29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4360 í B-deild Alþingistíðinda. (4091)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Örfá orð. Forsendur frávísunartillögu hv. minni hl. allshn. á þskj. 724 eru algerlega út í hött. Það er að vísu rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að starfandi er nefnd að endurskoðun sveitarstjórnarlaga, laga um sameiningu sveitarfélaga og sveitarstjórnarkosningar, en ekkert af þessum lögum snertir efni sjálfrar þáltill. Þó að komið sé inn á þessi efni í grg. till. er svo alls ekki í þáltill. sjálfri. Ekkert af þessum lögum, sem hér hafa verið talin upp, snertir efni þáltill.

Nefndin, sem vann að endurskoðun verkefnaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga og talað er um í nál. minni hl., kom ekkert inn á þessi mál heldur. Nefndin segir sjálf um þetta atriði í lokaskýrslu sinni, með leyfi forseta:

„Eins og fram hefur komið er það ekki hlutverk nefndarinnar að gera tillögur um almennar breytingar á tekjukerfi sveitarfélaganna.“

Nefndin tók sem sagt ekki afstöðu til laga um tekjustofna sveitarfélaga og þaðan af síður um tekju- og eignarskatt til ríkisins eða aðra skattlagningu til ríkissjóðs eða nokkurra þeirra atriða annarra sem þáltill. tekur til. Forsendur þær, sem hv. minni hl. allshn. gefur sér, eru sem sagt algerlega út í hött.

Herra forseti. Ég þakka meiri hl. hv. allshn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Brtt. meiri hl. tel ég ekki allar til bóta, en margar þeirra því. Ég get mjög vel sætt mig við þær, enda eru meginsjónarmið þáltill. óbreytt.