28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (4049)

255. mál, almenn hegningarlög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. hlýtur afgreiðslu á þessu þingi. Fyrr á þessu þingi vakti ég athygli á því, að sá refsirammi, sem væri vegna ólöglegra fuglaveiða og eggjatöku sérstaklega, væri orðinn mjög úr sér genginn og nauðsynlegt væri að hressa upp á hann þannig að þyngri viðurlög yrðu lögfest varðandi brot á lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun sérstaklega. Ég vil sem sagt láta í ljós ánægju mína yfir þeim ákvæðum, sem í þessu frv. eru um ólöglegar fuglaveiðar og eggjatöku, og jafnframt nota þetta tækifæri til að beina því til hæstv. menntmrh., að hann hleypi nú í sig þeim kjarki, þegar þing kemur saman á hausti komanda, ef hann situr þá enn þá í sæti menntmrh., sem er með öllu óvíst, a.m.k. ef marka má ummæli Guðrúnar frá Lundi, að leggja nú fram frv. til nýrra laga um fuglaveiðar og fuglafriðun, en ekki veitir af að þau lög fái nákvæma umfjöllun og endurskoðun.