29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4377 í B-deild Alþingistíðinda. (4105)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Gott kvöld, góðir hlustendur. Hlustendur hafa nú um hríð fengið að heyra sýnishorn af hinum óvandaða og ómerkilega loddaramálflutningi stjórnarandstöðunnar sem tíðkaður hefur verið hér í sölum Alþingis í vetur. Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir lýsti því yfir, að tómir byggingarsjóðirnir blöstu við fólki. Staðreyndirnar eru þær, að útlánafé byggingarsjóðanna beggja er nú meira en það hefur nokkru sinni áður verið. Staðreyndin segir að átak í félagslegum íbúðabyggingum hefur aldrei verið eins og á þessu og s.l. ári. Staðreyndirnar segja að engum manni hefur verið neitað um þjónustu úr Byggingarsjóði ríkisins.

Sýnishorn af málflutningi stjórnarandstöðunnar var þó enn þá gleggra í máli hv. þm. Halldórs Blöndals áðan, sem vildi kenna núv. hæstv. ríkisstj. um markaðsvandamálin í Nígeríu. Þetta sýnishorn kann að orka á hlustendur eins og hrópleg lítilsvirðing á Alþingi Íslendinga. Því miður er þessi yfirlýsing ekkert einsdæmi. Við höfum þurft að hlýða á annað eins aftur og aftur hér í sölum Alþingis í vetur.

Senn líður að lokum þriðja þings núv. ríkisstj. Síðari hluti kjörtímabilsins er hafinn. Ríkisstj. þessi hefur verið vinsæl og landsmenn hafa ekki viljað að stjórnarandstaðan tæki hér við. Samstarf hefur verið gott í ríkisstj., að undanteknum málaflokki Ólafs Jóhannessonar sem hefur lagt sig fram um að finna ágreiningsmál sem oft hafa orðið til erfiðleika í stjórnarsamstarfinu. En ríkisstj. hefur búið við óvenjuerfið ytri skilyrði. Hagvöxtur hefur verið óverulegur allt frá því að hún tók við. Stöðnunin á rætur að rekja til alþjóðlegrar kreppu og til fyrri ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. Það tekur að sjálfsögðu þó nokkurn tíma að yfirvinna fyrirhyggjuleysi í atvinnumálum og þjóðarframleiðslu. En á þeim tíma, sem núv. ríkisstj. hefur starfað, hefur verið lagður grundvöllur að alhliða sókn í iðnaðar- og orkumálum. Á yfirstandandi þingi hafa verið afgreidd mörg mál sem miklu skipta fyrir næstu ár og áratugi, og nú á síðustu þingdögunum er tekist á um með hvaða hætti þingið afgreiðir tillögur ríkisstj. um virkjunarmál, auk þess sem fyrir liggur frv. til l. um fyrsta íslenska stóriðjuverið, þ.e. kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði.

Auk þeirra mála, sent hér hafa verið á dagskrá í vetur, hefur ríkisstj. að sjálfsögðu undanfarna mánuði undirbúið mörg önnur mál sem verða lögð fyrir þing í haust. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna frv. til l. um umhverfismál sem gerir ráð fyrir að stjórn umhverfismála í landinu verði tekin nýjum tökum og traustari en nú er um að ræða. Í sambandi við umhverfismálin vil ég geta þess, að nú er heilbrmrn. í óða önn að undirbúa stofnun Hollustuverndar ríkisins sem tekur til starfa frá og með 1. júní n.k., en Hollustuverndin mun hafa eftirlit með mengunarmálum á grundvelli nýrrar löggjafar um mengunarvarnir. Er þetta í fyrsta sinn sem slík lög eru til hér á landi. Það er brýnt hagsmunamál í þessu litla landi að fara vel með náttúruauðlindirnar, og það er höfuðatriði að við skemmum ekki umhverfi okkar með mengun og óþarfri umhverfisröskun af hvaða toga sem vera kann.

Þegar það liggur fyrir, að núv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hafa á þessum þremur þingum verið afkastamikil við að koma á margs konar umbótalöggjöf, þá liggur einnig fyrir að stjórnarandstaðan hefur verið ákaflega fátæk af málefnum í vetur. Þau málefni, sem stjórnarandstaðan hefur flutt, hafa yfirleitt verið í hróplegri mótsögn við málflutning stjórnarandstöðunnar að öðru leyti. Þannig hefur hún flutt tillögur um stóraukin útgjöld á öllum sviðum þjóðlífsins á sama tíma og lagðar hafa verið fram tillögur um stórfelldar skattalækkanir. Loddarabragur af þessu tagi kann að hafa skilað árangri í stjórnmálum einhvern tíma fyrr á öldinni, en ég er sannfærður um að sá tími er liðinn og stjórnarandstaðan mun ekki uppskera af þessum loddaraleik annað en skömmina eina.

Góðir hlustendur. 22. maí n.k. fara fram kosningar í þéttbýli, sveitarfélögum hér á landi, og kosningabaráttan er þegar hafin. Í þessum kosningum 1982 hljóta menn að líta yfir farinn veg liðinna ára frá 1978, en í þeim kosningum tókst að breyta um forustu í fjölmörgum bæjarfélögum í landinu, og sætti þó stærstum tíðindum, að íhaldið féll eftir 50 ára samfellda valdasetu í Reykjavíkurborg, höfuðstað landsins. Þegar litið er yfir þennan fjögurra ára tíma, 1978–1982, kemur í ljós mikill munur á þeim bæjarfélögum, þar sem Alþb. hefur verið aðili að meiri hl. annars vegar, og þeim bæjarfélögum hins vegar, þar sem Sjálfstfl. hefur haft afgerandi forustu. Í þessum efnum má nefna fjölda dæma úr atvinnumálum og félagsmálum, en ekki síður af því, sem gerst hefur almennt í stjórn bæjarfélaganna, þar sem fjármunum var áður illa varið og flokksgæðingar í Reykjavík fengu eftirsóttar lóðir fyrir að borga 1 millj. kr. í kosningasjóð íhaldsins.

Í þeim málaflokkum, sem ég hef hér nefnt, er auðvelt að sýna fram á afgerandi grundvallarmun í stjórn bæjarfélaganna og að um verulegan mun er að ræða eftir því, hvort Alþb. stýrir málefnum byggðarlaganna eða hvort Sjálfstfl. fer með forustuna. Sveitarstjórnarkosningarnar fjalla því um pólitísk vandamál, eins og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir gat um áðan, og um mismunandi pólitísk viðhorf.

Nú í þessum sveitarstjórnarkosningum leggur Alþb. megináherslu á eflingu sveitarfélaganna, á lýðræði og valddreifingu. Við teljum sveitarfélögin hornstein okkar stjórnkerfis, og við viljum að sveitarfélögin fái allra best svigrúm til athafna og að einstaklingarnir í sveitarfélögunum fái sem besta aðstöðu til að hafa bein áhrif á sveitarstjórnina hver á sínum stað. Lýðræði og valddreifing eru kjörorð okkar í þessari kosningabaráttu sem nú stendur yfir. Í sveitarstjórnarkosningunum er hins vegar ekki aðeins tekist á um stjórn byggðarlaganna. Kosningarnar snúast einnig um landsmálin og síðast en ekki síst um kjarabaráttuna sjálfa.

Á undanförnum árum hefur það komið æ betur í ljós í grannlöndum okkar, að fjármagnsöflin hafa krafist aukins hlutar af þjóðarframleiðslunni handa sér af því sem til skiptanna er á hverjum tíma. Þessar kröfur hafa birst hér á landi og þær hafa verið klæddar í margs konar búning. Stundum eru þær kallaðar frjálshyggja, stundum leiftursókn. Hvor búningurinn sem hefur verið notaður er ljóst að hér er um að ræða sama málið. Handhafar fjármunanna krefjast aukins svigrúms í samfélaginu á kostnað fólksins. Það er gerð tilraun til að vinna aftur eitthvað af þeim löndum sem verkalýðsbarátta liðinna ára og áratuga náði í þágu almennings. Hægri öflin hafa komist lengst í þessum efnum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Félagsleg þjónusta hefur þar verið skorin niður, atvinnuleysi hefur aukist, og þetta er einnig að gerast í nágrannalöndum okkar á Norðurlöndum. Munurinn á Íslandi og þessum löndum er hins vegar mjög verulegur.

Á Íslandi hefur verið reynt að verjast ásókn hægri aflanna á liðnum árum frá árinu 1978, frá því að Alþb. fékk áhrif á ríkisstjórn og sveitarstjórnir í landinu. Það hefur tekist í meginatriðum enda þótt Alþb. hafi eitt flokka haldið því fram, að það væri unnt að verja kjörin eins og þau eru nú um sinn og sækja síðan fram með aukinni þjóðarframleiðslu og auknum hagvexti. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa haldið því fram, að nauðsynlegt væri að skerða lífskjörin hjá hinum almenna manni meðan þjóðin er að vinna sig út úr þeim vandamálum sem nú er um að ræða og blasa við öðrum þjóðum, kreppu og atvinnuleysi. Þess vegna standa deilurnar um efnahagsmál á Íslandi í raun milli Alþb. annars vegar og hinna flokkanna hins vegar. Þeir treysta sér ekki til að lýsa því yfir, að þeir vilji bæta lífskjörin í þessu landi.

Nú í kjarabaráttunni, sem stendur yfir, eru kröfur Alþýðusambands Íslands hógværar kröfur, en þær rekast þó á viðhorf kauplækkunarflokkanna og Vinnuveitendasambandið hefur neitað að ræða þær kröfur af nokkurri alvöru. Alþýðusamband Íslands gerir kröfur um leiðréttingar á kaupi láglaunafólks á tveimur árum, og það er unnt að verða við þeim kröfum að því er láglaunafólkið varðar, m.a. með ýmsum efnahagslegum ráðstöfunum. Þannig er Alþýðusamband Íslands ekki hinn harði og óbilgjarni kröfuaðili í okkar þjóðfélagi frekar en fyrri daginn. En sá, sem krefst nú breyttra skiptahlutfalla á Íslandi, er Vinnuveitendasamband Íslands. Vinnuveitendasambandið vill 20–30% skerðingu á kaupmætti launa. Þessi óbilgjarna afstaða Vinnuveitendasambands Íslands er hins vegar engin nýlunda. Þar hafa hörðustu leiftursóknaröflin búið um sig, þeir sem réðu stefnumótun Sjálfstfl. 1979. Nú klagar Vinnuveitendasambandið það að norrænir fjármunir skuli notaðir til þess að rannsaka heilbrigðisástand launafólks sem vinnur í bónus. Nú bannar Vinnuveitendasambandið félagsmönnum sínum að hleypa inn upplýsingum um vinnuvernd á vinnustaðina nema með ritskoðunarstimpli Þorsteins Pálssonar. En hápunktur þessarar ofstækisafstöðu Vinnuveitendasambands Íslands er þó krafa þess frá því í gær um að sáttasemjari ríkisins hætti samningaviðræðum fram yfir kosningar vegna þess að nokkrir verkalýðsleiðtogar hafa lýst því yfir, að þeir styðji Alþb. og að þeir telji að kosningaúrslitin hafi áhrif á kjarabaráttuna. Krafa Vinnuveitendasambandsins um bann við vinnuvernd þótti tíðindum sæta, en krafa þess til verkalýðsleiðtoga um að þeir styðji ekki Alþb. markar tímamót í sögu stéttaátakanna á Íslandi. Með þessari afstöðu er Vinnuveitendasambandið að viðurkenna pólitískt eðli sitt, og með þessari afstöðu viðurkenna atvinnurekendasamtökin Alþb. sem sinn helsta pólitíska andstæðing. Eftir þessa árás Vinnuveitendasambandsins og íhlutun þess í kosningabaráttuna hljóta launamenn að átta sig enn betur á því, að stuðningur við Sjálfstfl. einnig í sveitarstjórnarkosningum er stuðningur við Vinnuveitendasambandið. Davíð Oddsson og Geir Hallgrímsson eru flokkspólitískir fulltrúar og sendimenn atvinnurekendasamtakanna.

Það er alvarlegt umhugsunarefni, góðir hlustendur, að Sjálfstfl. skuli telja sér kleift að koma fram á jafnblygðunarlausan hátt og hann gerir nú í ályktunum Vinnuveitendasambands Íslands. Það sýnir að hann er ekki eins var um sig og hann var stundum áður. Það sýnir að hann óttast ekki sem fyrr að birta sitt rétta eðli. Þessi útkoma sýnir einnig að ef Sjálfstfl. fær lykilaðstöðu í stjórnkerfinu á Íslandi, þá mun hann óðara efna til opins stéttastríðs í þessu landi. Það þarf að afstýra slíku stéttastríði. Það þarf að treysta bandalag þeirra afla á Íslandi sem þora að verja þau lífskjör sem hér eru, sem þora að verja sjálfstæði þjóðarinnar, sem þora að koma í veg fyrir að leiftursóknaröflin leggi ávinning liðinna áratuga í rúst.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð hafði staðið yfir stjórnarkreppa mánuðum saman. Þríflokkarnir þorðu ekki að mynda ríkisstj. án Alþb. Þá hafði núv. forsrh. kjark til þess að mynda þessa ríkisstj., sem er í raun pólitísk vörn fyrir lífskjörin, sem afstýrir allsherjar stéttastríði íhaldsins. Allt of fáir menn hafa þann kjark sem forsrh. sýndi þá, þegar mestu skipti að stuðla að sáttum fremur en harkalegu stéttastríði eins og flestir flokksbræður hans kusu þá.

Sveitarstjórnarkosningarnar í vor eru átök milli launamanna og atvinnurekenda. Sveitarstjórnarkosningarnar í vor eru átök milli alþýðusamtakanna og Vinnuveitendasambandsins. Sveitarstjórnarkosningarnar í vor eru átök milli Alþb. og Sjálfstfl. Milliflokkarnir skipta þar ekki ýkjamiklu máli og enginn framboðsaðili getur skotið sér undan því að svara hinum örlagaríku spurningum kosningabaráttunnar, örlagaríku spurningum kjarabaráttunnar í kosningabaráttunni í vor. Hver einasti kjósandi verður að gera það upp við sig, hvaða afstöðu hann hefur til þjóðfrelsismála. Vill hann hafa herinn í landinu eða vill hann að herinn fari? Vill hann að erlendir aðilar reisi stórverksmiðjur hér í landinu eða vill hann að Íslendingar hafi forræði yfir atvinnuvegum landsmanna? Vill kjósandinn skipa sér undir merki Vinnuveitendasambandsins eða undir merki verkalýðssamtakanna? Vill kjósandinn starfa með vinstri mönnum eða hægri mönnum í borgarstjórn Reykjavíkur? Framboðsaðilar, sem ekki þora að taka afstöðu til þessara grundvallarspurninga íslenskra stjórnmála, eru í raun og veru að dæma sig úr leik því að kosningar eru alvarleg pólitísk átök. Kosningar eru lýðræðislegt uppgjör sem okkar stjórnkerfi gerir ráð fyrir að geti farið fram á minnst fjögurra ára fresti. Við megum ekki vanvirða þessar leikreglur með því að koma fram í kosningabaráttu af alvöruleysi, ekki vanvirða þær með því að umgangast þær eins og trúðleik þar sem ekkert skiptir máli annað en glansmyndir og slagorð.

Kosningabarátta auglýsingamennsku hefur haft slæma fylgifiska á undanförnum árum. T.d. er allt of lítið um það, að menn þori nú orðið að taka afstöðu, að standa og falla með verkum sínum. Alþb. hefur tekið þátt í ríkisstjórn um þriggja ára skeið og það hefur oft verið erfiður tími. Flokkurinn hefur engu að síður viljað taka þátt í að stjórna þjóðfélaginu á þeim forsendum sem hann samdi um þegar ríkisstj. var mynduð. Alþb. svíkst ekki undan merkjum. Alþb. hleypur ekki frá verkunum þótt þau séu erfið, og Alþb. ætlast til þess að verða dæmt af verkunum. Við erum óhræddir við þann dóm. En við leggjum á það áherslu að ganga hreint til verks, og við berum ekki kápuna á báðum öxlum. Við höfum ekki tungur tvær, og við teljum að það sé nauðsynlegt að menn komi fram af heiðarleika í íslenskum stjórnmálum og taki skýra afstöðu, en hafi ekki ævinlega „hér um bil“ og „kannske“ afstöðu til allra hluta, hvaða nafni sem þeir nefnast. Við erum ekki fyrir það að skipta liði innan okkar raða til þess að gera okkur dýrlega í augum flestra ef ekki allra hópa kjósenda. Við gerum okkur ljóst að oft og tíðum verðum við að taka afstöðu sem er óþægileg og ekki vinsæl gagnvart kjósendum. En við erum ekki kosnir á Alþingi til að láta mæla frammistöðu okkar eins og poppstjörnur. Við ætlumst til að fólk meti hlutina sjálft. Við ætlumst til að fólk geri sér grein fyrir málefnunum, en láti ekki Morgunblaðið segja sér fyrir verkum né heldur hvaða skoðanir fólk á að hafa.

Góðir hlustendur. Við skulum gera okkur ljóst, að það er ekki auðvelt eins og sakir standa í efnahagsmálum Íslands og umheimsins að koma að fullu til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar á næstu árum þó að þar sé um að ræða hógværar kröfur. Til þess að hækka raunveruleg laun láglaunafólks í landinu til langframa og treysta lífskjör þess í heild verður að breyta tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Hún er ekki heldur heilög. Og það verður að grípa til margþættra efnahagslegra ráðstafana. Við viljum ekki að kaupbreytingar verði til þess að valda aukinni verðbólgu. Við viljum að kaupbreytingar skili sér í raunverulegum verðmætum í höndum þeirra sem helst þurfa á því að halda. Við erum ekki tilbúnir að skrifa upp á kauphækkanir og stórkostlega tekjuaukningu til allra í samfélaginu, vegna þess að þeir eru til sem hafa miklar tekjur og þurfa ekki verulega kjarabót.

Með því að ráðast kerfisbundið gegn því sjálfvirka sóunarkerfi, sem hér er um að ræða á mörgum sviðum, er unnt að skapa svigrúm fyrir betri kjör láglaunafólks. Sjálfvirka sóunarkerfið birtist okkur víða. Við sjáum það í rekstri atvinnuveganna, sjávarútvegsins og landbúnaðarins, þar sem fjármagnskostnaður er að sliga þessar hefðbundnu atvinnugreinar landsmanna. Við sjáum hvernig þetta sjálfvirka sóunarkerfi kemur niður á iðnaði landsmanna. Sjálfvirkt sóunarkerfi er einkenni innflutnings og milliliðastarfseminnar í landinu. Við sjáum hvernig þetta sjálfvirka sóunarkerfi kemur niður á lífskjörum almennings á fjölmörgum sviðum. Ég tel brýnt að ráðast gegn þessu sjálfvirka kerfi hvar sem það birtist okkur. Liður í því er að koma í veg fyrir frekari stækkun fiskiskipaflotans. Hann er nógu stór eins og ástandi fiskstofnanna er nú háttað. En af hverju er ekki ráðist gegn þessu kerfi, þessu allsherjar sóunarkerfi sem hér er um að ræða? Það er vegna þess að einstakir hópar hafa hag af því að viðhalda þessu fyrirkomulagi. Sumir þeirra eru reyndar valdamiklir innan stjórnmálaflokkanna. En án allsherjaruppskurðar á efnahagskerfinu getum við ekki breytt tekjuskiptingunni, ekki bætt sem skyldi kjör láglaunafólks í landinu.

Ég kem nú að lokum máls míns. Miklar framfarir hafa orðið á mörgum sviðum í samfélagi okkar á liðnum árum og áratugum, en allt of sjaldan velta menn því fyrir sér hvert er stefnt og hvert skal haldið. Þessar spurningar hljóta þó að verða mjög áleitnar einmitt um þessar mundir, t.d. þegar fréttir berast af skemmdarverkum sem unnin eru í skjóli náttmyrkurs, jafnvel á menningarverðmætum eða gróðri í nágrenni borgarinnar. Þessi tíðindi birtast okkar á sama tíma og kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings er allhár. Þessi tíðindi gerast á sama tíma og fyrir liggur að innflutningur á margs konar neysluvörum, m.a. dýrum heimilistækjum og bifreiðum, er meiri en nokkru sinni fyrr. Þessi tíðindi gerast á sama tíma og við erum með betri félagslega þjónustu, betri heilbrigðisþjónustu og betra skólakerfi en við höfum haft áður. Að mínu mati liggur svarið við þessum grundvallarspurningum, sem ég bar fram, í því, að við höfum um of selt okkur undir ok neyslusamfélagsins þar sem dansinn í kringum vöruna eftir neysluauglýsingum er inntakið, upphaf og endir alls. Enginn getur þó keypt sér lífshamingju þó hann eigi mikið af peningum. Enginn getur tryggt sér lífshamingju þó hann vinni yfirvinnu myrkranna á milli. Enginn getur eignast hamingju fyrir það eitt að eiga stóra íbúð, hús eða bifreið. Lífshamingja manna getur ekki falist í neinu af þessu. En óhamingja manna birtist hins vegar í því þegar fólk ræðst á menningarverðmæti og eyðileggur þau og rífur upp veikan gróðursprota sem hefur verið settur niður í moldina í fyrra og átti að gleðja okkur í ár.

Þær spurningar verða áleitnar, hvort við höfum ævinlega verið á réttri leið, en við getum jafnframt leyft okkur að vera bjartsýn þegar við gerum okkur grein fyrir því, að fjöldi vel menntaðra einstaklinga kemur árlega til starfa í þjóðfétagi okkar. Við getum leyft okkur að vera bjartsýn þegar við gerum okkur grein fyrir því, að landið á mikinn auð, miklar auðlindir, miklar orkulindir, meiri og dýrmætari en nokkur önnur þjóð. Ef Íslendingar kunna fótum sínum forráð geta þeir lifað betra lífi í þessu landi en aðrar þjóðir geta gert sér vonir um. Við getum varðveitt sjálfstæði okkar og staðið á eigin fótum ef við aðeins erum menn til þess að takast á við vandann eins og hann birtist okkur frá degi til dags. Þess vegna skulum við glíma við verkefnin og standa þétt saman, þeir sem saman eiga. Eining um Alþb. skapaði sigurmöguleika yfir íhaldsöflunum 1978, og ég er sannfærður um það, góðir hlustendur, að það er nauðsyn fyrir launamenn á Íslandi, fyrir alla Íslendinga, að eiga nú einmitt um þessar mundir sterkt Alþb., sterkara en nokkru sinni fyrr.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.