29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4362 í B-deild Alþingistíðinda. (4094)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að standa í deilum við hv. þm. í sambandi við þetta mál. Ég vildi aðeins koma þeim skýringum að sem ég gaf áðan. Hv. 6. þm. Norðurl. e. má hafa sína skoðun á þessu máli fyrir mér. — En ég ætla að leiðrétta það, að ég var ekki að vefengja neitt þátt hv. 5. þm. Suðurl. í þessum málum. Ég virði hann að öllu leyti. Hann hefur átt sæti í flestum nefndunum um þessi mál, sem ég gat um, og hefur unnið þar gott verk. Það er mér vel kunnugt um.

Mér þykir furðulegt að hlusta á menn tala eins og hv. síðasti ræðumaður gerði um þessi málefni, þar sem hann segir að það hafi verið unnið að þessum málum í mörg ár en lítið áunnist. Hver er árangurinn? Nákvæmlega enginn, segir svo hv. þm. Hefur hann ekki fylgst með þróun sveitarstjórnarmála á Íslandi á undanförnum árum? Hefur hann ekki áttað sig á því, hvað hefur verið að gerast í landinu í þeim málum? Hefur hann ekki orðið var við það í sínu kjördæmi, hvað sveitarfélögin láta mikið til sín taka í uppbyggingu landshlutanna? Hefur hann ekki orðið var við hvað sveitarstjórnarmenn hafa náð miklum árangri með tilliti til þess, hvað frjáls samtök sveitarfélaga hafa þróast ört í þessum efnum? (Gripið fram í.) Ég ætla að láta hann einnig vita það, að ef hann les skýrslu verkaskiptanefndar, sem við hv. 5. þm. Suðurl. höfum átt sæti í og starfað í í mörg ár, mun hann komast að raun um að hún er árangur af starfi manna sem hafa þekkingu á þessum málum. Það er skýrsla sem hægt er að byggja á lagasetningu um sveitarstjórnarmál, vegna þess að þar er dregin fram sú reynsla, sem þegar hefur fengist á þeim málum hér á landi, og þar eru dregnir fram þeir valkostir, sem helst eru vænlegir til að auka sjálfsforræði sveitarfélaga og koma hreinum verkaskiptum á milli ríkis og sveitarfélaga.

Mér finnst furðulegt að hlusta á það sagt hér á hv. Alþingi, að það hafi nákvæmlega ekkert verið gert í þessum málum. Mér finnst það vera furðulegt vantraust á forustu sveitarfélaga í landinu á undanförnum árum. Þar hefur verið unnið gott verk. Um það fjalla allar samþykktir landsfunda sveitarfélaga, allar samþykktir fulltrúaráðsfundar sveitarfélaga og margar fleiri raðstefnur sem um þessi mál hafa verið haldnar. Ég tel að málefni sveitarfélaga hafi stefnt í rétta átt. Ég vil benda á það í leiðinni, að hv. þm. geta fullvissað sig um hvernig unnið hefur verið að þessum málum t.d. í nágrenni við okkur, á Norðurlöndunum. Hvað halda þm. að menn á Norðurlöndum hafi verið mörg ár að koma á þeirri skipan sveitarstjórnarmála sem hefur nýlega verið tekin í lög bæði í Noregi og Danmörku? Halda menn að það hafi gerst á einum vetri? Það hefur tekið áratugi að koma þessari löggjöf á og hún hefur verið að þróast. Hún er að þróast meira að segja þannig í Noregi, að því, sem Norðmenn ákváðu fyrir nokkrum árum og lögfestu í gegnum Stórþingið eftir margra ára starf, er núna verið að breyta aftur að fenginni reynslu vegna þess að skrefið var stigið of stórt. Ég hef þá skoðun, að hér á landi eigi þessi mál að þróast í frjálsum samtökum sveitarfélaga og þannig eigi að byggja þessi mál upp og haga lagasetningu samkv. bestu reynslu sem þannig fæst. Þannig vona ég að verði unnið að þessum málum.