30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4424 í B-deild Alþingistíðinda. (4147)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að eyða mjög löngu máli vegna þess frv. sem hér er til umr. Ég vil þó leyfa mér að víkja að því örfáum orðum.

Það hefur verið haft við orð á undanförnum árum, að efling innlends fóðuriðnaðar væri einn af þeim þáttum sem þyrfti að taka til rækilegrar athugunar, aukning innlendrar fóðurframleiðslu væri e.t.v. einn af meginvaxtarbroddum í íslenskum landbúnaði. Vegna þess, sem kom fram áðan, að það hefði iðulega gengið slælega að losna við þessa framleiðslu, þá vil ég taka undir það. Það hefur gengið misjafnlega stundum. Hins vegar er það svo nú, að öll framleiðslan er seld eftir því sem ég veit best.

Þetta frv., sem hér er til umr. og hljóðar um að ríkisstj. sé heimilt að taka þátt í stofnun og rekstri graskögglaverksmiðja, táknar í raun og sannleika ekki annað en að heimilt er, eins og málin eru í pottinn búin, að hverfa frá 100% fjármögnun ríkisins. Frv. táknar í raun og sannleika ekki annað. Við skulum, hv. alþm., gera okkur grein fyrir stöðunni eins og hún er. Það er í raun og veru hafin bygging tveggja verksmiðja norður í landi, í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Ég endurtek: framkvæmdir eru í raun og veru hafnar. Það eru allveruleg fjárframlög til þessara tveggja verksmiðja, og vísa ég þá til afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1982. Mér finnst að alþm. ættu að gera upp hug sinn til þessa frv. einmitt í þessu ljósi.

Ég endurtek að frv. fjallar um að ríkinu sé heimilt að stofna til sameignar við heimamenn. Og ég ítreka þau viðhorf, sem hér hafa raunar fyrr komið fram, að það er mjög mikilvægt að leiða heimamenn til ábyrgðar í slíkum málum, ef ég má komast svo að orði. Mönnum þykir það e.t.v. allnokkurt frjálslyndi að hafa slíka heimild svo rúma sem hér er um að ræða, þ.e. hafa ekki ákveðna prósentu, það skal ég viðurkenna. En að mínum dómi er þetta spor í hina réttu átt. Ég endurtek: Hafin er í raun og veru bygging a.m.k. tveggja verksmiðja og hefur verið veitt til þeirra fjármagn í ljósi ákvörðunarvalds í gegnum fjárveitingar. Vilja menn fjármagna þetta 100% af ríki eða vilja menn koma því svo fyrir, að heimamenn leggi þar allverulegt fé af mörkum. Mín skoðun er sú, að það sé heppilegra að leiða heimamenn til ábyrgðar. Í þessu sambandi vil ég minna á það, að Borgfirðingar hafa í hyggju að byggja eina graskögglaverksmiðju.