28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4317 í B-deild Alþingistíðinda. (4033)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa svarað hér, þó að ég verði að lýsa afskaplega miklum vonbrigðum með það svar sem hann gaf við þessum málum.

Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. og raunar fleiri sögðu áðan, að olíustyrkur var verulega hækkaður á s.l. hausti. En það er bara tiltölulega lítill partur af þessu máli, og ég vara almennt við því ef menn eru hér að tala bara um niðurgreiðslu eða jöfnun á olíuverði. Ég hygg að almennt séu a.m.k. þeir, sem við þetta búa, — það er minn skilningur, — að tala um jöfnun á orkuverði, hverju nafni sem sú orka nefnist. Það er meginmálið. Sú breyting, sem gerð var með hækkun á olíustyrk á s.l. hausti, nær bara til tiltölulega lítils brots af því fólki sem við þessi ósköp býr. Og ég trúi því ekki, eins mikið og búið er að ræða þetta mál, eins langur tími og er liðinn frá því að farið var að benda á þetta, að menn séu ekki enn búnir að átta sig á því, hvað eigi að gera.

Ég minni á það hér, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Matthías Bjarnason gerðu, að það er búið að skattleggja þjóðfélagsþegnana til þess að jafna orkuverð í landinu og til eru peningar vegna þessarar skattheimtu. Það virðist bara eiga að nota þá eða kannske búið að nota þá, ég veit það ekki, í annað á vegum ríkisvaldsins. Það er þetta sem um er að ræða.

Ég vil benda á það hér, að í erindi, sem hæstv. iðnrh. flutti vestur í Hnífsdal s.l. laugardag, kom hann inn á það sem mér skilst að sé í þessu framlagða nefndaráliti nú, að til þess að minnka þann mun, sem nú er, frá því að vera einn á móti fimm niður í einn á móti þremur þurfi 80 millj. kr., til þess að jafna þennan mun á íbúðarhúsnæði, en verði iðnaðarhúsnæði tekið með þurfti 40 millj. til viðbótar, þ.e. 120 millj. til þess að jafna frá því að vera einn á móti fimm niður í einn á móti þremur. Orkujöfnunargjaldið gefur rösklega 190 millj. kr. samkv. fjárlögum ársins í ár. Af því á að nota 30 millj. til niðurgreiðslu á olíu. 160 millj. eru eftir. 120 millj. eru því til þess að jafna þennan mun úr einum á móti fimm í einn á móti þremur og 40 millj. til viðbótar sem hægt væri að ráðstafa enn frekar í þennan þátt.

Ég held því að svo sé um þetta mál eins og mörg önnur, raunar ótalmörg mál, að það þarf ekki að athuga þetta lengur. Ríkisstj. þarf ekki að velta þessu máli öllu lengur fyrir sér. A.m.k. ættu þeir hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstj., sem eru frá þeim landssvæðum þar sem fólk býr við þetta, að vera búnir að gera sér grein fyrir þessu og þekkja það.

Ég tek undir það sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði áðan, við getum ekki beðið lengur. Það er enginn að krefjast þess af hæstv. viðskrh., eins og hann var að kvarta undan áðan, að við værum að biðja um sérstakan lagabálk nú, frv. frá ríkisstj. Fjármagnið er til. Það er einföld ákvörðun frá hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðum að nota það til þessa. Ég ítreka: Ætla menn að horfa upp á það lengur, að t.d. launafólk vestur á fjörðum og víðar þurfi að vinna í þrjá og hálfan mánuð á hverju ári til þess að vinna upp mismuninn bara í þessum þætti húshaldsins, að viðbættum sköttum sem koma svo á þessar viðbótartekjur? Geta hv. þm. legið undir slíku, að því eigi að viðhalda? Það er þegar farið að brydda á því, að þessi ójöfnuður valdi fólksflótta frá þessum svæðum. Það ber því brýna nauðsyn til og það strax að koma í veg fyrir frekari þróun í þá átt.

Ég vil ítreka það, að ég vil ekki trúa því fyrr en það þá sýnir sig, að hæstv. ríkisstj. ætli sér að láta Alþingi ljúka störfum án þess að ákveðið hafi verið með hvaða hætti á að jafna þennan mun. Ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á þessu máli hér, svo mikilsvert og brýnt sem það er, vegna þess að ég tel að Alþingi og stjórnvöld geti ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til málsins og leggja fram annaðhvort till., sem ganga verulega til móts við það fólk sem við þetta býr, eða ég tala nú ekki um ef svo rausnarlega væri að verki staðið að jafna þennan mun út alveg. Ég á ekki von á því, að það verði gert í fyrsta áfanga. Verulegt skref væri hægt að gera í þeim efnum. Og það skulu vera mín lokaorð, að það væri einhver mesta kjarabót þessu fólki til handa ef hæstv. ríkisstj. fengist til þess að nota það fjármagn, sem búið er að skattleggja það með, til þess að borga þennan mismun, því að þessir þjóðfélagsþegnar eru búnir að leggja af mörkum peninga til þess að gera það. Mesta kjarabótin í því ástandi, sem nú er, væri að ríkisstj. skilaði til baka þó ekki væri nema nokkuð verulegum hluta af þessari skattheimtu sem hún ætlar sér sýnilega að nota í annað. Og það væri vissulega gott innlegg í ástand vinnumarkaðarins á þessum tíma ef fundin væri leið til þess að skila raunhæfum kjarabótum til þess fólks sem hér á hlut að máli.