30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4412 í B-deild Alþingistíðinda. (4124)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil biðja hæstv. forseta að taka ljúflega tillit til þess, hversu langt aðsogið er og sérstaks eðlis að þeim einsatkvæðisorðum sem þm. er gert að láta í té við nafnakall um þetta frv. Sérstaklega vildi ég biðja hv. þm. Lárus Jónsson um að taka tillit til þess arna, því til þess mundu ekki nægja grænsápubirgðir heimsins að hann mætti þvo hendur sínar af því máli sem við fjöllum um núna, þrátt fyrir það að hann gerði athugasemdir við afgreiðslu frv. forðum. Hér er um að ræða fyrirtæki á ábyrgð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar á sínum tíma, stofnun þess með órofa stuðningi Alþfl. Ég hefði óneitanlega, eins og ég hef áður tekið fram, heldur viljað að þær 345 millj. kr., sem hér er um að ræða að heimta af þjóðinni til þess að halda áfram vafasömum rekstri þessa fyrirtækis, væru innheimtar með nefskatti þannig að hver skattborgari landsins mætti finna það á sínu prívat og persónulega nefi hvers konar gróði það er sem þeir sjálfstæðismenn hafa haldið fram hér í þingsölum í vetur, — og vitna ég þá fyrst og fremst til ummæla Birgis Ísl. Gunnarssonar, — hvers lags gróði það er sem við höfum haft af járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði. Með tilliti til þess, að ég vakti athygli við ítrekaða og endurtekna afgreiðslu á lagafrv. varðandi verksmiðju þessa, hvers konar svör stofnun þessa fyrirtækis mundi heimta af alþm., með tilliti til þess, að ég sagði fyrir að ég — ef ég yrði enn þá í sölum Alþingis — yrði um það krafinn að seg ja já við greiðstu á stórkostlegu tapi af þessari verksmiðju, ef af henni yrði, þá segi ég nú þetta já.