30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4420 í B-deild Alþingistíðinda. (4145)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Frsm. 1. minni hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Landbn. hefur haft til meðferðar frv. til I. um fóðurverksmiðjur og eins og með fyrra málið, um dýralæknana, varð hún ekki alls kostar sammála um málsmeðferð. Til þess að veita upplýsingar um málið kom á fund nefndarinnar Hjalti Gestsson ráðunautur, sem er formaður mþn. sem Búnaðarþing hafði kosið til að fjalla um þetta mál. Enn fremur fékk nefndin upplýsingar frá fjárlaga- og hagsýslustofnun og Landnámi ríkisins.

Eins og ég sagði var ekki samstaða í nefndinni um afgreiðslu málsins. Þrír nm. leggja til að frv. verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru fram á þskj. 783. Að þessum brtt. standa ásamt mér Helgi Seljan og Davíð Aðalsteinsson.

Í þessum brtt. má segja að farið sé að ráðum Búnaðarþings sem fékk þetta mál til meðferðar nú og gerði um það ályktun sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing fékk til umfjöllunar frv. til l. um fóðurverksmiðjur. Þingið mælir með því, að ríkisstj. fái heimild til, fyrir hönd ríkissjóðs, að taka þátt í hlutafélögum um stofnun og rekstur graskögglaverksmiðja, svo sem fram kemur í I. kafla frv. Hins vegar telur þingið, að önnur ákvæði frv. þurfi nánari athugunar við, og leggur því til að þau verði ekki lögfest. Búnaðarþing vísar til ályktunar sinnar frá 1981 um eflingu fóðuriðnaðar og felur stjórn Búnaðarfélags Íslands og nefnd þingsins um fóðuriðnað að vinna að þessu máli áfram.“

Eins og ég sagði eru brtt. okkar í samræmi við þetta. Við leggjum til að í 1. gr. frv. verði ríkisstj. veitt heimild til að taka þátt í stofnun hlutafélags, sem eigi og reki fóðurverksmiðjur, og í 2. gr. verði ákvæði um, að fjmrh. sé heimilt að fella niður aðflutnings- og sölugjöld af vélum, tækjum og varahlutum til slíkra verksmiðja. Þetta gæfi ríkisstj. heimild til að stofna hlutafélög vegna þeirra verksmiðja sem Alþingi hefur veitt fé til um alllangt skeið. En það er skoðun margra, m.a. okkar flm. þessara brtt., að æskilegt sé að heimamenn verði þátttakendur í slíkum verksmiðjum, þannig að sá áhugi, sem er víða heima fyrir, nýtist við uppbyggingu þessa iðnaðar.

Það kom fram hjá Hjalta Gestssyni að hann taldi heppilegt að graskögglar væru gefnir allt að hálfu á móti öðrum fóðurbæti. Hér er því um mjög mikinn markað að ræða, þar sem notkun fóðurbætis hefur verið 60–80 þús. tonn, svo að það er meira en það sem þær verksmiðjur, sem nú eru reknar, hafa möguleika á að framleiða.