28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4320 í B-deild Alþingistíðinda. (4036)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem hæstv. iðnrh. sagði áðan. Það er auðvitað meginmisskilningur hjá hæstv. ráðh. og raunar furðulegt að jafngreindur einstaklingur og margir telja að hann sé skuli halda því fram, að t.d. við Alþfl.-menn höfum tekið þátt í því að skipta upp tekjunum af orkujöfnunargjaldinu við afgreiðslu fjárlaga. Þetta er hrein fásinna, þetta er fölsun á staðreyndum. Ég heyri að hv. þm. Alexander Stefánsson er sömu skoðunar og ég í þessum efnum. Hann telur sig ekki hafa tekið neinn þátt í því að skipta upp við afgreiðslu fjárlaga tekjunum af orkujöfnunargjaldinu. Það komu fram till. — það er hægt að sýna þau þskj. — t.d. af hálfu Alþfl.-þingmanna um að lækka miklum mun meira önnur útgjöld en þarna er um að ræða á móti orkujöfnunargjaldinu. Málið er þetta: Ríkisstj. skattleggur þjóðfélagsþegna í formi orkujöfnunarskatts, en notar meginpartinn af þeim skatti til annarrar eyðslu hjá ríkissjóði en til að borga niður samkvæmt þeim lögum sem þarna er um að ræða.

Ég vísa alveg á bug sem hreinum fölsunum á staðreyndum því sem hæstv. iðnrh. sagði áðan, að við höfum tekið þátt í því að skipta upp þessum tekjum af orkujöfnunargjaldinu. Hafi einhverjir gert slíkt er greinilegt að það er hæstv. iðnrh. sem telur sig hafa gert það, og þá er skiljanlegt hver afstaða hans er til þessa máls.