09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er skiljanlegt að Vestfirðingar uni því illa ef miklar truflanir eru á útsendingum sjónvarps og útvarps. Hv. þm., sem hér var að ljúka máli sínu, ræddi þetta mál við mig fyrir allmörgum dögum og við komum okkur saman um að ræða það hér í þinginu, því að þetta er stórmál, það viðurkenni ég.

Ég hef ekki átt annars kost en að leita til deildarverkfræðings hjá póst- og símamálastjórninni sem fer með þessi má:, og hann hefur skrifað mér minnisblað varðandi þetta sérstaka efni. Hef ég reyndar ekki önnur svör að gefa á þessu stigi en fram koma í þessari grg. Haralds Sigurðssonar deildarverkfræðings hjá Póst- og símamálastofnun. Þetta minnisblað — eða greinargerð — er stílað til mín og ég ætla að leyfa mér að lesa það:

„Eins og yður er kunnugt, þá byggist sjónvarpskerfi útvarpsins til Vestfjarða á endurvarpi frá sendistöðinni í Borgarlandi við Stykkishólm. Endurvarpsstöðvar sjónvarps á Patreksfirði, Sveinseyri, Bíldudal og á Sandafelli við Dýrafjörð fá merki sitt beint frá Borgarlandi, en endurvarpsstöðvar í Önundarfirði, Súgandafirði, Bolungarvík, Súðavík og á Arnarnesi við Skutulsfjörð fá merki sitt um stöð að Bæjum á Snæfjallaströnd. Sérhver truflun í Borgarlandi leiðir því til truflana á öllum Vestfjörðum, en truflanir á Bæjum leiða auk þess til truflana á nyrðri hluta Vestfjarða. Framangreint gildir einnig fyrir FM-dreifikerfi útvarps, en það nær þó enn þá eingöngu til Ísafjarðardjúps. Áætlað er að koma FM-endurvarpi til Súgandafjarðar, Önundarfjarðar, Patreksfjarðar og Tálknafjarðar snemma á árinu 1982.

Frá því að útsendingar sjónvarps hófust eftir sumarleyfi hafa orðið óvenjumiklar truflanir á sjónvarpi og FM, sérstaklega á nyrðri hluta Vestfjarða. Orsakir hafa verið margþættar bilanir. Ber þá fyrsta að nefna rafmagnsbilanir, en þær hafa orðið í Borgarlandi dagana 16. ágúst og 19. sept. og í samfellt þrjá sólarhringa að Bæjum á Snæfjallaströnd, dagana 27.–30. okt. Þar var reyndar hægt að senda út með 1/5 hluta afls, en myndgæði rýrnuðu verulega á öllu svæðinu og sumir misstu alveg móttöku við þessa afllækkun.

Næst skal þá getið truflana á örbylgjusambandi því sem flytur dagskrá til sendisins í Borgarlandi. Þær hafa verið nokkuð tíðar eða alls um 10 sinnum á umræddu tímabili. Þessar bilanir hafa lýst sér í titringi myndar og hljóðtruflunum og tímabundnu stuttu rofi á mynd. Loks er um bilanir á sendi- og loftnetabúnaði stöðvarinnar að ræða. Hvað er þá til úrbóta?“ spyr Haraldur Sigurðsson, verkfræðingur.

„1. Á Snæfellsnesi er nú verið að leggja nýja háspennulínu. Reyndar er hún gerð fyrir utanvert nesið, en þó mun með tilkomu hennar vera hægt að vænta aukins rekstraröryggis í Borgarlandi. Sjónvarpsstöðin í Borgarlandi er reyndar ein hinna stærri sjónvarpsstöðva sem ekki hefur vararafstöð. Var sú ákvörðun tekin vegna þess varaafls, sem talið var í dísilrafstöðvum Rafmagnsveitna ríkisins í Stykkishólmi.

Að Bæjum á Snæfjallaströnd eru horfur ekki eins góðar. Þar um slóðir eru nú reknar þrjár smárafveitur sem hafa stórt veitusvæði og ótryggar raflínur. Vegna víðáttu svæðisins er hætt við að straumrof geti orðið langvarandi, eins og raun ber vitni um.

2. Tæknimenn Pósts og síma vænta þess, að s. l. sunnudag“ — ég vil taka fram, að þetta bréf er skrifað 2. þ. m. — „hafi tekist að koma í veg fyrir tíðar bilanir á örbylgju, en þær voru þess eðlis að vera jafnan horfnar þegar á vettvang var komið. Bilanir þessar reyndust stafa frá stöðinni á Gyrðisholti á Mýrum og varð þeirra einnig vart á Norður- og Austurlandi, þó í minna mæli væri en á Vestfjörðum.

3. Í senda- og loftnetamálum er það helst að frétta, að nú er lokið uppsetningu nýs 10 kw. sendis í Borgarlandi. Leysir hann af hólmi 14 ára gamlan sendi. Vænta má þess, að hinn nýi sendir verði ekki eins viðkvæmur fyrir spennutruflunum og sá sem nú hefur verið tekinn úr daglegri notkun. Eldri sendirinn mun standa áfram sem varasendir. Á áætlun næsta árs er að stækka og endurnýja stöðina á Bæjum á Snæfjallaströnd í 50 kw. og endurnýja stöðina á Sandafelli við Dýrafjörð. Jafnframt þessu er unnið að viðhaldi og vissri endurnýjun loftneta.“ Undir þetta ritar Haraldur Sigurðsson.

Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi geti sætt sig við þá grg. sem komin er frá Landssímanum varðandi þetta mál. Hins er rétt að geta, að ég tel sjálfsagt að fylgjast vel með málinu og mun gera mitt til þess, að ekkert lát verði á því að reynt verði að bæta úr þessu ófremdarástandi, að svo miklu leyti sem það er í verkahring ráðuneytis míns og þeirra stofnana sem undir það heyra. En að hluta til er þetta vandamál rafmagnstruflanir frá ýmsum rafmagnsveitum, og ég hygg að það kunni að verða erfiðara vandamál fyrir mig að leysa úr því, ef þar er um að ræða verulega ástæðu fyrir þessum vanda Vestfirðinga.

Varðandi það hugleiðingarefni hv. fyrirspyrjanda, hvort rétt væri að leysa útvarpsnotendur á Vestfjörðum undan því að greiða afnotagjald, þá vona ég að ekki þurfi að koma til þess. En e. t. v. er það sanngjarnt ef svo skyldi nú fara, að þeir sjái ekki útvarp og sjónvarp. En ég vona að svo slæmt verði ástandið ekki og að Vestfirðingar hafi þolinmæði til að bíða þess, að úr þessu verði bætt. Vissulega er fullur vilji á því af hálfu útvarpsins, að úr þessu verði bætt, innan þeirra marka og þeirrar getu sem útvarpið hefur í þessu efni.