29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4343 í B-deild Alþingistíðinda. (4068)

240. mál, löggjöf um atvinnulýðræði

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Árið 1965 flutti hv. þáv. alþm. Ragnar Arnalds till. til þál. um atvinnulýðræði þar sem gert var ráð fyrir því, að Alþingi fæli 11 manna nefnd að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launþega á stjórn þeirra fyrirtækja. Sú tillaga var ekki afgreidd. Sami hv. þm. endurflutti tillöguna 1968. Hún var þá ekki heldur afgreidd. Árið 1967 flutti einn af þm. Alþfl., Benedikt Gröndal, frv. til 1. um breyt. á lögum n.r 35/1948, um sementsverksmiðju, þess efnis að starfsfólk sementsverksmiðjunnar fengi aðild að stjórn fyrirtækisins. Það frv. var ekki afgreitt. Árið 1970 fluttu síðan tveir þm. Alþfl. frv. til 1. í Ed. um hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja. Frv. þessu var vísað til hæstv. ríkisstj. að fengnum jákvæðum umsögnum frá stjórnum ASÍ og Sambands ísl. samvinnufélaga, en neikvæðri frá stjórn Vinnuveitendasambands Íslands þar eð, eins og sagði í umsögn Vinnuveitendasambandsins, nú fer fram athugun hjá aðilum vinnumarkaðarins á því, með hvaða hætti launþegar geti haft stjórnunarleg áhrif í fyrirtækjum. Sú athugun hefur ekki enn leitt til neinnar niðurstöðu.

Árið 1973 fluttu því allir þáv. þm. Alþfl. till. til þál. þess efnis, að Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að semja frv. til I. um atvinnulýðræði þar sem launþegum verði tryggð áhrif á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í arði af rekstri þeirra. Þessi þáltill. þm. Alþfl. var samþykkt á Alþingi árið 1973 og 30. ágúst sama ár skipaði þáv. félmrh. nefnd þá sem till. kvað á um. Í nefndinni áttu sæti Hallgrímur Dalberg, formaður, Baldur Óskarsson, Jón Snorri Þorleifsson og Óskar Hallgrímsson, tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Jón H. Bergs og Ólafur Jónsson, tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands, og Skúli Pálmason, tilnefndur af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna.

Hinn 10. des. ári síðar spurðist ég fyrir um það hér á Alþingi, hvað liði störfum þessarar nefndar. Kom þá í ljós að á því eina ári hafði nefndin aðeins haldið tvo bókaða fundi. Í lok ársins 1973 var svo ákveðið að nefndin gerði ótímabundið hlé á störfum sínum svo að aðilar vinnumarkaðarins gætu ræðst nánar við um málið. Enginn árangur varð af þeim viðræðum árið 1975, enginn árangur árið 1976 og enginn árangur á árinu 1977, svo að við það tækifæri flutti ég yfirgripsmikið frv. til l. um atvinnulýðræði, sem gerði ráð fyrir verulegum breytingum á lögum um hlutafélög, lögum um samvinnufélög og lögum um ýmis fyrirtæki, auk sérstakrar lagasetningar um samráðsnefndir aðila vinnumarkaðarins. Það frv. fékk ekki afgreiðslu en var flutt aftur ári síðar og enn aftur nokkru síðar. Ég vil taka það fram að það frv. um ákvörðunarrétt launþega og aukin áhrif launþega í stjórn atvinnufyrirtækja fékk ekki stuðning hér á Alþingi, ekki frá talsmönnum neinna þingflokka annarra en Alþfl.

Nú nýverið var hins vegar gerð á vegum Alþb. samþykkt á sérstakri sveitarstjórnarráðstefnu þess flokks þar sem því var m.a. lýst yfir, að Alþb. væri nú reiðubúið til þess að stuðla að því, að launþegar fengju meðákvörðunarrétt um stjórn atvinnufyrirtækja, en lengi höfðu þeir Alþb.-menn, a.m.k. á síðari árum, verið í nokkrum vafa um hvort sú ákvörðun væri réttlætanleg. M.a. með tilliti og skírskotun til þessarar samþykktar hef ég því leyft mér að spyrja hæstv. félmrh. og formann Alþb., hvort hann hafi gert eitthvað í rn. sínu til þess að tryggja að sú nefnd, sem skipuð var samkv. ályktun Alþingis frá 1973 til að skila þessu verkefni og hefur ekki skilað af sér störfum enn, uppfyllti samþykkt Alþingis þannig að ríkisstj. gæti skilað Alþingi þeim tillögum um þessi mál sem Alþingi samþykkti að fela henni árið 1973. Þessi fsp. til hæstv. félmrh. er á þskj. 452 og hljóðar svo:

„1. Hvað hefur félmrh. gert til þess að reka á eftir störfum nefndar, sem skipuð var 30. ágúst 1973 af þáv. félmrh. til þess að semja frv. til l. um atvinnulýðræði í kjölfar samþykktar Alþingis á till. til þál. þess efnis frá þm. Alþfl.?

2. Hafi nefndin ekki starfað, er félmrh. þá ekki reiðubúinn til þess án frekari tafa að leysa hana formlega frá verkefni sínu, skipa nýja nefnd og sjá um að hún skili því viðfangsefni, sem Alþingi hefur falið ríkisstj. að leysa með samþykkt umræddrar þáltill. frá þm. Alþfl.?“