28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (4050)

255. mál, almenn hegningarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Haldi hv. 7. landsk. þm. að það sé mér til minnkunar að vera nefnd í sambandi við nöfnu mína er það mikill misskilningur, auk þess sem hv. 7. landsk. þm. á engan heiður af þessu bráðsniðuga nafni. En það var ekki þess vegna sem ég kom hér upp. (Forseti: Þó ekki væri.) Aðeins vegna sérstakrar og ekki minni elskusemi við hæstv. forseta þessarar deildar skal ég stytta mál mitt mjög. En ég vil leyfa mér að gera athugasemd við þau ummæli, sem hér voru höfð í frammi áðan, að hér væri á ferðinni myndarlegur bandormur við lagagerð, þar sem með einum lagabálki er breytt 53 lögum. Ég vil satt að segja víta þessa aðferð við lagasetningu. Þetta er ákaflega vond lögfræði, svo ekki sé meira sagt, og ekki síst í landi þar sem hvorki þm. né landsmenn aðrir hafa aðgang að lagasafni. Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til að skora á menn, ef menn ætla að stunda slíka lagasetningu að hraða sem mest þeir mega útgáfu lagasafns.