30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4412 í B-deild Alþingistíðinda. (4122)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur komið í ljós á undanförnum misserum og allra síðustu árum, að þau þrjú stóriðjufyrirtæki, sem komið hefur verið upp í landinu, hafa á engan hátt skilað Íslendingum þeim hagnaði og fjárhagslega ávinningi sem aðstandendur þessara fyrirtækja spáðu þegar ákveðið var að koma þeim á fót hér á landi. Þessi reynsla á bæði við það fyrirtæki, sem hér er til umr., og enn fremur þau tvö önnur fyrirtæki sem komið hefur verið upp hér, öðru í samvinnu við útlendinga og hinu algerlega í eigu útlendinga. Þessi reynsla Íslendinga af stóriðjurekstri gefur tvímælalaust tilefni til þess, að mjög vandlega sé athuguð sú braut, sem margir vilja að þjóðin haldi enn frekar inn á, að efla mjög stóriðju af þessu tagi í atvinnulífi í landinu. Það er ljóst að efnahagsspár í veröldinni eru með þeim hætti, að spáð er miklum erfiðleikum á næstu árum í þessari atvinnugrein. Það getur reynst íslensku þjóðfélagi erfitt að þurfa á næstu árum að greiða mikla fjármuni með þeim stóriðjufyrirtækjum sem í landinu eru.

Ég er þeirrar skoðunar, að Alþingi og stjórnvöld þurfi á næstu misserum að athuga vel og rækilega efnahagslegar og fjárhagslegar forsendur þeirrar stóriðjustefnu, sem hér hefur verið, og þeirrar stóriðjuáforma, sem uppi eru hjá öltum aðilum hér á Alþingi, það geti komið til greina að taka þar aðrar ákvarðanir en gerðar voru á sínum tíma þegar starfræksla þessara fyrirtækja var hafin. En um leið og ég lýsi því yfir, að ég telji nauðsynlegt að taka þessa stefnu til rækilegrar endurskoðunar í ljósi þessarar fjárhagslegu reynslu, tel ég ekki tímabært að kveða upp úr um það hér og nú, hver framtíðarstaða þessa fyrirtækis, sem við erum að greiða atkv. um hér, eigi að vera, og er reiðubúinn að taka þátt í því, að enn um sinn sé reynt á hvort spár margra manna um, að hagur fyrirtækisins kunni að vænkast, verði réttar. Ég óttast þó að reynslan geti orðið sú, að niðurstaðan verði mun óhagstæðari en margir hafa spáð við meðferð þessa frv., og get því átt von á að innan tíðar þurfi Alþingi á nýjan leik að taka afstöðu til þessarar verksmiðju. Í ljósi þessara almennu viðhorfa og sérstakrar afstöðu minnar um það, að ekki sé tímabært að kveða endanlega upp úr um framtíð þessa fyrirtækis, segi ég já.