29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4357 í B-deild Alþingistíðinda. (4080)

293. mál, vatnaflutningar af vatnasvæði Skjálfandafljóts

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans við þessum fsp. mínum varðandi vatnasvæði Skjálfandafljóts.

Eins og fram kom í svari hans er talið að vatnaskil séu þarna óglögg. Ég hef heyrt það líka. Mér hefur verið sagt að sumar þessar kvíslar hafi e.t.v. runnið ýmist til suðurs eða norðurs. En það, sem fyrir mér vakti með þessum fsp., var að fá fram hvort fyrirhugaðar væru einhverjar frekari aðgerðir sem meira munaði um. Ég legg á það áherslu, að ef til slíks yrði gripið yrði það gert í fullu samráði við heimaaðila, og ég fagna því viðhorfi hjá hæstv. ráðh., að hann telur að það eigi og þurfi að vera svo, sem er auðvitað sjálfsagt mál. Jafnframt tel ég að það ætti að vera tryggilega frá því gengið, að ef síðan kæmi til að virkja Skjálfandafljót, sem ekki er ólíklegt, þá sé reiknað með því vatni við hagkvæmniútreikninga, sem hugsanlega yrði flutt til, ef frekari aðgerðir yrðu gerðar á þessu svæði í Vonarskarði.

Ég tel reyndar varhugavert að ekkert hafi verið rætt um þetta við heimamenn, þó að lítið hafi verið gert. Ég tel að það hefði átt að gera það þó kannske megi segja sem svo, að þarna hafi verið um hálfgerðar tilraunaframkvæmdir að ræða. En hvað um það. Ef það er tryggt að það verði gert við hugsanlegar frekari framkvæmdir verður sjálfsagt að telja það fullnægjandi.

Varðandi ábyrgð, ef tjón yrði af slíkum flutningum, er gott að hafa hér þau svör, sem Landsvirkjun hefur gefið við því, og þeirra álit liggi fyrir. Ég tel að það verði að huga vel að því líka og reyna að gera sér grein fyrir hvað þarna gæti gerst ef flutningar á vatni valda skemmdum eða tjóni á landi eða mannvirkjum.

Ég hef í sjálfu sér ekki meira um þetta að segja. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram. Ég er ekki með þessu að leggja neinn stein í götu þess, að þarna þurfi og þarna megi gera einhverjar aðgerðir, heldur fyrst og fremst að benda á að sé það gert sé gætt að öllum hliðarverkunum, sem það getur haft, og leitað sé eftir því, að það sé í fullu samkomulagi við alla hagsmunaaðila þannig að ekki komi síðar til einhverra vandamála, sem gætu þá haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, bæði deilur heima í héraði og hugsanlega áhrif á möguleika til virkjunar fljótsins. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar og væri mjög til tjóns ef á einhvern hátt slíkan væri skemmt fyrir málum fyrir fram.

Ég þakka hæstv. iðnrh.