29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4360 í B-deild Alþingistíðinda. (4090)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Frsm. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og glögglega kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns varð allshn. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Við, sem skipum minni hl. n., leggjum fram sérstakt nál. svohljóðandi:

„Nefndin athugaði tillöguna á fundum sínum. Þar sem stjórnskipuð nefnd, sem hefur það hlutverk að endurskoða núgildandi sveitarstjórnarlög og sameiningu sveitarfélaga og lög um sveitarstjórnarkosningar, er nýtekin til starfa og enn fremur þar sem nefnd, sem hefur unnið að endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þar með töldum tekjustofnum sveitarfélaga, hefur skilað ítarlegu áliti til ríkisstj. nýlega, þá leggur minni hl. allshn. til að þáltill. verði vísað til ríkisstj.

Við teljum sem sagt að það sé verið að vinna að þessu máli skipulega og sé eðlilegt að ríkisstj. hafi forustu um málið.

Undir þetta rita ásamt mér Haraldur Ólafsson og Skúli Alexandersson, sem kom að umfjöllun málsins í minni hlutanum í forföllum hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur.