28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4318 í B-deild Alþingistíðinda. (4034)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það voru ein þrjú atriði sem ég tel gagnlegt að nefna til að minna á þann vanda sem við er að fást í sambandi við misræmi í upphitunarkostnaði í landinu.

Í fyrsta lagi er það, sem komið hefur fram hér í máli manna, að þegar væru fyrirliggjandi fjármunir hjá ríkissjóði til þess að verja til jöfnunar á húshitunarkostnaði. M.a. voru það hv. þm. úr fjvn. sem að því viku. Ég hygg að þeim ætti að vera vel um það kunnugt, að þessum tekjum, sem ganga undir nafninu orkujöfnunargjald, hefur verið ráðstafað við afgreiðstu fjárlaga. Hitt er rétt, að fram komu brtt. á sínum tíma þar að lútandi, en þær eru teknamegin í fjárlögunum og líka gjaldamegin í fjárlögunum, þar af 30 millj. vegna olíustyrks, þannig að samkvæmt gildandi fjárlögum standa málin þannig. Þetta vita auðvitað hv. þm. Ég ætla ekki að fara út í að rekja sögu þessa gjalds og þær umr. sem urðu þegar það var á lagt. Þá kom það fram, að gjaldið rynni í ríkissjóð, hluti af því færi til jöfnunar, sérstaklega í olíustyrk, á þeim tíma.

Í öðru lagi vil ég taka mjög eindregið undir það að hér þarf að nást áfangi fyrr en seinna til jöfnunar. Ég tel að sú hugmynd, sem fram hefur komið og verið rædd hér, að mismunur verði ekki meiri en einn á móti þremur eða svo miðað við staðalaðstæður, sé ekki óeðlilegt sem byrjunaráfangi í þessum efnum, en hjá þeirri nefnd, sem hefur skilað áliti um þetta mál, er gert ráð fyrir að nokkur raunhækkun verði á gjaldskrám þeirra fyrirtækja sem lægsta gjaldskrá hafa, þ. á m. Hitaveitu Reykjavíkur, og skref hefur raunar alveg nýlega verið stigið í þá átt, að vísu ekki stórt, en til raunhækkunar á gjaldskrá hennar. Þetta tel ég markmið sem þurfi að nást fyrr en seinna.

Ég vil í þriðja og síðasta lagi minna hv. þm. á að þó að við náum jöfnun að þessu marki miðað við gjaldskrár fyrirtækja er mjög langt frá því að nokkur trygging sé fyrir því — það eru raunar ekki líkur á því — að raunjöfnuður náist hjá fólki jafnvel innan sama byggðarlags að þessu marki, vegna þess að menn búa við svo ólíkar aðstæður varðandi gerð og búnað húsnæðis, jafnvel húsnæðis sem er sambærilegt að stærð, vegna þess að það er misjafnlega til þess vandað, misjafnt hvað snertir einangrun og frágang. Það er á þessu sviði sem þarf að gera mjög stórt og verulegt átak, sem skiptir mjög miklu máli þjóðhagslega að takist að gera, með því að örva aðgerðir til þess að bæta íbúðarhúsnæði í landinu og koma í veg fyrir hitatap út frá húsnæði sem er ófullnægjandi. Þarna eru til reiðu lán hjá húsnæðismálastjórn, en ég tel að það þurfi að gera samstillt átak til þess að þarna verði meira að gert, bæði með fjármagni, upplýsingum og ráðgjöf til húseigenda, því að öðruvísi náum við ekki í reynd þeirri jöfnun sem menn eru að tala um hér. Menn mundu eftir sem áður standa frammi fyrir mjög mikilli mismunun innan sama byggðarlags við sambærilegt húsrými, vegna þess hvað það er misjafnlega úr garði gert, þó að á pappírnum væri verið að setja markmið eins og einn á móti þremur og þaðan af betri árangur varðandi jöfnuð miðað við staðalaðstæður. Það er nauðsynlegt að almenningur átti sig á þessu engu síður en við hér á hv. Alþingi og tekið verði á þessum þætti málsins jafnframt.