28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4325 í B-deild Alþingistíðinda. (4045)

178. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. fjh.- og viðskn. um frv. til 1. um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Nefndin hefur rætt frv. það, sem hér um ræðir, og mælir með því, að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 282. Undir þetta skrifa allir nm. í fjh.- og viðskn. Nd. En til þess að rifja þetta aðeins upp vil ég, með leyfi forseta, lesa upp 4. tölulið 66. gr. laga um tekju- og eignarskatt, sem hljóðar þannig:

„Skattstjóri skal taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo stendur á sem hér greinir“ — og 4. tölul. í þeirri upptalningu er: „Ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri“, en frv. gerir ráð fyrir að það breytist þannig: „Ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 14 ára og eldri“.

Hér virðist nefndinni vera um réttlætismál að ræða meðan svo er ástatt að ríkisvaldið treystir sér ekki til vegna kostnaðar að halda uppi lögboðinni kennslu á viðkomandi stöðum. Hér mun ekki vera um stórar upphæðir að ræða, þar sem tiltölulega fáir fá lækkun á tekjuskattsstofni vegna þessa frv., ef að lögum verður. Öllu heldur er hér um réttlætismál að fjalla, þar sem um greinilega mismunun getur verið að ræða milli þeirra, sem verr eru settir í þessum efnum, og þeirra, sem hafa skóla í næsta nágrenni.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 3. umr.