30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4416 í B-deild Alþingistíðinda. (4140)

126. mál, lögheimili

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um lögheimili. Efni frv. er að það skuli eigi teljast heimili þó að maður dveljist á skóla, sjúkrahúsi, heilsuhæli, elliheimili eða annarri slíkri stofnun, vinnuhæli eða fangahúsi, eða ef hann dvelst eingöngu eða aðallega til lækninga eða heilsubótar. Síðan segir hér: „Sama gildir um dvöl í sérhönnuðum heimilum og íbúðum aldraðra og öryrkja, byggðum í tengslum við þjónustumiðstöð aldraðra eða heilsugæslustöð, og það jafnt þótt maður sé eigandi þess húsnæðis sem hann dvelst í.“

Okkur nm. fannst það ekki aðeins nokkuð, heldur mjög óeðlilegt að menn gætu ekki átt lögheimili í eigin húsnæði, en eins og þetta er orðað hér er það alveg tvímælalaust og skýrt að í slíkum íbúðum, jafnvel þótt menn eigi þær sjálfir, geti þeir ekki átt lögheimili. Nú er það að segja hér til skýringar, að hv. flm. þessa frv. hafa flutt það af þeirri ástæðu, að þar sem fyrir dyrum stendur bygging margra slíkra íbúða í sveitarfélagi kann það að leiða til nokkurra fjárhagslegra bagga fyrir viðkomandi sveitarfélag ef allir íbúar flyttu þangað lögheimili sitt. Hefur sú staðreynd raunar beinlínis staðið í vegi fyrir að slíkar íbúðir væru byggðar eða slík heimili reist í þeim mæli sem annars hefði orðið. Því varð það einróma niðurstaða allshn. að leggja til að þetta frv. verði samþykkt með eftirfarandi brtt. Ég tek það fram að brtt. er flutt í samráði við flm. frv. Brtt. er á þskj. 821 og er svohljóðandi:

„Þegar um er að ræða dvöl á elliheimili, sérhönnuðum heimilum eða íbúðum fyrir aldraða eða öryrkja getur sveitarstjórn heimilað undanþágu frá þessu ákvæði.“

Við teljum að þetta bæti úr þeim annmörkum sem við vorum sammála um að væru á frv.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef gert grein fyrir, herra forseti.