29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4363 í B-deild Alþingistíðinda. (4095)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það skulu aðeins vera nokkur orð.

Eins og aðrir jafnaðarmenn, sem hér hafa talað, harma ég þá niðurstöðu sem minni hl. n. hefur komist að um að vísa þessari till. til ríkisstj. Það er auðvitað alveg rétt og auðvitað kjarni málsins einnig, sem fram kemur hjá hv. 1, þm. Vesturl., að það hafi verið starfandi nefndir um þessi efni árum saman, en stefnumörkun hefur ekki átt sér stað. Það ætti að undirstrika mikilvægi þess að aðhafast eitthvað. Eins og oft er um valddreifingarmarkmið, eins og þau sem hér er gert ráð fyrir og flestir víst í orði kveðnu kveða sig vera sammála, getur engu að síður verið nauðsynlegt að sú valddreifing komi frá miðjunni, það sé beitt valdi frá miðjunni til þess að hún geti átt sér stað.

En það, sem mig langar til að vekja kirfilega athygli á hér í sambandi við þessa till., er hversu miklu það varðar okkur í Reykjavík að valddreifing komist á hið fyrsta og vald sveitarfélaga fari vaxandi. Eitt af því, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill., er, eins og segir í e-lið hennar, að sveitarfélögin fái óskorað vald til að ákveða verð fyrir veitta þjónustu án afskipta ríkisvaldsins. Þetta er auðvitað liður í allri þeirri hugmyndafræði að þessi valddreifing eigi sér stað, að hinar litlu einingar í þjóðfélaginu, sveitarfélögin, fái sjálf að ákveða þetta. Nú þekkja það allir, að vegna þess, hvernig vísitölureikningar eiga sér stað, og vegna þess, hvernig miðað hefur verið við verð á þjónustu sem veitt er hér á Reykjavíkursvæðinu, hefur verði á margháttaðri þjónustu á vegum sveitarfélagsins hér og á vegum sveitarfélaganna í nágrannabyggðunum verið haldið niðri. Þetta hefur orsakað það, að fyrirtæki á vegum sveitarfélaganna hér um slóðir hafa ekki getað endurnýjað vélakost og tækjakost, þau hafa drabbast niður í bókstaflegum skilningi orðsins. Þó ekki væri nema af þessari einu ástæðu er það feikilega brýnt hagsmunamál Reykjavíkur, að Alþingi marki stefnu að því er þennan þátt þessarar till. varðar. Það er augljóst að eins og minni hl. gerir ráð fyrir, sem maður reiknar með að meirihlutaflokkarnir hér á Alþingi muni styðja ef ekki gerist eitthvað óvænt, þá verði þessari till. vísað til ríkisstj. Þar með er þróun þessara mála stöðvuð enn um sinn. Það ber að harma, þó ekki væri nema vegna þess að þessi eini þáttur, sem ég hef nefnt hér, er stórkostlegt hagsmunamál í Reykjavík. Menn þekkja þróun þessa á undanförnum árum. Þetta er farið að skaða fyrirtæki og hagsmuni og afkomu fólks á þessu svæði. Af þessum ástæðum einnig harma ég að minni hl. skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu sem raun ber vitni og vona satt að segja að einhverjir verði til þess að gerast liðhlaupar í þessu máli.