29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4350 í B-deild Alþingistíðinda. (4072)

240. mál, löggjöf um atvinnulýðræði

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það var nokkuð athyglisvert að heyra þá afstöðu sem fram kom hér hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni. Þetta var sá tónn sem hefur að vísu nokkuð lengi heyrst hjá talsmönnum Sjálfstfl. mörgum, en ég hafði leyft mér að gera mér vonir um að rás tímans hefði jafnvel haft áhrif á hugarfar einstakra talsmanna Sjálfstfl. í þessu efni. Þessi afstaða hans sýnir auðvitað mjög vel hvað það hefur verið erfitt og af hverju það hefur verið erfitt að þoka málinu áfram á hv. Alþingi. Þess vegna er það ekkert sjálfgefið, eins og mér virtist hv. þm. Sighvatur Björgvinsson halda, að frv. um þetta efni hljóti að fara í gegnum þingið. Það hefur ekki verið þannig á undanförnum árum að því er varðar skipan þessarar stofnunar. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið af þeim ástæðum sem Björn Jónsson, þáv. félmrh. vinstri stjórnarinnar, tók ákvörðun um að kalla aðila vinnumarkaðarins til, til þess að kanna hvort ekki væri hugsanlegt að fá þá til að standa að því að semja frv. um þessi efni í ákveðinni nefnd á vegum rn. Það kom í ljós að það var ekki hægt, það var ekki áhugi á því hjá þessum fulltrúum vinnumarkaðarins, sérstaklega fulltrúum atvinnurekendasamtakanna, og innan verkalýðssamtakanna hafa líka verið skiptar skoðanir í málinu.

Ég taldi ómaksins vert að kanna viðhorf fulltrúa aðila vinnumarkaðarins núna. Eru þeir enn sömu skoðunar og þeir voru þegar þáv. félmrh. ákvað að leggja nefndina niður 17. ágúst 1978? Svo reyndist vera. Menn eru sömu skoðunar og þá. Atvinnurekendasamtökin eru ekki tilbúin til að halda áfram með málið, og það hlýt ég að harma. En hitt sagði ég og segi enn, að það þýðir ekki að við stöðvumst hér og nú í málinu. Við hljótum að halda áfram að vinna að þessu máli eins og gert hefur verið og reyna að þoka því í áttina. Og auðvitað er ljóst að það er útilokað að ná lendingu í máli af þessum toga öðruvísi en að lögum verði breytt að lokum, t.d. hlutafélagalögum, þannig að í þeim verði gert ráð fyrir að starfsmenn stærri fyrirtækja a.m.k. og miðlungsstórra fyrirtækja geti átt seturétt, tillögurétt og a.m.k. verið áheyrnarfulltrúar og tekið þátt í ákvörðunum þannig í stjórnum hlutafélaganna.

Atvinnurekendasamtökin á Norðurlöndum hafa viðurkennt þetta sjónarmið um margra áratuga skeið, þannig að það er auðvitað kostulegt til þess að hugsa, að á árinu 1982 skuli það gerast að Vinnuveitendasamband Íslands hendi í rauninni þessari hugmynd gersamlega frá sér og segi: Við kærum okkur ekkert um að hafa samráð eða samvinnu við starfsmenn fyrirtækjanna. — Ég hélt satt að segja að þessi Bogesens-hugsunarháttur, sem var hér ríkjandi fyrir áratugum, hálfri öld eða svo, væri á undanhaldi. Í Vinnuveitendasambandi Íslands blómgast þessi hugsunarháttur hinna gömlu Bogesena undir stjórn Þorsteins Pálssonar. Hitt er einnig fróðlegt, að varaformaður Sjálfstfl., ekki aldnari að árum en hann er, skuli ætla sér að feta í fótspor Jóhanns Bogesens og þeirra félaga einnig hér á Alþingi Íslendinga 29. apríl árið 1982. Það er býsna fróðlegt.

Það er að sjálfsögðu rangt að ekki hafi verið aðhafst neitt í þessum málum í félmrn. Í félmrn. hefur verið unnið að setningu og útfærslu löggjafar um áhrif starfsfólks á aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þau lög, sem sett voru hér vorið 1980, skapa möguleika til þess í rauninni í fyrsta sinn að starfsfólk hafi lögvarinn rétt til að hafa áhrif á allt hið nánasta starfsumhverfi sitt. Ég tel að það sé mjög mikill fengur að þessum lögum og að þau skapi möguleika fyrir starfsfólk til að sækja fram til enn þá víðtækari áhrifa á sína vinnustaði.

Ég vil einnig í þessu máli minna á þáltill. hæstv. iðnrh. um mótun iðnaðarstefnu, þar sem gert er ráð fyrir að starfsfólk komi til varðandi framkvæmd þeirrar stefnumótunar svo og í fyrirtækjunum sjálfum. Allt eru þetta skref í rétta átt, og það verður vafalaust reynt að þróa málin í þessa átt áfram hvað sem líður andstöðu Sjálfstfl. og Vinnuveitendasambands Íslands.