29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4359 í B-deild Alþingistíðinda. (4086)

185. mál, íslenskt efni á myndsnældum

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar þáltill. um íslenskt efni á myndsnældum, 185. mál þessa þings. Hefur nefndin fengið umsögn frá Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar um tillöguna. Meginefni till. er að fela menntmrh. að beita sér fyrir því, að upp verði teknar viðræður við eigendur höfundarréttar íslensks efnis, sem flutt hefur verið í Ríkisútvarpi — sjónvarpi, er hafi það markmið að setja reglur er gefi almenningi kost á að fá íslenskt sjónvarpsefni til láns eða kaups á myndsnældum. — Mælir nefndin með að till. verði samþykkt óbreytt.

Ég vil geta þess að hv. þm. Guðrún Helgadóttir var fjarstödd afgreiðslu málsins, en láðst hefur að geta þess í nál.