29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4408 í B-deild Alþingistíðinda. (4114)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Karvel Pálmason var að ljúka hér máli sínu. Hann var stórorður og fullyrðingagjarn, eins og stundum hendir þann mann, en ekki sé ég ástæðu til að eyða tíma mínum í að skattyrðast við hann. Steingrímur Hermannsson stendur t.d. jafnréttur þótt Karvel Pálmason skjóti púðurskotum að honum.

Umræðurnar hér í kvöld, herra forseti, hafa annars verið prúðmannlegar og málefnalegar, þótt vissulega beri margt á milti í skoðunum. Eldhúsdagsumræður hafa lengi verið fylgifiskur þingloka á vorin. Nú sem áður eru efnahagsmál í brennidepli umræðnanna og mun svo lengst af verða, því að hagur atvinnuveganna og efnahagslífsins í heild skiptir að sjálfsögðu meginmáli í allri landsstjórn. Lífskjör almennings og afkoma þjóðarheildarinnar hvíla algjörlega á því, að grundvöllur atvinnulífsins sé traustur. Með því eina móti er hægt að tryggja atvinnuöryggi og treysta lífsafkomu vinnandi fólks í landinu. Rekstrarafkoma og fjárhagur fyrirtækja er ekkert einkamál þeirra sem stjórna þeim eða hafa á þeim eignarhald. Hagur einstakra fyrirtækja og heilla atvinnugreina snertir hagsmuni allra sem hjá þeim vinna. Launþegar eiga afkomu sína undir því að hafa atvinnu hjá fyrirtækjum og fá laun vinnu sinnar. Hagur fyrirtækja verður því að vera góður, svo góður að þau geti haldið uppi eðlilegri starfsemi og greitt launþegum laun.

Öllum fyrirtækjum er nauðsyn að skila hagnaði, en það skiptir hins vegar máli hvernig hagnaðinum er varið. Atvinnurekstur er heilbrigður ef hann skilar hagnaði sem varið er til þróunar og vaxtar fyrirtækisins og gerir því kleift að standa undir nauðsynlegum sköttum til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins í heild.

Vissulega getur oltið á ýmsu hvernig til tekst að ná slíkum markmiðum í atvinnu- og efnahagsmálum. Það skal fúslega viðurkennt, að núv. ríkisstj. hefur háð sína glímu við að ná þessum markmiðum. Og það skal líka viðurkennt að margt hefði betur mátt fara á 27 mánaða stjórnarferli núv. ríkisstj. En hitt er fráleitt, að halda því fram að ríkisstj. hafi mistekist starf sitt það sem af er, enda allt of stuttur tími liðinn til þess að dæma um árangur af stjórnarstefnu sem miðast við heilt kjörtímabil eða því sem næst. Hitt er hverju orði sannara, að síst er ástæða til að slaka á um þau markmið í efnahagsmálum sem ríkisstj. hefur sett sér. Það eru alvarlegar blikur á lofti, sem nauðsynlegt er að átta sig á, í sambandi við efnahagsmál, atvinnumál og kjaramál á næstu vikum og það sem er eftir þessa árs.

Því er ekki að leyna, að ríkisstj. mun á næstu vikum og mánuðum ganga undir prófraun, sem e.t.v. er erfiðari en aðrar sem hún hingað til hefur átt við að etja. Þessi glíma stendur m.a. um það, hvort ríkisstj. tekst að vinna áhrifaöflin utan ríkisstj. og Alþingis til áframhaldandi samstarfs um viðnám gegn verðbólgu og gerð varnarvirkis gegn hugsanlegum samdrætti í atvinnulífi, vegna markaðsóvissu og minnkandi afla í sumum greinum sjávarútvegsins.

Það er höfuðmarkmið ríkisstj. að ekki komi til samdráttar í atvinnulífinu. Mestu máli hlýtur að skipta að tryggja atvinnuöryggi í landinu. Næg atvinna er undirstaða almennrar velferðar. Í atvinnuöryggi er fólgin mannsæmandi tilvera launfólks. Ef atvinna er næg má segja að önnur velferðarmál komi af sjálfu sér. Skynsamleg stefna í kjaramálum hlýtur því að vera sú að halda því sem áunnist hefur en varast óraunsæja kröfugerð um kjarabætur sem ekki er hægt að fullnægja nema með greiðslu í verðminni krónum eða samdrætti í atvinnu.

Ríkisstj. leggur áherslu á gott samstarf við hagsmunasamtök fólksins í landinu og væntir jafnan mikils af slíku samstarfi, enda er þess mikil þörf nú sem hingað til og reyndar ekki síður.

Þó að nauðsynlegt sé að hafa uppi varnaðarorð í sambandi við slæmar horfur í efnahagsmálum á næstunni er ekki ástæða til að líta á slíkt sem svartsýni. Íslendingar hafa í raun og veru enga ástæðu til svartsýni eða volæðis. Það er þarflaust að sjá fyrir sér tómar þrengingar, þótt blikur séu á lofti um sinn. Sem betur fer einkennist íslenskt þjóðfélag fremur af grósku og fjöri en vandamálum og eymd. Afkoma almennings er góð á Íslandi. Ísland er eitt af fáum löndum heims, sem ekki stynur undan atvinnuleysi. Neyslustig er hátt hér á landi, heilsufarsástand með því besta sem þekkist. Réttaröryggi, mannfrelsi og lýðræði eru í heiðri höfð umfram þann óskapnað og skinhelgi sem umlykur þessi mál í ýmsum stærri þjóðfélögum, jafnvel þeim sem kenna sig við lýðræði og mannúðarhugmyndir, að ekki sé minnst á þjóðfélög þar sem herinn er látinn stjórna landsmálum af ótta við frelsi og frjálsa hugsun.

Verklegar framkvæmdir hér á landi hafa sjaldan verið meiri en um þessar mundir, og gildir það reyndar um öll svið þjóðlífsins: atvinnumál og samgöngur, menningarstofnanir, hitaveitur og aðrar orkustöðvar og mörg önnur svið. Það er reyndar vafamál að við höfum afkastagetu hvað varðar mannafla og fjármagn til þess að ráðast í meiri mannvirkjagerð en nú eru á döfinni og fyrirhugaðar eru. Ekkert af þessu bendir til þess, að hér sé staðnandi þjóðfélag.

Þá ber að nefna að hér á landi er nú mikil gróska í lista- og menningarstarfi og síaukin þátttaka almennings á því sviði. Listmenningin er að verða meiri almenningseign er oftast áður. Þess vegna er gróska í leiklistarmálum, tónlistarstarfi og myndlist, svo að eftirtekt vekur hjá dómbærum mönnum sem hingað koma sem gestir og vita áður fátt um íslenskt þjóðlíf og menningarleg viðhorf fólks á Íslandi. Og ekki skyldu menn gleyma þeirri sögulegu staðreynd, því sögulega lögmáli, að það fer saman gróska í menningarstarfsemi og fjör í athafnalífi. Þá má einnig benda á að íþróttir standa með miklum blóma hér á landi. Sóst er eftir íslenskum afreksmönnum til þess að fylla hin fræknustu kapplið milljónaþjóða. Íslendingar eru viðurkenndir fyrir skákáhuga og hafa eignast kappskákmenn í fremstu röð. Rannsókna- og vísindastarfsemi fleygir fram á mörgum sviðum hér á landi. Skólamenntun er nú almennari og aðgengilegri landsmönnum en áður var, sem er hið brýnasta mannréttindamál, enda er skólamenntun undirstaða þeirrar þekkingar og kunnáttu sem nútímaframfarir hvíla á, fyrir utan það að vera mikilvæg fyrir persónuþroska einstaklingsins.

Þrátt fyrir allt tal um óvissu í efnahagsmálum og ótal erfiðleika, sem við er að glíma, ættu menn ekki að loka augunum fyrir hinum bjartari hliðum mannlífs hér á landi. Hið rétta er að Íslendingar eru efnuð þjóð með mikla möguleika til góðrar afkomu í landi sínu um langa framtíð. En til að nýta þessa möguleika verður þjóðin að hafa framsýni um vöxt og þróun atvinnulífsins og beita skilvirkri stjórn efnahagsmála.

Forsenda þess, að takast megi að tryggja atvinnuvegunum rekstrargrundvöll til frambúðar og treysta atvinnuöryggið, er að hemja verðbólguaukninguna. Nauðsynlegt er að koma verðbólgunni smám saman á svipað stig og er í viðskiptalöndum Íslendinga. Það er eina leiðin til þess að losna út úr vítahring gengisfellinganna. Því miður skortir enn nokkuð á að þessu markmiði sé náð, þótt verðbólgustigíð hafi lækkað og lækkað verulega frá því í febr. 1980 þegar ríkisstj. tók við. Úr þessum vanda er hægt að bæta með samræmdum aðgerðum sem nái til allra höfuðþátta verðmyndunarkerfisins: verðlags á nauðsynjum, kaupgjalds, fiskverðs, búvöruverðs, bankavaxta, gengisskráningar og ríkisfjármála. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á verðlagsþróunina og þar með vaxtarhraða verðbólgunnar.

Ríkisstj. hefur sett sér ákveðin markmið hvað varðar hjöðnun verðbólgunnar á þessu ári. Markmiðið er að verðbólgustigið verði komið í 30% í árslok og stefni niður á við. Þessu markmiði er ekki hægt að ná nema ríkisstj. hafi vald á öllum þáttum verðmyndunarkerfisins. Eins og sakir standa skiptir langmestu máli hvernig til tekst um lausn kjaramálanna. Skilyrði tif almennra launahækkana eru ekki fyrir hendi þar sem þjóðarframleiðsla mun ekki vaxa á árinu. Þess vegna reynir nú meira en oft áður á hófsamleg viðhorf í kjarabaráttu launþega.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Tíma mínum er að ljúka og þar með þessum umræðum. Þótt vorskrúð sé e.t.v. ekki vonum fyrr á ferð á þessu ári, þá er vorhugur í Íslendingum. Sumarið fer í hönd með annir sínar og bjartar vonir. Gleðilegt sumar, góðir hlustendur. — Góða nótt.