29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4361 í B-deild Alþingistíðinda. (4092)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við þetta mál að gefnu tilefni.

Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því til að fyrirbyggja misskilning út af ræðu hv. 5. þm. Suðurl., að verið hefur starfandi nefnd í þessum málum um nokkurt árabil sem skipuð hefur verið af tveimur ríkisstjórnum, með helmingsþátttöku fulltrúa sveitarfélaga í landinu, til að endurskoða og til að draga í fyrsta lagi niðurstöður af þeirri reynslu sem liggur fyrir af sveitarstjórnarmálum í landinu og einnig að setja upp þá valkosti sem menn gætu komið sér saman um að horfi til bóta um sjálfsforræði sveitarfélaga og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta starf tók nokkuð langan tíma, en skilað var ítarlegum tillögum til ríkisstj. — ekki ákveðnum tillögum heldur valkostum, þannig að þar er bent á þær leiðir sem menn, sem hafa starfað að þessum málum og flestir hafa allmikla reynslu í sveitarstjórnarmálum og samskiptamálum ríkis og sveitarfélag, höfðu komið sér saman um. Eins og margir sjálfsagt vita varð niðurstaðan sú, að þessar hugmyndir voru settar fram í ákveðnu formi í þessari verkaskiptaskýrslu og voru gefnar um það yfirlýsingar frá hendi núv. ríkisstj. að áfram yrði unnið að því að móta lög eða lagafrumvörp sem snertu beint þessi atriði.

Í beinu framhaldi af því var síðan skipuð ný nefnd til að endurskoða lög um sveitarfélög, sameiningu sveitarfélaga og lög um sveitarstjórnarkosningar. Þessi nefnd er nú í fullu starfi og hefur tekið að nokkru leyti þátt í þeim lagabreytingum sem ræddar voru nýverið hér á hv. Alþingi í sambandi við sveitarstjórnarkosningar. Þær hafa nú verið samþykktar. Þessi nefnd gerir ráð fyrir að skila áður en langt um líður — e.t.v. um næstu áramót — tillögum sínum um þetta verkefni. Þar af leiðandi er hægt að fullyrða að öll þessi mál hafa verið tekin mjög föstum tökum og fulltrúar sveitarfélaga í landinu eiga þarna beina aðild að og taka virkan þátt í þessu starfi.

Ég geri ráð fyrir að það verði að álykta að þessum málum sé vel borgið, að þeir menn, sem fyrst og fremst hafa þekkingu á þessu sviði og hafa starfað í þessum málum, leggja fram starfskrafta sína til að móta heilsteypta löggjöf í sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og sjálfsforræði sveitarfélaga. Þess vegna tel ég að frávísunartillagan, sem hér hefur verið skýrt frá, eigi fyllilega rétt á sér. Hún er í fullu samræmi við það sem liggur fyrir í þessum málum.