28.04.1982
Neðri deild: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4337 í B-deild Alþingistíðinda. (4065)

288. mál, Framleiðsluráð landbúnðaarins

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það er liðið fram yfir venjulegan fundartíma þessarar hv. deildar. Ég mun þess vegna reyna að vera stuttorður.

Ég vil byrja á að þakka hæstv. landbrh. fyrir framlag hans til þessara umræðna. Það er rétt, sem kom fram hjá honum, að hér er varla um gerbyltingu að ræða samkvæmt orðanna hljóðan, en ég þakka honum sérstaklega fyrir að hann skuli hafa sagt hér að hann telji ástæðu til að kanna og láta skoða nánar hvort unnt sé að ná fram þeim tilgangi sem var lýst m.a. í framsöguræðu minni. Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að hann teldi tilganginn vera góðra gjalda verðan og æskilegt væri að greiða fyrir bættu fyrirkomulagi. Fyrir þetta vil ég sérstaklega þakka.

Varðandi það, hvort fullt samræmi sé á milli greinanna í frv. og grg., má auðvitað deila. Séu aðeins lesnir fyrstu málsliðir í grg. má kannske segja að gefist tilefni til að halda að um verulegar breytingar væri að ræða. En þegar grg. er lesin alveg er ekkert annað sagt í grg. með einstökum greinum en það sem stenst í sjálfu frv. Auðvitað má deila um hvort verið sé að gefa eitthvað frjálst, en á því er auðvitað munur hvort mörgum sé leyfi. að flytja inn garðávexti t.d. þegar haft er í huga að núverandi orðalag laganna er þannig, að enginn megi versla með þessar vörur nema með leyfi framleiðsluráðs, og að enn fremur segir í lögum nú að ríkisstj. hafi einkarétt til að flytja til landsins kartöflur. Í ljósi þessara núgildandi lagaákvæða verða menn að skilja það orðalag sem kemur fram í grg., en ég tek fram að þetta er algert smámál. Það, sem skiptir auðvitað máli, er framkvæmdin, ef þetta frv. eða annað álíka yrði að lögum t.d. á næsta þingi.

Um ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. hef ég fátt að segja. Ég hef heyrt þessi sjónarmið áður. Þau hafa komið fram ávallt þegar hv. þm. hefur rætt þessi mál. Hann minntist á að ég hefði beðið um að málið yrði sent út til umsagnar í fyrra. Það er rétt. Það var vegna þess að hv. þm. vildi eindregið fá málið til sinnar nefndar, en ég hafði lagt til að málið færi til allshn. þar sem frv. jafnaðarmanna hafði verið til umfjöllunar á síðasta þingi. Ég greip auðvitað tækifærið, þegar hv. þm. sagði að málið ætti að fara til landbn., og kaus að rétta honum frv., m.a. vegna þess að ég treysti honum til að senda málið út til umsagnar, en hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Gunnarsson; hefur sagt frá því hér í ræðu hvernig fór með þær umsagnir. Ég fagna því hins vegar að hv. þm. Stefán Valgeirsson vilji ræða þetta mál frekar á næsta þingi, og ég vænti þess fastlega, að þá hafi hann skoðað málið með sama hugarfari og kom fram hjá hæstv. landbrh.

Það gefst ekki tími hér til að fjalla um það sem kom fram í ræðu hv. þm. um 300% álagningu hjá heildsölum og þess háttar mál. En ég vil aðeins benda á að við höfum hér í Reykjavík fyrirtæki, m.a. Osta- og smjörsöluna, og Mjólkurbú Flóamanna, sem eru sölu- og dreifingarfyrirtæki landbúnaðarins og ég get ekki séð á húsbyggingum og húsakosti þessara fyrirtækja að þau búi við vanefni. Ég get vel ímyndað mér að þeir fjármunir, sem eru notaðir til uppbyggingar þessara ágætu fyrirtækja, komi að einhverju leyti frá þeim sem kaupa vöruna. Ég get ekki ímyndað mér annað. Það er svo efni í aðra ræðu, hvort það geti verið að álagningin sé í sumum tilvikum, og um það hefur verið deilt áður á þingi, m.a. á skattfé borgaranna. Þá á ég við þær niðurgreiðslur sem við leggjum fram úr sameiginlegum sjóði og eru síðan notaðar sem stofn þegar um álagningu er að ræða, t.d. við sölu slíkra afurða erlendis, eins og fram hefur komið og viðurkennt hefur verið.

Ég fagna þeim stuðningi, sem kemur frá hv. 9. þm. Reykv., og tel ástæðu til að kanna hvort hægt sé við upphaf næsta þings, og þá væri ekki verra að frumkvæði landbrn. kæmi til, að útbúa frv. sem gæti fundið leið út úr þeim ógöngum sem þessi mál eru í.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. drap á það, sem ekki er til umræðu beinlínis hér, að það þyrfti að vera meiri fjölbreytni varðandi þær vörutegundir sem við fjöllum hér um. Ég vil koma því á framfæri, fyrst þessi mál eru til umræðu, að það er auðvitað einkennilegt, að það kemur fyrir kannske mánuðum saman að aðeins er ein kartöflutegund til í búðum hér í Reykjavík. Ég er hræddur um að neytendur annars staðar, í öðrum löndum, mundu ekki una við slíkt, og ég veit að þeir menn, sem fara með þessi mál í landbrn., hafa ekki verið ánægðir með framkvæmd laganna t.d. hvað vöruval snertir.

Að síðustu, herra forseti, vil ég segja það, að hér er aðeins verið að opna smárifu, nánast að gera tilraun til að athuga og kanna hvort ekki sé hægt að fá betri framkvæmd á þessum málum. Ég vil að allra síðustu þakka hæstv. landbrh. fyrir þá yfirlýsingu, að hann vilji skoða það og kanna hvort ekki sé hægt að finna fyrirkomulag sem sé betur við hæfi en það sem við búum við.