28.04.1982
Neðri deild: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4336 í B-deild Alþingistíðinda. (4064)

288. mál, Framleiðsluráð landbúnðaarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna fremur jákvæðum undirtektum hæstv. landbrh. við þetta mál. Ég held að það geri sér allir ljósa grein fyrir því, að það er orðið nauðsynlegt að reyna að auka og bæta úrval þess grænmetis sem er á markaði hér á landi. Hefur mér stundum fundist að Grænmetisverslun ríkisins hafi ekki staðið sig nægilega vel í þeim efnum.

Eitt af grundvallaratriðum þessa máls er auðvitað það sem t.d. hv. þm. Stefán Valgeirsson nefndi hér áðan, að halda uppi jöfnuði í verðlagningu þessarar vöru hér á landi. En ég sé hins vegar enga ástæðu til að ætla að með breyttu og opnara fyrirkomulagi mundi vöruverð verða misjafnara en það er, a.m.k. er ekki kvartað í dag undan því, að verð á ávöxtum almennt í landinu sé mishátt. Þær umkvartanir hef ég ekki heyrt.

Hins vegar er það nokkuð eftirtektarvert í sambandi við frv. þeirra sjálfstæðismanna, sem hér liggur fyrir til umræðu, og frv., sem hv. þm. Vilmundur Gylfason og fleiri Alþfl.-menn hafa flutt, að þau hafa yfirleitt eingöngu verið send mjög fáum aðilum til umsagnar. Þar er einkum um að ræða framleiðsluráðið, sem auðvitað á mjög umtalsverðra hagsmuna að gæta, þar er um að ræða Búnaðarfélag Íslands og Búnaðarþing. Þegar byrjað var að fjalla um frv. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar í landbn. Nd. spurði ég eftir því hvort málið hefði ekki verið sent fleiri aðilum, en í ljós kom að það hafði ekki verið gert. Að ósk minni var það síðan sent Verslunarráði Íslands, Neytendasamtökunum, Kvenfélagasambandi Íslands og Félagi ísl. stórkaupmanna. Það verður að segjast eins og er, að umsagnir þessara aðila eru auðvitað allt öðruvísi en þeirra sem ég nefndi fyrst. Það kemur t.d. fram hjá Verslunarráðinu að það er mjög fylgjandi þessu. Neytendasamtökin eru í höfuðatriðum fylgjandi frv., þ.e. frv. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar sem fjallar um svipað efni, enda er þar um að ræða hagsmuni neytenda, en ekki framleiðenda. Og þarna stendur auðvitað hnífurinn í kúnni. Kvenfélagasamband Íslands lýsir yfir fullum stuðningi af eðlilegum ástæðum því það eru nú einu sinni konurnar sem verða að kaupa kartöflurnar. Ég held þess vegna að það sé býsna nauðsynlegt að menn átti sig á því, að hagsmunir aðila í þessum málum fara ekki alveg saman. Það fara ekki saman hagsmunahópurinn, sem stendur að framleiðslunni eða framleiðsluráðið, og sá hópur, sem þarf að neyta þessarar vöru.

Það hefur komið hér fram og er eðlileg ábending, að menn óttast mjög að með breytingu á því fyrirkomulagi, sem nú ríkir, þeirri einokun, sem nú ríkir, verði brotið niður það verðjöfnunarkerfi sem nú er í gildi vissulega og er virðingarvert. En ég er þeirrar skoðunar, að með hæfilegri og hóflegri samkeppni í innflutningi á þessum vörutegundum megi ná þeim jöfnuði í vöruverði sem nú er. Við skulum líka gæta að því, að neysla á grænmeti hér á landi fer mjög vaxandi og það eru ýmsir aðilar sem flytja nú inn grænmeti í allstórum stíl, grænmeti sem ekki er unnt að rækta hér á landi, og ég veit ekki betur en hin ágætasta sala sé í þessum varningi.

Ég ætlaði ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Ég vildi aðeins benda á það, að í landbn. gerðist það að umsagna var ekki leitað hjá öðrum aðilum en þeim sem fyrir fram var vitað að mundu verða neikvæðir. Það hefði ugglaust verið nauðsynlegt að kanna hvort ekki væri eðlilegt að aðrir aðilar fjölluðu um bæði þau frv. sem ég hef rætt hér um, — þeir aðilar sem eiga hinna eiginlegu hagsmuna að gæta, þ.e. neytendurnir sjálfir, en þeir hafa ekkert fengið að segja í þessum málum, ekki nokkurn skapaðan hlut, heldur eru það þeir aðilar sem framleiða vöruna og dreifa henni í því einokunarfyrirkomulagi sem við höfum nú og verðum að sætta okkur við um stund.

Ég vildi aðeins, herra forseti, segja það að ég vænti þess, að það geti komist eitthvert los á það staðnaða kerfi sem hér ríkir um sölu á garðávöxtum almennt. Ég geri ekki verulega mikið úr þeim athugasemdum sem komið hafa fram. Einhverjar þeirra eiga vissulega rétt á sér, en ég er hins vegar sannfærður um að með aukinni samkeppni í sölu og dreifingu á þessum varningi megi ná svipuðum árangri og nú er, nema því aðeins að til viðbótar komi meiri gæði vörunnar og meira úrval. En það er nú það m.a. sem hér skortir mjög á, að úrval er of lítið, það skortir á meira úrval en við höfum nú. — En ég er hlynntur rauða þræðinum í frv., sem hér er til umr., og vænti þess, að þó þetta nái ekki fram að ganga nú verði það tekið upp strax á næsta þingi þannig að þingið fái aðstöðu og möguleika til að fjalla um það betur en nú er gert og á reyni, hvort menn vilja hverfa frá því staðnaða fyrirkomulagi, sem nú er, og taka upp annað sem ég tel vera betra.