30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4416 í B-deild Alþingistíðinda. (4142)

168. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir 168. máli, frv. til l. um dýralækna. Eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt hefur þetta mál verið til umfjöllunar í Nd. Menn hafa haft frv. í fórum sínum nú í vetur og að auki eru mönnum ekki ókunnar umr. um það frá fyrri tíð, því að í fyrra var lagt fram frv. til l. um dýralækna sem við fluttum, ég og forseti þessarar deildar, og í rauninni má segja að það sé rótin að endurskoðun laganna sem þá var lýst yfir að mundi fara fram að tilhlutan landbrn. Árangur þeirrar endurskoðunar er þetta frv.

Það mætti að sjálfsögðu fara ýmsum orðum um nauðsyn þessa máls og þau markmið sem að baki liggja, en með tilliti til þessara ábendingar ætta ég að sleppa því. Aftur á móti mun ég fara hér yfir kostnaðartexta þessara væntanlegu laga, sem að sjálfsögðu hlýtur að vera eitt af grundvallarsjónarmiðum sem menn meta þegar tekin er ákvörðun um löggjöf af þessu tagi.

Frv. gerir ráð fyrir heimildum til að stofna sex ný dýralæknaembætti og að kostnaður vegna þeirra muni nema 1 111 200 kr. yfir árið. Þá er einnig gert ráð fyrir að dýralæknanemar eða dýralæknar, sem hafa hlotið réttindi, hefji störf sín með þeim hætti að fara í starfsþjálfun hjá reyndum dýralæknum um tveggja mánaða skeið á launum. Er áætlað að kostnaður við það nemi 48 200 kr. Þá er enn fremur tekinn inn í lögin kostnaður vegna greiðslu á ferðum dýralækna, þ.e. umframkostnaður fram yfir 40 km vegalengd frá heimili dýralækna. Er áætlað að hann nemi samtals 300 þús. kr. Reyndar óttast ég að sú áætlun muni reynast neðan við þau mörk, sem reynslan verður að skera úr um hver verða. En þá yrði líka samkv. þessu heildarkostnaðurinn 1 459 400 kr. og þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að það yrði heildarkostnaður við þessa fjölgun dýralækna og þessa breyttu starfstilhögun. Hvernig það mundi aftur færast til á milli ára, hversu fljótt sá kostnaður gjaldfærðist, færi eftir því, hve ört þessar heimildir yrðu nýttar.

Í meðförum Nd. á frv. voru gerðar á því nokkrar breytingar. Hefur meiri hl. n. fallist á þau sjónarmið, sem þar koma fram, og mælir með frv. til samþykktar eins og það kom frá Nd. Alþingis, mælir með að það verði þannig lögfest. Einn nm., Eiður Guðnason, skilar séráliti. Aðrir nefndarmenn hafa undirskrifað nál., þó að því frágengnu að einn nm. var fjarstaddur, Þorv. Garðar Kristjánsson.