29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4382 í B-deild Alþingistíðinda. (4106)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Alþfl., flokkur lýðræðisjafnaðarmanna, hefur á þessu þingi flutt fjölmörg mál sem vert er að geta, en naumur tími takmarkar yfirferðina. Þessum þingmálum er það sammerkt að stuðla að betri lífskjörum launþega, atvinnuöryggi, heilbrigðum stjórnarháttum, nýrri byggðastefnu, jöfnun hitunarkostnaðar, viðbótalánum til húsbyggjenda og íbúðakaupenda, jafnrétti til náms. o.fl., o.fl.

Utanríkismál höfum við lagt þunga áherslu á. Höfuðatriði stefnu okkar í utanríkismálum er að stuðla að friði í heiminum og hafa vinsamleg samskipti við allar þjóðir. Við teljum öryggi okkar best borgið með þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og teljum nauðsynlegt að standa við allar skuldbindingar sem því fylgja.

Því að vera jafnaðarmaður fylgir að krefjast réttlætis, berjast gegn kúgun, misrétti, hungri og fátækt. Tækniþróun, vísindi og mikill auður hafa ekki náð því að seðja hungur milljóna manna. Heimsbyggðin er hrjáð vegna atferlis morðóðra einræðisherra og valdaklíkna sem kúga, misþyrma og lífláta saklaust fólk. Nú í vetur hefur í fyrsta sinn verið rætt um þessi mál að einhverju marki. Alþfl. hefur átt frumkvæði að því að flytja þessi mál inn á Alþingi.

Við fluttum till. um að íslenska þjóðin lýsti samúð sinni með Pólverjum og var þess krafist að þeir fengju að vera í friði fyrir tröllinu í austri. Í Póllandi hefur kommúnismi leitt alþýðu landsins í herfjötra. Þar ríkir ófrelsi og ánauð, verkalýðsleiðtogar eru fangelsaðir og fólkið fær ekki brauð. Þegar kommúnistar hrifsuðu völdin í Póllandi skömmu eftir heimsstyrjöldina áttu þeir sér sterka aðdáendur og stuðningsmenn á Íslandi. Þetta fólk finnur sér nú stað í Alþb. Skyldu þessir menn vera sama sinnis í dag?

Í Afganistan hefur rússneski björninn fært landslýð allan í herfjötra. Þar eru menn myrtir fyrir það eitt að andmæla stjórnvöldum. Í Tyrklandi, bandalagsríki okkar, er ástandið svipað. Þar ráða grimmir herforingjar ríkjum og fangelsa og pynta einkum jafnaðarmenn og verkalýðsleiðtoga.

Í minnsta ríki Suður-Ameríku, El Salvador, ríkir ógnaröld. Við Alþfl.-menn fluttum till. um að lýsa yfir samúð Íslendinga með þjóðinni í El Salvador í þeim hörmungum ógnarstjórnar, ofbeldis og kúgunar sem hún hefur mátt þola. Talið er að hálf milljón þjóðarinnar í El Salvador sé nú landflótta eða tíundi hver landsmaður. Tugir manna eru pyntaðir og drepnir á hverjum degi, m.a. fjöldi barna. Það er sorglegt, að eitt mesta lýðræðisríki veraldar, Bandaríkin, styður valdamenn þar syðra. Fjöldi ábyrgra ríkisstjórna víða um heim hefur reynt að hafa áhrif á stjórnvöld í Bandaríkjunum og fá þau til að breyta stefnu sinni í þessum heimshluta. Alþjóðasamband jafnaðarmanna hefur ítrekað vakið athygli á þessu ástandi. Það gerum við Alþfl.-menn einnig og fordæmum þessa villimennsku.

Kemur okkur þetta við? Eigum við Íslendingar að standa hjá án þess að lýsa skoðunum okkar á alþjóðavettvangi á þessu máli, eða eigum við að leggja okkar lóð á vogarskálina? Við Alþfl.-menn teljum að okkur Íslendingum beri skylda til að láta í okkur heyra um þessi voðaverk. Á ég að gæta bróður míns? er spurt í hinni helgu bók. Gerum við það ekki eru réttlætiskennd og samviska okkar brenglaðar.

Á Alþingi er þó rödd sem finnst þetta óþarfi. Hún er hjáróma, en hún heyrist. Sjálfstæðismenn vilja gagnrýna í austur, en ekki í vestur. Slíkur tvískinnungur og hræsni eru átöluverð og einkar einkennandi fyrir málflutning sjálfstæðismanna. Hjá sjálfstæðismönnum er hver höndin upp á móti annarri. Stjórnarandstaða þeirra er veikluleg og ómarkviss, enda erfitt fyrir þann flokk að gagnrýna fjármálasvik, hentistefnu og ráðleysi ríkisstj. því svo skammt er liðið frá því að þeir beittu sjálfir nákvæmlega sömu vinnubrögðum og núv. ríkisstj. Það undraðist líka margur nú á dögunum er þeir fóru að fordæmi okkar Alþfl.-manna og gagnrýndu skyldusparnaðarfrv. ríkisstj., en skammt er liðið síðan þeir lögðu sjálfir slíkt frv. fram og gekk það þó mun lengra.

Öllum má ljóst vera að staða þjóðarbúsins er mjög alvarleg. Þjóðartekjur fara minnkandi, og ýmsir váboðar eru fram undan. Væri í landinu sterk stjórn, sem hefði kjark og þor til þess að stjórna, væri ekki ástæða til svartsýni.

Nú er svo komið að öll fyrirheit, sem núv. ríkisstj. gaf í upphafi ferils síns, hafi verið svikin. Meira að segja slagorð framsóknarmanna hljóma nú sem öfugmæli eða blótsyrði í munni þeirra. Þeir slógu um sig með kjörorðinu „heiðarleika og drengskap“ fyrir síðustu kosningar. Þeir tala enn um niðurtalningu og vissulega hafa þeir náð góðum árangri í þeim efnum. Þeir hafa með dyggum stuðningi Alþb. náð því að telja niður lífskjör láglaunafólks. Þeir hafa einnig hafið niðurtalningu á rekstrargrundvelli atvinnuveganna. Í þessum efnum ætla þeir að halda áfram af fullum krafti launþegum og þjóðarbúinu til ómetanlegs tjóns.

Skyldu gerðir hæstv. samgrh. Steingríms Hermannssonar í málefnum Iscargo bera vott um heiðarleika og drengskap? Það mál er eitt af stærri subbuverkum þess ráðh., en af mörgu er að taka. Þm. stjórnarandstöðu og almenningur í landinu hafa rökstuddan grun um að í því máli hafi ráðh. gengið lengra en góðu hófi gegnir. Kaup Arnarflugs á Iscargo, hvar flugleyfi fylgdi kaupunum, bera varla vott um að hagsmunir ríkisins hafi verið í fyrirrúmi. Hvers vegna þessi óeðlilegu afskipti? Skyldi það vera tilviljun, að með þessum subbuskap var ráðh. að bjarga landskunnum fjármálamanni Framsfl.?

Verst er þó af öllu vondu að ístöðuleysið er með ólíkindum. Nú er loðnan horfin — fiskur sem bjargað hefur atvinnustigi hinna fjölmörgu byggðarlaga í landinu. Í okt. s.l. vöruðu fiskifræðingar mjög alvarlega við og kváðu loðnustofninn í útrýmingarhættu. Þá mældist stofninn innan við 300 þús. tonn. Alþfl. krafðist þess á Alþingi einmitt þá, að veiðar yrðu stöðvaðar þá þegar. Við þessu var ekki orðið. Nú eftir áramótin mældist stofninn aðeins 140–150 þús. tonn. En fiskifræðingar telja hættumörkin 400 þús. tonn. Atvinnuleysi blasir nú við fjölda manna vegna ístöðuleysis ráðh., og nú þegar hafa íbúar Siglufjarðar og Raufarhafnar látið í ljós áhyggjur af framtíðinni. Loðnan er ein aðalfæðutegund þorsksins og má mikið vera ef ofveiði loðnunnar hefur ekki veruleg áhrif á þorskstofninn.

Þau undur gerast nú í óðu kapphlaupi ráðh. um innflutning skipa, að ekki einungis eru veitt leyfi fyrir togurum, sem ekki eru hundum bjóðandi hvað aðbúnað snertir, heldur er dæmi þess að stefnið sé sagað af togara til að komast hjá reglugerðum er varða stærðarmörk togara. Þá er nöturlegt að Framsfl. skuli beita sér fyrir þeirri kjaraskerðingu sem fylgir óhóflegri fjölgun fiskiskipa. Finnst þér, góður hlustandi, það traustvekjandi ráðherra sem lætur plata sig hvað eftir annað svo lítillega að viðskrh., flokksbróðir hans, telur sig tilneyddan að óska eftir opinberri rannsókn? Skyldi það vera tilviljun, að í öllum tilvikum, þar sem ráðh. lendir í vafasömum málum, er hann að hygla, að bjarga framsóknarmönnum. Nei, Framsfl. er andhverfa heiðarleika og drengskapar. Það er mikil ógæfa fyrir íslenska þjóð að hafa slíkan flokk í ríkisstjórn — flokk og einstaklinga sem láta undan hvers kyns þrýstingi fjármálamanna, fulltrúa einkahagsmuna.

1. maí er á næstu grösum. Þá íhuga launþegar stöðuna í kjaramálum oft betur en áður. Ljóst er að kaupmáttur hefur rýrnað verulega og launamismunur aukist hrikalega. Verkalýðshreyfingin hefur að undanförnu búið sig til nýrra kjarasamninga sem í raun var frestað í fyrra að fengnum litlum 3.25% í kauphækkun, sem ríkisstj. hefur tekið til baka og miklu meira en það. Kveðja ríkisstj. til launþega nú 1. maí er boðskapur Þjóðhagsstofnunar. Þessi boðskapur er eins konar ástarjátning til Vinnuveitendasambandsins. Nú er svo komið að helstu stuðningsaðilar ríkisstj. eru atvinnurekendur og Verslunarráð Íslands, sem hvað eftir annað hefur lýst hrifningu sinni vegna afnáms verðlagsákvæða og hve auðvelt er nú að hækka vöruverð. Í boðskap Þjóðhagsstofnunar er látið að því liggja að ætli ríkisstj. að ná markmiði sínu og lækka verðbólgu í 35% þurfi grunnlaun að lækka um 5–6%. Verði kauptöxtum hreyft verður gengisfelling. Að öðrum kosti er hótað atvinnuleysi. Þetta er kveðja Alþb.-ráðh. til verkafólks. Þessi boðskapur hefði þótt skrýtinn fyrir nokkrum árum. Þá var hægt að notast við Alþb. í verkalýðshreyfingunni. Nú þykja ráðherrastólarnir hugsjónum dýrmætari. Hvað ætla þeir að gera? Hvers vegna rétta þeir ekki lægst launaða fólkinu hjálparhönd einmitt nú, þegar launamismunur hefur aukist tröllaskrefum? Þeir ríku hafa orðið ríkari, þeir fátæku fátækari undir þeirra stjórn. Nú hrópar verkafólk á úrræði. Fær það svar? Þegar Kennedy heitinn Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína við valdatökuna sagði hann m, a., með leyfi forseta: „Ef hið frjálsa samfélag getur ekki hjálpað hinum mörgu fátæku mun það aldrei geta bjargað hinum fáu ríku.“ — Þessu mun hæstv. ríkisstj. ekki takast að hnekkja. Þess vegna ber stefna hennar dauða í sér.

Í hönd fara bæjarstjórnarkosningar. Alþfl. stendur málefnalega sterkur. Sjálfsforræði sveitarfélaga ásamt þjóðarheill landsins eru höfuðatriði í stefnu okkar er snerta stjórn sveitarfélaga um land allt. Við viljum dreifa valdinu, færa það nær fólkinu, auka ábyrgð fólksins í hinum dreifðu byggðum. Við viljum að þjóðin eigi landið, gögn þess og gæði. Nú er lag til sóknar og sigurs. Alþb. heyr sitt dauðastríð. Framsókn og Sjálfstfl. ganga málefnasnauð til leiks. Ég heiti á jafnaðarmenn um land allt að berjast af einurð og fullvissu sannfæringarinnar fyrir stórum sigri Alþfl. í komandi bæjarstjórnarkosningum. Sigur Alþfl. er stuðningur við kröfuna um betri lífskjör, atvinnuöryggi, réttlátara þjóðfélag, fegurra mannlíf. — Góða nótt.