28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4321 í B-deild Alþingistíðinda. (4038)

131. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. svipaðs efnis hefur verið til meðferðar áður hér í hv. Alþingi — mig minnir tvisvar áður — og ekki tekist að koma því áfram. Það var lagt fram í Ed. og þar var gerð á því breyting um atriði sem mest var um deilt í því frv. Það var um smíði kæligeymslu til að verja grásleppuhrogn skemmdum. Nú hefur þetta stærsta ágreiningsmál verið tekið út og margir bjuggust við að málið næði fram að ganga með þeim breytingum. En síðan komu athugasemdir í sjútvn. þessarar deildar, aðallega við eitt atriði þar sem um var að tefla þann hluta útflutningsgjaldsins sem fara skyldi til að greiða tryggingar fyrir skipverja á grásleppuveiðibátum. Það er raunar meginatriði þessa frv. í mínum augum að finna leið til þess, að þessir sjómenn séu tryggðir eins og aðrir sjómenn í landinu, en um þetta varð ágreiningur í nefndinni sem var það ákveðinn, að ef ekki hefði verið reynt að finna leiðir til að leysa það ágreiningsmál hefðum við hv. alþm. orðið til þess einu sinni enn að koma í veg fyrir að þetta að mörgu leyti réttlætismál og öryggismál næði fram að ganga. Þess vegna var það, að þótt við hefðum ákaflega stuttan tíma á erilsömum tímum til að reyna að leysa þetta mál tókst að ná samkomulagi í nefndinni um brtt.

Brtt. nefndarinnar er við 3. gr., sem er um það í stuttu máli, að Samtök grásleppuhrognaframleiðenda kaupi í einu lagi tryggingu fyrir alla þá sem stunda þessar veiðar. Breytingin er um að þeir útgerðaraðilar, sem vilja kaupa þessar tryggingar sjálfir, eigi rétt á að fá til baka þá greiðslu af útflutningsgjaldinu sem þeir hafa greitt í þessu tryggingaskyni. Um þetta varð samkomulag og ég treysti því, að þm. í hv. Nd. geti fallist á að ganga frá málinu með þessum hætti.

Það er villa í frv. — misskilningur — sem fór í gegnum Ed. án þess að sú hv. deild ræki augun í hana, þar sem talað er um það í 3. gr., að til greiðslu iðgjalda af líf-, slysa- og örorkutryggingum eigi að fara 41% af útflutningsgjaldi. Þarna á líftrygging alls ekki heima, eins og menn geta áttað sig á, og er hvergi um það að tefla á öðrum svipuðum stöðum í lagasetningunni, en aðeins um að ræða slysa- og örorkutryggingu. Brtt., sem er eiginlega leiðrétting, er einmitt um að orðið „líf-“ fari þarna út úr 1. tölul. 3. gr.

Þar við bætist, herra forseti, að þessir tímar, sem við lifum á nú þessar vikurnar, eru miklir óróatímar og ósamkomulagstímar. Þarf ekki að rekja það, að í mjög mörgum málum á hinu háa Alþingi er hart deilt og svo er einnig úti í þjóðfélaginu, ekki aðeins í Blöndudal eða Rugludal eða þessum þekktu dölum þarna fyrir norðan, heldur er það einnig innan ýmissa samtaka, og af ýmsum ástæðum urðu talsverðar ýfingar milli manna í Samtökum grásleppuhrognaframleiðenda. Það hefur heyrst mikið um að jafnvel kynni að koma til þess, að önnur samtök yrðu stofnuð.

Um þetta er náttúrlega ekkert skjalfest eða að fullu vitað. En sumir nm. lögðu á það áherslu að gera ráð fyrir því versta í þessu efni, því hið góða skaðar ekki, eins og þar segir, og gera ráð fyrir þeim hugsanlega möguleika, að önnur samtök yrðu sett á laggirnar. Þess vegna var að nm. komu sér saman um að breyta stórum staf í lítinn í orðunum „Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda“, þannig að ef önnur samtök koma upp verður náttúrlega sá hluti útflutningsgjaldsins, sem til þeirra samtaka fer, að skiptast á milli þeirra samtaka sem til verða samkv. þessari grein.

Um þetta má að sjálfsögðu ýmislegt segja til nánari skýringar, en þar sem þetta mál ætti að vera hv. þm. kunnugt eftir margendurtekna meðferð held ég að ég láti þessi orð duga um málið efnislega. Ég vil hins vegar segja það hér strax við meðferð þessa máls, að með frv. um útflutningsgjald af grásleppuafurðum er fylgifrv. um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Það er eingöngu flutt vegna þess hluta, sem grásleppuveiðimenn leggja í þann sjóð, og er nauðsynlegt að það fái afgreiðslu samhliða hinu frv. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að mæla fyrir því frv. sérstaklega, með leyfi hæstv. forseta.

Að lokum vil ég fara þess vinsamlega á leit við hæstv. forseta, að hann sjái sér fært að greiða götu málsins í gegnum hv. Nd. svo að við sitjum ekki upp með málið óafgreitt einu sinni enn.