29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4351 í B-deild Alþingistíðinda. (4074)

240. mál, löggjöf um atvinnulýðræði

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hv. þm. Friðrik Sophusson brá sér í þann ham sem menn gera stundum þegar mikið liggur við í pólitíkinni, og ég ætla í sjálfu sér ekki að svara mörgu af því sem hann sagði. Hann viðurkennir það í sínum málflutningi, sem er aðalatriðið, en ber auðvitað að harma, að það frelsi, sem Sjálfstfl. biður um, og það lýðræði, sem Sjálfstfl. biður um, er lýðræði fjármagnsins. Það er sú tegund af lýðræði sem þeir kæra sig um. Aðrar tegundir af lýðræði eru þar ekki á blaði. Félagsleg réttindi eru þar einskis metin.

Mér finnst í raun og veru ekki ástæða til að halda neitt sérstakt þakkarávarp út af því, þó að Sjálfstfl. hafi staðið hér vorið 1980 að frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en hv. þm. telur það atveg sérstakt þakkarefni að svo skuli hafa verið gert. Ég tel það í rauninni ekki. Ég tel að hér hafi verið um sjálfsagt mannréttindamál að ræða, sem hafi verið nauðsynlegt að koma fram, og eðlilegt sé að allir þm. hafi stutt það á sínum tíma eins og það var lagt fram. Hins vegar voru áherslur þm. varðandi afgreiðslu þessa máls á sínum tíma auðvitað býsna mismunandi eins og gengur.

En ég kom hér aðallega upp til að svara því, að með ummælum mínum um hlutafélagalögin hefði ég í rauninni verið að taka undir með hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, sem nú situr á Hafréttarráðstefnunni og er illa fjarri. Ég vil að það sé alveg á hreinu í þessum hóp og á hv. Alþingi, að ég var ekki að taka undir með Eyjólfi Konráð Jónssyni. Ég vil ekki sitja undir því mjög lengi og notaði þess vegna rétt minn til að taka til máls um þau efni. Ég var að tala um að starfsfólk fyrirtækja, jafnvel hlutafélaga, gæti átt rétt á að hafa áhrif á stjórn þessara félaga þó að viðkomandi einstaklingar ættu ekki fjármagn eða hlut í viðkomandi fyrirtæki. Það var þetta sem ég átti við, og þess vegna er auðvitað grundvallarmunur á mínum skilningi á þessum efnum og á skilningi hv. þm. Friðriks Sophussonar. Hann á erfitt með að skilja að nokkur maður eigi nokkurn rétt nema hann kaupi sér hann fyrir peninga. Þar skilur á milli okkar í pólitískum meginviðhorfum.