30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4421 í B-deild Alþingistíðinda. (4146)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Frsm. 2. minni hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. síðasta ræðumanni var ekki samkomulag í landbn. Ed. Alþingis um afgreiðslu þessa máls. Eins og hann gat um var málið sent Búnaðarþingi til umsagnar. Búnaðarþing gat ekki fallist á frv. Kom þar reyndar margt til sem ég ætla ekki að ræða, nema aðeins rúma línu í frv. sem fjallaði um heimild til handa ríkisstj. um stofnun hlutafélaga í fóðuriðnaði.

Búnaðarþing hafði fyrir einu ári kjörið sérstaka nefnd til að fjalla um þetta mál. Sú nefnd hafði ekki og hefur ekki enn lokið störfum. Þar af leiðandi þótti Búnaðarþingi ekki ástæða til að skipa því máli, fóðuriðnaðarmálinu, með sama hætti og frv. gerir ráð fyrir. Búnaðarþing hafði hins vegar ekki möguleika á því og fjallaði ekki um þann þátt málsins sem lýtur að kostnaði við uppbyggingu þessara verksmiðja eða rekstrargrundvelli.

Eins og menn vita væntanlega hefur fóðuriðnaður átt sér stað hér nú um tveggja áratuga skeið. Framleiðsla grasköggla byrjaði í Gunnarsholti og í framhaldi af því var graskögglaverksmiðjunni á Hvolsvelli síðar breytt úr grasmjölsframleiðslu í graskögglagerð. Síðan komu svo fleiri verksmiðjur, sumar í einstaklingseign, eins og t.d. graskögglaverksmiðjan í Brautarholti. Reyndar er líka til lítil verksmiðja, sem vinnur ekki í nákvæmlega sama formi, undir Eyjafjöllum í bændaeign þar. Það er reynsla fyrir því og var m.a. staðfest í samtali sem nefndin átti við Hjalta Gestsson ráðunaut, að þessi framleiðsla hefur reynst vel og nýtur tiltrúar og trausts sem gott fóður hjá bændum. Það hefur hins vegar komið í ljós, að tiltölulega litlar verðlagsbreytingar hafa dregið úr sölu á graskögglum. Má í því sambandi sérstaklega minna á að þegar tekin var upp verðmiðlun á flutningi grasköggla þannig að þeir yrðu á svipuðu verði alls staðar á landinu, þá dró mjög úr sölu þeirra á bestu markaðssvæðunum sem næst liggja graskögglaverksmiðjunum. Þetta sýnir m.a. að ekki má miklu hagga í verði þessarar framleiðslu til þess að sala hennar geti átt sér stað.

Það hefur líka komið fram í umsögnum, sem nefndinni bárust, og gögnum, sem unnin voru af fjárlaga- og hagsýslustofnun, að í sumum tilvikum hefur framleiðslan ekki selst. Aftur á móti hefur hún færst á milli ára og selst á næsta ári þar á eftir.

Ákvæði um þessa starfsemi voru, að því er ég best man, fest í lög árið 1972 og þá í lögin um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þar var kveðið svo á að samkvæmt sérstakri áætlun ætti að byggja tilteknar verksmiðjur. Síðan var með tiltölulega ófullkomnum hætti kveðið á um með hvaða hætti verðákvarðanir yrðu teknar og stjórnir þessara fyrirtækja byggðar upp. Það er augljóst mál að þetta fyrirkomulag er úr sér gengið, og m.a. af þeirri ástæðu hefur Búnaðarþing séð sérstaka ástæðu til að fjalla um málið í heild.

En þar kemur meira til, sem þarf að líta á, heldur en þetta ófullkomna stjórnarform, m.a. samkeppni þessarar framleiðslu við innflutt fóður sem eins og menn vita er flutt tollfrjálst inn í landið. Það er augljóst mál, að ef á að auka þessa framleiðslu að verulegu marki þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að vernda hana, og þá verða menn að gera það upp við sig áður en til vandræða kemur í þessari framleiðslu. Til viðbótar við þetta hafa menn líka verið að íhuga hvernig hægt væri að tengja þessa framleiðslu fóðurblöndunarstöðvum, sem væru þá staðsettar í nánd við þessar verksmiðjur, kannske á viðkomandi þéttbýlisstöðum, og þá þarf um leið að finna því tæknilegt form, með hvaða hætti frá þessu yrði gengið.

Til viðbótar við þetta vil ég leggja alveg sérstaka áherslu á það í þessu sambandi, að vissar nýjungar eiga sér stað í þessum efnum. M.a. eru þær fólgnar í því að köggla hey hjá bændunum sjálfum. Væri gott fyrir þm. úr Norðurlandskjördæmi eystra að fylgjast með máli mínu í því sambandi, því að einmitt um þessar mundir er farið á milli bænda í Eyjafirði með sérstaka farandheykögglaverksmiðju og fyrningar hjá þeim þar kögglaðar. Þetta þykir mjög álitleg tilhögun, m.a. vegna þess að álitið er að fóðurgildi aukist við þessa meðferð á heyinu um 1/4 hluta, og það er mat manna að sá verðmætaauki, sem því fylgir, greiði fyllilega þann kostnað sem köggluninni fylgir.

Það er þess vegna viss ástæða til að meta þetta mál allt í heild, sérstaklega með tilliti til þess sem á sér stað núna á vegum Búnaðarþings.

En það, sem kannske vegur þó einna þyngst í sambandi við afgreiðslu 2. minni hl. úr landbn., er umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Ég ritaði þeirri stofnun bréf og bað um ákveðnar upplýsingar varðandi þetta mál. Það er nú tæpast tilefni til að rekja það svar í einstökum atriðum, en ég mun hins vegar drepa hér á örfá grundvallaratriði sem hafa í raun haft úrslit á afstöðu 2. minni hl. landbn. Ed. Alþingis.

Þá er það í fyrsta lagi að þeir útreikningar, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin leggur til grundvallar um verðsamanburð milli innflutts fóðurs og fóðurs framleidds hérlendis, sýna að innlenda fóðurframleiðslan er 9% dýrari en sú innflutta. Þá er einnig sett hér fram svar við þeirri spurningu, hver fjármagnskostnaður við nýjar verksmiðjur yrði. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki er hægt að svara spurningu 4, um stofnkostnað eða aðra kostnaðarþætti við verksmiðju í Saltvík eða í Hólminum, án þess að fyrir liggi forsendur um stærð verksmiðjanna, orkugjafa o.fl.“

Hér kemur greinilega fram að málið er ekki unnið með þeim hætti, að fjárlaga- og hagsýslustofnun gefi þar umsagnir um, eins og hún segir liggi ekki fyrir forsendur um stærð verksmiðjunnar og ekki orkugjafa heldur.

Þá var spurt hvort hagkvæmara væri að auka framleiðslu í eldri verksmiðjunum eða byggja nýjar. Því gat hagsýslustofnunin ekki heldur svarað, vegna þess að engar upplýsingar lágu fyrir um hvað það mundi kosta að auka afköst hinna eldri verksmiðja. Í niðurlagi svars síns segir fjárlaga- og hagsýslustofnun, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að fá rétta mynd af fjármagnskostnaði eldri verksmiðja og hvernig hann kemur fram í verði framleiðslunnar þyrfti að kanna reikninga verksmiðjanna frá upphafi og draga inn í þá athugun framlög ríkissjóðs og annarra opinberra aðila. Án þess verður samkeppnishæfni nýrra verksmiðja samanborið við framleiðslu eldri verksmiðja ekki metin raunsætt.“

Þessi umsögn bendir ótvírætt til að einmitt fjármagnskostnaðurinn hefur ekki verið unninn til hlítar og ekki liggja fyrir gögn um þá þætti mála.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu meira. En til viðbótar við það, sem ég hef nú sagt, er rétt að minna á að ýmsar framkvæmdir í sveitum landsins hafa ekki átt auðvelt uppdráttar í tíð núv. ríkisstj., eins og ég vænti að menn hafi nú komist að raun um. Þótt á það sé ekki sérstaklega litið er sannarlega ástæða til að gera nokkurn veginn sambærilegar kröfur um undirbúning og upplýsingar varðandi þessar framkvæmdir og aðrar hliðstæðar framkvæmdir. Það skýtur sannarlega nokkuð skökku við varðandi afgreiðslu þessa máls, miðað við ýmsa aðra umfjöllun í sambandi við verksmiðjuframkvæmdir hér á landi, og er það þó sannmæli að þar sé svo sem ekki ákaflega vandlega að málum staðið.

till., sem lögð er fram á þskj. 784, þyrfti í engu að tefja framkvæmdir við þessar verksmiðjur. Þær hafa verið í byggingu síðan árið 1974 með einum eða öðrum hætti, og það væri hægt að halda áfram nauðsynlegum undirbúningi undir frekari framkvæmdir á þeim tíma sem notaður yrði til að ná saman heildarstefnu í þessu máli. Og það er einmitt það sem minni hl. n. leggur til.

Eins og þskj. ber með sér eru nöfn þriggja nm. skráð undir nál., Egils Jónssonar, Eiðs Guðnasonar og Sigurlaugar Bjarnadóttur. Hún mætti ekki á fundi, en hafði áður gefið mér heimild til að setja nafn sitt undir. Einn virðulegur heiðursmaður úr þessari nefnd var fjarverandi við störf erlendis og gat þar af leiðandi ekki tekið þátt í lokaafgreiðslu málsins þótt hann hafi tekið þátt í upphaflegri umfjöllun þess. Á ég ekki von á því, að meiningar okkar í þessu máli liggi á mjög fjarlægum fleti.