09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Þetta frv. er gamalkunnugt hér á Alþingi. Þessi skattur hefur verið lagður á undanfarin ár, í fyrsta sinn á árinu 1979. Skatturinn hefur ávallt verið lagður á samkv. sérstökum lögum sem gilt hafa fyrir eitt ár í senn. Í ár, árið 1981, er skatturinn lagður á samkv. lögum nr. 17/1981. Tekjur af skattinum eru áætlaðar 22 millj. kr.

Í fjárlögum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að áframhald verði á þessari skattlagningu og af þeim sökum er frv. flutt, en það er efnislega samhljóða gildandi lögum. Í tekjuáætlun fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að álagning skattsins nemi um 35.5 millj. kr., en innheimta muni skila 32.1 millj. kr., að meðtalinni innheimtu af eftirstöðvum fyrri ára.

Herra forseti. Ég sé ekki neina ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., sem er efnislega samhljóða lögum sem hafa verið í gildi undanfarin ár, en legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. fjh.- og viðskn.