29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4369 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á síðustu tveim árum hafa flest ríki heims átt við mikinn vanda að stríða. Hagvöxtur hefur nær stöðvast og atvinnuleysi vaxið ört. Þráfaldlega var afturbata spáð, en vonir jafnharðan brugðist. Nú virðast flest teikn benda í þá átt, að árið 1982 verði þriðja árið í röð sem einkennist af efnahagsþrengingum á flestum sviðum. Ef ekki verða óvænt umskipti til bóta á næstu mánuðum eru líkur á að á engu þriggja ára tímabili eftir heimsstyrjöldina seinni hafi þjóðarframleiðsla iðnríkjanna vaxið hægar en nú.

Árið 1979 voru um 17 millj. manna atvinnulausar í þeim vestrænu löndum sem eru í OECD-samtökunum. Í fyrra var þessi tala komin upp í 25 millj. manna. Enn eykst atvinnuleysi í þessum löndum og hefur aldrei verið meira síðan í heimskreppunni fyrir hálfri öld. Samfara þessum þrengingum hefur ríkt óvenjumikil óvissa í efnahagsmálum þjóðanna. Gengi helstu gjaldmiðla hefur sveiflast meira en áður hefur þekkst, vextir hafa verið óvenjuháir og skrykkjóttur gangur þeirra.

Þessi óheillavænlega þróun í heimsbúskapnum varðar íslenskan þjóðarbúskap með margháttuðu móti. Það hefur dregið stórum úr eftirspurn eftir áli og kísiljárni og verð á þessum vörum lækkaði á árinu 1981 um sem næst 18% í dollurum talið. Aukin samkeppni og erfiðleikar gera vart við sig á mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Þessi þróun ásamt hækkun á olíuvörum árin 1979 og 1980 hefur rýrt viðskiptakjör íslenska þjóðarbúsins um 11% frá 1978, þ.e. kaupmáttur útflutningsafurða þjóðarbúsins hefur minnkað um 11% vegna þess að innflutningsvörur hafa hækkað meira í verði en útflutningur. Þótt spáð sé óbreyttum viðskiptakjörum milli áranna 1981 og 1982 eru blikur á lofti og getur brugðið til beggja vona. Í því sambandi má nefna að óvissa ríkir um skreiðarmarkaðinn í Nígeríu.

Horfur í ár eru því ekki bjartar. Samkv. nýjustu spá Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að þjóðarframleiðsla dragist saman um 1% á þessu ári og þjóðartekjur um það sama. Ef verð á áli og kísiljárni væri nú svipað og á árinu 1980 og loðnuveiðar hefðu getað orðið með svipuðum hætti og s.l. ár hefðu þjóðartekjur okkar líklega vaxið í ár um 1/2% í stað 1% samdráttar sem nú er búist við.

Nær allur vöxtur þjóðarframleiðslu Íslendinga á síðustu þremur árum hefur farið til þess að mæta versnandi viðskiptakjörum og hafa því þjóðartekjur á mann nánast staðið í stað frá árinu 1978. Þetta sníður okkur þröngan stakk um neyslu og fjárfestingu. Með aðhaldsaðgerðum hafa stjórnvöld reynt að draga úr þenslunni. Fjárfesting á þessu ári verður minni að tiltölu miðað við þjóðarframleiðslu en flest undanfarin ár. Þó hefur þess verið gætt að draga ekki svo úr fjárfestingu að niður komi á vexti atvinnulífs í framtíðinni. Þegar að þrengir verður að huga að því enn betur en áður að fjárfesta þar sem arðs er helst von.

Uppbygging atvinnulífs landsmanna er undir því komin öðru fremur að orkulindir landsins verði nýttar. Ríkisstj. hefur undirbúið stærsta átak í orkumálum frá upphafi vega. Undirbúnar hafa verið og ákveðnar þrjár nýjar stórvirkjanir til viðbótar þeim sem fyrir eru. Ríkisstj. hefur staðfest samninga um virkjun Blöndu og verða hafnar framkvæmdir þar á þessu ári að áskildu samþykki Alþingis sem verður veitt á næstu dögum. Í sumar verða einnig framkvæmdir við Þjórsá og verður orkuvinnsla þeirra virkjana, sem þar eru, aukin stórlega með nýjum veitum og stíflum. Á næstu árum verður ráðist í virkjun í Fljótsdal og í Þjórsá.

Auk virkjunar fallvatna má ekki gleyma annarri orkulind Íslendinga, jarðvarmanum. Á síðari árum hefur verið gert gífurlegt átak til þess að virkja jarðvarmann til húshitunar. Þetta hefur sparað þjóðinni háar fjárhæðir í olíukaupum frá útlöndum. Nú er svo komið, að meiri hluti allrar orku, sem notuð er hérlendis, kemur úr innlendum orkulindum.

Samhliða þessu hefur farið fram undirbúningur undir orkufrekan iðnað. Fyrir Alþingi liggur stjfrv. um kísilmálmverksmiðju. Unnið er að athugun á byggingu nýs álvers og mörgum öðrum iðnaðarfyrirtækjum, trjákvoðuverksmiðju, sjóefnaiðnaði, svo sem natríumklórvinnslu og magnesíum-framleiðslu o.fl.

Aukið fjármagn hefur verið veitt til íbúðarhúsabygginga í gegnum hið opinbera íbúðalánakerfi. Útlán Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna jukust um 13% að raungildi á síðasta ári. Engu að síður hefur fjárfesting landsmanna í íbúðarhúsnæði dregist nokkuð saman. Ýmsar ástæður kunna að liggja þar að baki. Ein er talin sú, að verðtrygging sparifjár hefur ýtt undir peningalegan sparnað og þess vegna hafa sumir frestað fjárfestingu í húsnæði.

Önnur er sú fjárfesting sem ríkisstj. hefur lagt mun meiri áherslu á en áður hefur verið gert. Það er varanlegt slitlag í vegakerfi landsmanna. Á síðasta áratug var lengst af aðeins lagt bundið slitlag á 10–20 km á ári hverju, — síðustu árin nokkru meira, — en á árinu 1980 voru lagðir rúmlega 90 km, í fyrra nær 150 og í ár er fyrirhugað að leggja 150 km af bundnu slitlagi á vegi landsins. Þannig hafa verið og verða lagðir 380–390 km af bundnu slitlagi á þjóðvegi landsins á þessum þrem árum. Altan áratuginn á undan var slittag lagt á minna en helming þess sem nú hefur verið lagt eða verður lagt á þrem árum.

Ég mun nú víkja að ríkisfjármálum og verðlagsmálum. Á árunum 1980–1981 var hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu milli 28 og 29%. Þetta hlutfall, sem gefur einna gleggsta mynd af ríkisumsvifum og heildarskattlagningu, er svipað og það var að meðaltali næstu sex árin á undan, en hæst komst hlutfallið í rúm 30.4 % árið 1975. Fjármál ríkissjóðs hafa s.l. tvö ár verið í betra jafnvægi en um langt árabil. Þannig batnaði staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum um 118 millj. kr. í fyrra og hafa skuldir ríkissjóðs við laun ekki verið lægri í hlutfalli við þjóðarframleiðslu síðan 1973.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Eru þá oftast nefnd erlend langtímalán sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Þetta er hins vegar ekki einhlítur mælikvarði á skuldastöðu þjóðarbúsins gagnvart öðrum löndum þar sem eingöngu er tekið tillit til lána til lengri tíma en eins árs. Öllu réttara er að líta á nettóskuldir þjóðarbúsins, en þá er átt við bæði langtíma- og skammtímaskuldir að frádregnum birgðum eða ógreiddum útflutningi og gjaldeyrisforða bankakerfisins. Þá kemur annað í ljós. Nettóskuldir gagnvart útlöndum hafa nánast staðið í stað s.l. fimm ár, 1977–1981. Meginskýringin á þessum mismun er sú, að á móti aukningu erlendra lána hefur gjaldeyrisforði landsmanna aukist. Þetta atriði verður vitaskuld að hafa í huga þegar erlendar skuldir þjóðarbúsins eru metnar.

Í verðlagsmálum hefur verið mörkuð sú stefna að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun og auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu. í samræmi við þessa stefnu voru í gær afgreidd frá Alþingi lög um verðlag og samkeppnishömlur. Þetta er veigamikil stefnubreyting, en verðstöðvun hefur verið í gildi í meira og minna mæli á annan áratug með ærið misjöfnum árangri.

Í skýrslu ríkisstj. frá í janúar 1982 um aðgerðir í efnahagsmálum var greint frá því, að stofnað yrði til viðræðna við hagsmunaaðila atvinnulífsins um viðmiðunarkerfi sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis og dregið úr víxlhækkunum þess. Ríkisstj. skipaði þriggja manna nefnd til að annast þessar viðræður. Í nefndinni eru Þórður Friðjónsson, sem er formaður hennar, Halldór Ásgrímsson og Þröstur ólafsson, en Bolli Bollason ritari nefndarinnar. Viðræðunefndin hefur haldið á þriðja tug funda og hafa fjölmörg mál varðandi vísitölukerfið verið rædd, þ. á m. nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun sem auk breytinga á framfærsluvísitölu samkv. nýjum vísitölugrunni taki jafnframt tillit til breytinga á félagslegri þjónustu sem hið opinbera veitir. Á þann hátt yrði tekið tillit til lífskjara á víðara grunni en áður hefur þekkst. Einnig hefur verið fjallað um meðferð orkuverðs við verðbótaútreikning, verðbótatíðni, þ.e. lengd verðbótatímabils, auk annarra atriða. Þessari vinnu verður haldið áfram og eru vonir bundnar við að hún skili árangri á næstu vikum.

Í stjórnarsáttmála var því heitið, að ríkisstj. beitti sér fyrir samningum við Norðmenn til þess að tryggja fiskveiði- og hafsbotnsréttindi Íslendinga á Jan Mayen- svæðinu og vernd fiskstofna. Þetta hefur verið tryggt með samningum.

Stefna ríkisstj. í efnahagsmálum hefur mótast af þeim skorðum sem efnahagsástandið í heiminum hefur sett, en höfuðmarkmið hennar hafa verið þrjú: 1. Að koma í veg fyrir að hér verði atvinnuleysi, eins og gerst hefur í öltum nálægum löndum. 2. Að draga úr þeirri hættu að aðsteðjandi áföll bitni á kaupmætti almennings. 3. Að þoka verðbólgunni niður án þess að það verði á kostnað hinna markmiðanna tveggja. Þetta tókst á síðasta ári. Á Íslandi einu landa hefur ekki komið til atvinnuleysis. Kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings er talinn hafa aukist um 3% milli áranna 1980 og 1981. Verðbólgan lækkaði á síðasta ári úr 60 í 40% og það án þess að til kæmu fórnir í kaupmætti eða atvinnu. Í ár verður áfram unnið með þessi þrjú höfuðmarkmið að leiðarljósi. En því er ekki að leyna, að um stund er á brattann að sækja. Það er ekki að búast við jafnstórum áfanga í hjöðnun verðbólgu og á síðasta ári. Ríkisstj. er ekki tilbúin að fórna atvinnuöryggi eða kaupmætti tekna almennings til skjótteknari árangurs á því sviði.

Þrátt fyrir margháttaða erfiðleika, sem við er að glíma, gengur gersamlega úr hófi sú bölsýni og barlómur sem dynur í eyrum manna sýknt og heilagt frá þrýstihópum og grátkórum, að ógleymdri hinni ógiftusamlegu stjórnarandstöðu. Ókunnugt fólk hlýtur að halda, þegar það heyrir þessi ósköp, að íslenska þjóðin hafi lagst banaleguna. Í augum erlendra manna, sem berjast við böl atvinnuleysis, hljóta þessir kveinstafir í landi með næga atvinnu að þykja firn mikil, að ekki sé talað um þá sem stundum geta varla þverfótað fyrir Íslendingum á sólarströndum.

Eitt árið hefur hin heillum horfna stjórnarandstaða það sem aðaluppistöðu í áróðri sínum að geigvænlegt atvinnuleysi sé komið á Íslandi eða yfirvofandi. Þegar þetta reyndist tálvon var gripið til þess, að landflótti væri slíkur frá Íslandi að annar eins hefði ekki orðið á þessari öld. Staðreyndir eru þessar: Á árinu 1980 fluttust 540 manns af landi brott umfram aðflutta. Sambærileg tala fyrir árin 1976 og 1977 var yfir 1000 manns hvort árið. Brottflutningur fólks á árinu 1980 var því með minnsta móti miðað við árin á undan, en í fyrra snerist þessi þróun alveg við. Þá fluttust til landsins rúmlega 200 manns umfram brottflutta. Hefur slíkt einungis gerst tvisvar áður á síðustu 20 árum, árin 1966 og 1972.

Í stað þeirrar bölsýni, sem oft er yfirþyrmandi í umr. um efnahagsmál, vill ríkisstj. leggja enn aukna áherslu á framtíðaruppbyggingu atvinnulífs landsmanna með stórauknum framkvæmdum í orkumálum og iðnvæðingu um leið og mætt er með djörfung og manndómi þeim örðugleikum sem við augum blasa og okkur ber að sigrast á.