29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4364 í B-deild Alþingistíðinda. (4096)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Vesturl.

Hann sagði að það væri að vænta tillögugerðar frá þessari margumtöluðu nefnd, sem ég á sæti í ásamt honum, um áramótin næstu. Ég man ekki betur en hún hafi reiknað sér 2–3 ár þegar hún tók til starfa um mitt s.l. ár. Það eru því allt að tvö ár í niðurstöður. Það skiptir kannske ekki öllu máli.

Það er auðvitað rétt hjá honum, að ýmsar nefndir hafa starfað í mörg ár, a.m.k. tvo áratugi. Það hefur komið fram mikið af góðum tillögum, en engin þeirra hefur náð fram að ganga. Það hefur engin verið samþykkt. Sveitarfélögin hafa unnið saman og út af fyrir sig er ekkert nema gott um það að segja. En það vantar algerlega stefnumótun stjórnmálaflokkanna, það vantar allar ákvarðanir. Það er ekki nóg að það séu góðir menn að leggja fram góðar tillögur ef enginn tekur við þeim, ef löggjafinn lítur ekki á þær.

Þáltill. átti í fyrsta lagi að marka stefnu Alþfl. þannig að hún væri lýðum ljós. Í öðru lagi var hún tilraun til að höggva á alla þessa hnúta, skoða allar þessar góðu tillögur og höggva á hnúta. Frávísunartillaga minni hl. kemur í veg fyrir það. Það virðist vera að minni hl. vilji halda áfram næstu áratugina í viðbót að láta sveitarfélögin gera góðar till., en líta ekki á þær, afgreiða ekkert. En það er einmitt það sem við viljum. Við viljum skoða allar góðar tillögur og höggva á þá hnúta sem þarf að höggva á.