sambandi við kaup á saltsíld. Krefjast þeir ekki 28.5% lækkunar frá verðinu í fyrra? Þeir líta á sinn gjaldmiðil eingöngu, en ekki á styrkingu dollarsins. Ég hef lesið í grein eftir einn af framámönnum í frystiiðnaðinum að hann segir alveg óhikað að Sovétmenn muni krefjast þess að verðið verði lækkað sem nemur styrkingu dollarsins. Þetta er nýlega komið frá þeim manni í blaðagrein. Þetta er það sem við verðum við að búa. Aðrar þjóðir búa við miklu minni verðbólgu og því eru erfiðleikar fyrir okkur að halda þarna í horfinu.

Sú eina grein, tiltölulega lítil grein, sem þó hefur vaxið mjög vegna ytri skilyrða, er skreiðarverkun og skreiðarsala sem byggist svo að segja eingöngu á viðskiptum við Nígeríu. Þar er þegar farið að lækka, enda hefur það verð verið ævintýralega hátt þó að við höfum auðvitað glaðst yfir því. En þar lækkar verðið vegna þess að efnahagsstefna þeirrar þjóðar hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli. Fjárlagaárið þar er, að mig minnir, 1. apríl til jafnlengdar næsta árs. Þar var byggt á mikilli aukningu á olíuframleiðslu og olíusölu, hún hefur dregist svo saman að sennilega nær hún ekki nema 1/4 af því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þess lands, og sömuleiðis hefur verðlækkun orðið á olíunni. Þetta er land sem seldi og framleiddi einhverja bestu olíu sem nokkurt land framleiðir, en hefur orðið að sætta sig við lækkun úr 40 dollurum fyrir tunnuna niður í 36 dollara. Þarna hrynur beinlínis efnahagsstefna og efnahagsáform, en það hlýtur að hafa í för með sér alvarlega lækkun á þeim vörum sem þessi þjóð flytur inn. Þar verðum við fyrir alvarlegum skakkaföllum.

Það er líka eðlilegt að taka nokkuð til meðferðar Verðjöfnunarsjóðinn, eins og ég sagði áðan. Þá er ekki um að kenna heimsmálunum eða efnahagsmálum annarra þjóða. Hvaða vit var í því í fyrra, við jafnhagstæð skilyrði og voru á sölu á loðnumjöli og lýsi, að leggja ekki meira í Verðjöfnunarsjóðinn þá, heldur láta verksmiðjurnar hafa svo góða afkomu að þær kepptu um loðnuafurðirnar með því að yfirborga þær í stórum stíl? Vegna þess, að verksmiðjurnar höfðu mikið eftir, sem átti að leggja í þeirra deild í Verðjöfnunarsjóðnum, en var ekki gert, tókst þetta. Yfirborganir hafa í för með sér verðbólgu. Það þarf ekki hagfræðinga til að vita það. Það er meira peningamagn sem fer í veltuna en nauðsynlegt er. Það átti að geyma í Verðjöfnunarsjóðnum umframfjármagn, sem fyrirtækið þurfti ekki á að halda, og koma í veg fyrir þetta, en það var ekki gert. Hver er svo afleiðingin núna? Þessi deild er tóm. Það er ekkert eftir í henni, og eins og ráðh. gat réttilega um er verðfall á loðnuafurðum, tilfinnanlegt verðfalt, og fram undan er sjáanleg stórfelld lækkun á sama tíma og útgerð og vinnsla verður að búa við 50–60% kostnaðarhækkun við framleiðsluna. Það er ekki bjart fram undan í þessum efnum. Ríkisstj. ræður ekkert við verðlækkunina á erlendum mörkuðum, en hún gat ráðið við Verðjöfnunarsjóðinn.

Ég segi líka: Hvaða vit var í því í byrjun þessa árs að ákveða svo lágt viðmiðunarverð í Verðjöfnunarsjóð á saltfiski við jafnhagstæð skilyrði og voru í byrjun ársins að saltfisksframleiðslan greiðir ekkert í Verðjöfnunarsjóðinn — hvorki inn né út? Hann kemur út á núlli.

Þarna nefni ég tvö dæmi sem eru sök stjórnvalda. Þau hafa aukið vandann, — aukið þann vanda sem þau gátu komið í veg fyrir með skynsamlegum aðgerðum. Hitt ætla ég ekki að ráðast á ríkisstj. fyrir, í sambandi við frystideildina. Ég mátti stríða í fjögur ár við svipaðan vanda. 1974, allt árið 1975 og fram eftir ári 1976 var staðan í frystiiðnaðinum þannig að það var lækkun lengi á höfuðmörkuðum frystiiðnaðarins og það var ekki hægt að byggja deildina upp. Það hefur ekkert breyst og því er ekki sanngjarnt að ráðast á sjútvrh. eða ríkisstj. fyrir það. En hinar deildirnar, sem ég nefndi, er vítavert gáleysi að hafa vanrækt svo sem raun ber vitni.

Lítum á þau plögg sem liggja fyrir frá Þjóðhagsstofnun. Ég ætla ekki að fara ítarlega út í þau, en staða sjávarútvegsins í heild er hin hörmulegasta þó að út yfir taki þegar minnst er á frystingu. Ég tel að það eigi aldrei, þó að það hafi verið gert á s. l. ári, að færa til á milli deilda. Það á hver deild í Verðjöfnunarsjóðnum að eiga sitt, en hver deild, sem á ekki neitt, á þó þann sjóð tóman. Ég tel að það eigi ekki að færa á milli deilda, enda er þá verið að bregðast því hlutverki sem Verðjöfnunarsjóðurinn hefur lögum samkvæmt.

Ég tel að ríkisstj. geti ekki talað eins og hún hefur talað að undanförnu. Hæstv. forsrh. kom fyrir nokkru fram í sjónvarpi og sagði að fiskverðsákvörðun væri í höndum yfirnefndar Verðlagsráðs, m. ö. o. að ríkisstj. komi þetta ekkert við. Þetta er alger misskilningur, m. a. s. grundvallarmisskilningur, því að um leið og Verðlagsráðið nær ekki samningum sín á milli og málinu er vísað til yfirnefndar á ríkisvaldið fulltrúa í yfirnefndinni sem er oddamaður yfirnefndar, og um leið og verðlagsmál er komið til yfirnefndar er það komið í hendur ríkisstj. Ég þekkti það í fjögur ár, að í hvert skipti sem mál kom til yfirnefndar var það meira eða minna í mínum höndum fyrir hönd ríkisstj. Það er alveg eins enn í dag í höndum núv. hæstv. sjútvrh. En hann er bara ekki einn um málið. Það er ríkisstjórn á bak við hann sem ber auðvitað ábyrgðina svo að það er alls ekki hægt að tala eins og menn leyfa sér að tala í þessum efnum. Þessi mál eru í þessum höndum. Ég er ekki að segja að þau séu í góðum höndum, siður en svo, en þau eru þarna og það gengur hvorki né rekur. En það getur ekki gengið þannig. Það er ekki hægt að halda svona áfram. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að hér er alvarlegur kostnaðarauki við framleiðsluna, og það er ekki hægt að hækka hvað sem er á vegum ríkisins eða vegum einhverra aðila hér innanlands, en láta sig engu varða þróunina gangvart þeim sem eru að flytja afurðirnar til útlanda.

Ég tók eftir því, að hæstv. sjútvrh. sagði að hann feldi að menn þyrftu að eiga allt að 50% í eigin tækjum til að ráða við reksturinn. Ég skal ekkert segja um hvort þetta er rétt. Vafalaust er þetta nærri sanni. En ég spyr: Hvernig eiga þeir þá að reka fyrirtækin sem eiga ekkert í þeim eða kannske 1–2%? Ég held að þeir verði að taka meistara Þórberg til fyrirmyndar þegar hann sagði að ef hann ætti að vera lengur í Voss í Noregi mundi hann hengja sig bæði kvölds og morgna. Þannig er nú ástandið.

Hér hefur verið rifjað upp hvernig ástandið er í hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins og í raun og veru alls útflutningsiðnaðarins. Sjávarútvegurinn er rekinn með halla. Hann stendur því mjög höllum fæti og það er vá fyrir dyrum og áhyggjur viða. En ættum við ekki að líta aðeins í leiðinni á bankakerfið, líta á Seðlabankann.

Eigið fé Seðlabankans var 1977 3 milljarðar 8 millj. kr. Það var 1978 6 milljarðar 820 millj. Það var 1979 — þá var Alþb. komið í stjórn — 14 milljarðar 252 millj. Og árið 1980 — þá var Alþb. orðið allsráðandi í þessari ríkisstj. — fór eigið fé Seðlabankans upp í 37,9 milljarða. Þeir vita því hvernig þeir framkvæmda stefnuna um að hemja gróða bankana, eins og þeir hafa talað um frá því að flokkurinn varð til. Framsókn og þeir hinir hafa ekki roð við Alþb. þegar það heimtar gróðann inn í Seðlabankann, og meira að segja blessaður viðskrh. ræður ekkert við þetta því að Svavar er harður í horn að taka og segir: Það er ég sem ræð ferðinni en ekki þú, Tómas.

Nú er ég að vissu leyti sammála Alþb. í því, að bankar eiga að græða, því að banki sem tapar hlýtur að fara lóðbeint á hausinn. Banki, sem bætir ekki eigin stöðu sína í samræmi við verðbólgu, hlýtur að fara niður á við. Þarna ber því ekki mikið á milli okkar og Alþb. um bankagróðann. En svo kemur bara annað til viðbótar og þar ber á milli okkar og Alþb. Alþb. vill að Seðlabankinn hafi 17 milljarða og 915 millj. — ég er auðvitað að tala um gömlu myntina eins og menn eflaust átta sig á — umfram verðbólgustigið. Alþb. vill því ganga lengra á sama tíma og útflutningsatvinnuvegirnir eru reknir með halla og útgerðin og samningar eru lausir í landinu.

Kaupmáttur launa hefur rýrnað. Þá er auðvitað erfiðara að ná endum saman í sambandi við launa- og kjaramál. Því verður Alþb. að fara að ráðum okkar sjálfstæðismanna og minnka hagnað bankanna a. m. k. umfram verðbólgustigið, en ekki ganga lengra. Það verður til þess að rétta hag útflutningsatvinnuveganna og rétta hag fólksins í landinu sem þessi flokkur sagðist einu sinni vera að ber ast fyrir, en hefur alveg gleymt því núna á seinni árum. (ÓRG: Það er bara valdaspursmálið milli okkar.) Þetta breytist við það að núv. formaður þingflokksins tók við. Þá fyrst byrjaði þessi auðsöfnun bankanna. Og auðvitað er nýi formaður flokksins líka við þetta riðinn. Sá gamli var dálítið íhaldssamari, blessaður, og hafði hann þó ekki alltaf á sér orð fyrir að vera mjög íhaldssamur. (Gripið fram í: Núna er hann kominn í banka.) Já, það fór svo. Hann fór í banka, blessaður, og sá banki hefur aldrei grætt meira. Það verða sumir menn skynsamari með aldrinum, en öðrum hrakar aftur eins og gerist og gengur. Það eru ekki allir eins.

Mér finnst nú rétt að minnast aðeins á breytingar fiskverðs og kauptaxta frá 1974 til 1981 samkv. útreikningi Þjóðhagsstofnunar. 1974 er fiskverðið sett í 100 og kauptaxtar allra launþega, en 1975, 1976 og 1977 verður sú ánægjulega breyting að tekjur sjómanna hækka meira en aðrir kauptaxtar, og þá var leiðrétt það sem hafði brugðist þó nokkuð mörg ár á undan. Þannig er viðmiðun allra kauptaxta á móti fiskverði 1975 127, en í fiskverði 133, 1976 159, en 177 í fiskverði, 1977 232, en 246 í fiskverði. En 1978 breytist þetta. Þá fer hækkun kauptaxtanna í 360, en fiskverðið í 331. Þá fer aftur fiskverð miðað við kauptaxta niður fyrir 100 eða í 92 vegna þess að fiskverð breyttist ekki í árslok 1978. Síðan hefur hallað á ógæfuhliðina fyrir sjómenn, því að þessi viðmiðun, sem fór upp í 111 1976, er í septemberlok komin niður í 81.5. Þannig hefur þróunin orðið. Og er þá að furða þó að sjómenn og sjómannasamtökin segi núna við hæstv. ríkisstj.: Hingað og ekki lengra? Ég taldi á sínum tíma að það hefði þurft að rétta hér við. Sjómenn höfðu farið halloka í launum miðað við aðra, en núna hefur sigið verulega á ógæfuhliðina fyrir sjómannastéttina. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að það kraumi nú víða undir hvað snertir sjómenn vegna afkomu þeirra.

Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Telur hann nú ekki nauðsynlegt að allan hagnað umfram verðbólgustig hjá Seðlabankanum fái útflutningsatvinnuvegirnir? Þá er bara að ganga í það. Seðlabankinn hefur ekkert vald hér í þjóðfélaginu til að ganga þvert á það sem ríkisstj. og Alþingi fyrirskipa. Þar getum við aðeins rétt sjávarútveginn af, þó að það sé ekki nema að litlu leyti, og það eigum við að gera. Þar vil ég fyrir mitt leyti leggja hæstv. sjútvrh. lið. En það má ekki bíða með þetta von úr viti. Við verðum að hafa hér hraðar hendur því að þessar atvinnugreinar verða að geta gengið.

Ég hefði gjarnan viljað ræða þessi mál miklu ítarlegar en ég hef gert. Ég hef fyrst og fremst reynt að ræða þetta málefnalega og þá stöðu sem sjávarútvegurinn er i, þá miklu erfiðleika sem víða steðja að á mörkuðum. En bölvaldur alls er verðbólgan, kostnaðaraukinn hér heima, og það er það sem við deilum um. Annars vegar telja menn sig vera búna að koma verðbólgunni niður í 40% og nota þá einhverjar ákveðnar vörutegundir sem mælistiku, en láta svo aftur margar aðrar vörutegundir og lífsnauðsynjar sitja á hakanum og taka þær ekki með. Við vitum að verðbólgan er miklu meiri. Þess vegna eru bölið og erfiðleikarnir miklu meiri en menn vilja vera láta.

Að allra síðustu vil ég sérstaklega ráðleggja formanni þingflokks Framsfl., næst þegar fjölmiðlar spyrja hann um hvað sé fram undan í verkefnum þings og þjóðar, að muna eftir það er til sjávarútvegur á Íslandi, atvinnugrein sem meira byggist á afkoma þjóðarinnar en á nokkru öðru. Í viðtali nýlega lét hann eins og sjávarútvegur væri ekki til, hvað þá að það væru nokkrir erfiðleikar í þeirri atvinnugrein.