29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4348 í B-deild Alþingistíðinda. (4071)

240. mál, löggjöf um atvinnulýðræði

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég tók það fram í máli mínu hér áðan, að fyrst hafði atvinnulýðræðismálum verið hreyft hér á Alþingi af hv. þáv. þm. Ragnari Arnalds árið 1965, en sami maður endurflutti tillöguna árið 1968. Allt frá því hafa einu tillöguflytjendurnir um þetta mál á Alþingi verið Alþfl.-menn, þangað til nú fyrir nokkrum dögum að fram kom till. skyld þessu efni flutt af hv. þm. Skúla Alexanderssyni. En það er ekkert meginatriði málsins, heldur það, að það hefur verið nokkur ágreiningur í röðum verkalýðsleiðtoga m.a. um hvort rétt sé að launþegar fái beina aðild að stjórnum atvinnufyrirtækja, eins og frumvörp og þingsályktunartillögur okkar Alþfl.manna hafa gert ráð fyrir. Í þeim umræðum, sem urðu um þessi frv., kom það sjónarmið m.a. frá málflytjendum Alþb., að þeir lýstu andúð sinni á að launþegar fengju meðákvörðunarrétt með þeim hætti að fá fulltrúa í stjórnum atvinnufyrirtækjanna. Miklu frekar ætti að stefna að því, að öll þessi fyrirtæki yrðu almenningseign, rekin af ríki eða sveitarfélögum. Það er því ekki rangt hjá mér, það er hægt að fletta því upp í Alþingistíðindum, að fram að þessu hafa Alþb.-menn, sem um þessi mál hafa talað, verið andvígir tillögum um beina aðild starfsmanna að stjórnum atvinnufyrirtækja. Það er þó ekki kjarni málsins.

Það er heldur ekkert nýtt að þessi mál leysist ekki í samningum aðila vinnumarkaðarins. Það er niðurstaða sem hefur legið fyrir í öllum þeim löndum þar sem atvinnulýðræði hefur verið tekið upp, með hvaða hætti svo sem það hefur verið gert. Það hefur aldrei náðst samkomulag um slíkt í frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins. Þvert á móti hefur ávallt þurft að setja lög til þess að hægt væri að hrinda því í framkvæmd. Ég vil í þessu sambandi benda hæstv. félmrh. á skýrslu svokallaðrar Bullock-nefndar í Bretlandi sem kom út árið 1976, þar sem lýst var fyrirkomulagi atvinnulýðræðis í öllum þeim austan- og vestantjaldslöndum sem hafa tekið upp einhvers konar ákvæði um beina aðild starfsmanna að stjórnum fyrirtækja. Ein af niðurstöðum í skýrslunni var einmitt sú, að þess væri ekki að vænta miðað við reynsluna, að nokkru sinni tækjust frjálsir samningar um þessi atriði milli aðila vinnumarkaðarins. Því varð niðurstaða þessarar nefndar sú gagnvart Bretum, sem gildir jafnt gagnvart okkur Íslendingum miðað við þá reynslu sem við höfum um þessi efni, að til að koma þessum málum fram yrði að setja um það lög á Alþingi, um þetta yrði aldrei samið milli aðila vinnumarkaðarins, einfaldlega vegna þess að vinnuveitendur mundu heimta að fyrir þessi mannréttindi, sem ég vil kalla svo, þau mannréttindi að tillit verði tekið til starfsfólksins ekkert síður en fjármagnsins, yrðu launþegar ella að borga með einhvers konar kauplækkunum. Það er ekki vaninn, a.m.k. í okkar hluta heims, að menn séu látnir borga með þeim hætti fyrir almenn mannréttindi.

Að lokum vil ég aðeins benda hæstv. félmrh. á það, að hann hefur í sínum höndum, m.a. miðað við þessa reynslu, öll ráð til þess að geta látið semja frv. til að leggja fyrir Alþingi um að koma á atvinnulýðræði hér á Íslandi, vegna þess að Alþingi sjálft hefur þegar veitt honum og öðrum, sem með hans starf hafa farið, slíka heimild. Með samþykkt þáltill. á árinu 1973 er nefnilega beiðni til ráðh. um að láta semja frv. af þessu tagi alls ekki af hálfu Alþingis skilyrt því, að í nefndinni skuli sitja fulltrúar tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins. Tillagan, sem samþykkt var sem viljayfirlýsing Alþingis til ríkisstj., hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að semja frv. til l. um atvinnulýðræði þar sem launþegum verði tryggð áhrif á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í arði af rekstri þeirra.“

M.ö.o., herra forseti, er þessi nefndarskipan alls ekki bundin því skilyrði, að aðilar vinnumarkaðarins fáist til þess að tilnefna menn í þessa nefnd, þannig að aðilar vinnumarkaðarins, t.d. samvinnuhreyfingin eða Vinnuveitendasambandið, geti komið í veg fyrir að nefnd af þessu tagi geti skilað af sér eins og það hefur gert hingað til. Hæstv. félmrh. hefur samkv. þessari ályktun Alþingis alla möguleika á því að skipa nefndina þannig að tryggt verði að hún geti skilað af sér. Hann getur að sjálfsögðu fatið nefnd, sem hann e.t.v. mundi skipa samkv. þessari till., í erindisbréfi að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, en nefndarskipunin er alls ekki bundin því skilyrði að það séu fulltrúar þessara aðila sem í nefndinni sitja, þannig að hægt verði til eilífðarnóns að leika þann leik af Vinnuveitendasambandinu og samvinnuhreyfingunni að koma í veg fyrir að nefnd af þessu tagi geti skilað tillögum, vegna þess að það sé ekki í þeirra þágu að launþegar á Íslandi fái þau almennu mannréttindi sem hér er um rætt.