30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (4179)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig varla ástæða til að setja á langt mál nú við 1. umr. í þessari hv. deild um ríkisreikning fyrir árið 1978. Þó er ástæða til að vekja athygli deildarinnar á því, að í þessari þykku bók eru gerðar af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings margháttaðar aths. og það er ekki annað að sjá en yfirskoðunarmenn ríkisreiknings hafi unnið starf sitt af natni og samviskusamlega. Margar af þeim aths., sem gerðar eru, hljóta að vekja nokkra athygli og þá ekki síst þær aths. sem lúta að svokallaðri Kröflunefnd. Nú er það svo, að ábyrgðarmenn svokallaðrar Kröflunefndar sitja meira og minna í ríkisstj. nú orðið. Það væri til umhugsunar fyrir þá nefnd, sem tekur þetta mál til athugunar, hvort þessum ríkisreikningi eigi ekki að vísa til ríkisstj., til hinna upphaflegu ábyrgðarmanna.

En ég vil aðeins reifa örfáar aths. sem yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hafa gert. Þeir segja t.d. á bls. 398, með leyfi hæstv. forseta:

„Óeðlilegt verður að telja að nefndir skipaðar af ráðherra, eins og Kröflunefnd; skuli hafa vald til þess að ákveða laun og önnur kjör starfsmanna sinna í trássi við fjmrn.“

Nú er rétt að staldra við. Hverjir skipuðu Kröflunefnd á þessum tíma? Það er a.m.k. til umhugsunar fyrir deildina. — Þeir halda áfram og þeir segja og það er vísað í svar sem er framar í þessari bók:

„Svarið ber með sér að fjmrn. hefur úrskurðað að þm., sem jafnframt er forstöðumaður ríkisstofnunar, skuli ekki eiga rétt á yfirvinnu fyrir störf hjá stofnun sinni, og stangast sá úrskurður á við síðbúið bréf iðnrh., dags. 20. sept. 1979. Yfirskoðunarmönnum þykir einsýnt að úrskurðaraðili í þessum efnum sé fjmrh. og að alþm. sé þess vegna óheimilt að taka laun fyrir yfirvinnu hjá ríkisstofnun sem þeir veita forstöðu.“ — Aths. er „til viðvörunar eftirleiðis.“

Vitaskuld er mikill vandi, hvernig með ríkisreikning skuli fara, og yfir höfuð spurning til hvers þetta kerfi allt saman er. Ég vil vekja athygli á því, að nýlega hefur Alþingi raunar samþykkt lög, mikla bragarbót í þessum efnum, en hvað á að gera?

Svona er hægt að halda áfram og lesa upp blaðsíðu eftir blaðsíðu. Það er kannske engum til gagns og auðvitað ekki til ánægju að vera að lesa þetta upp. Það eru fjölmargir liðir af þessu tagi, og þeir færa út á spássíu að annaðhvort skuli við svo búið standa eða þetta sé til viðvörunar — það er margsinnis — eða til eftirbreytni.

Í framhaldi af þessu er rétt að minna á það, að þegar þetta Kröfluævintýri allt saman, sem lætur eftir sig ónýta virkjun norður í landi, var sem mest umrætt í þjóðfélaginu, þá var marggengið að ábyrgðarmönnum þessa fyrirtækis, þeirri pólitísku yfirstjórn sem yfir því var, og var óskað eftir svörum frá þeim. Það má draga saman svör þeirra í einni setningu, að þetta væri allt í lagi, þarna væri ekkert að. Nú fyrst kemur opinber niðurstaða um þessi efni og svörin eru algerlega í gagnstæða átt. Það, sem raunverulega segir í þessari bók, í ríkisreikningi fyrir árið 1978, er að fjármálaleg yfirstjórn Kröfluvirkjunar hafi verið í molum alla tíð sem nefndin sat, frá árinu 1975 og þangað til hún var leyst frá störfum. En það er eins og er í alkunnu lögmáli, að mönnum er gjarnan sparkað upp á við. Ég held að ég fari rétt með það, að a.m.k. hinn pólitíski armur Kröflunefndar situr í ríkisstjórn að 2/3 þegar hingað er komið.

Það er sem sagt niðurstaða yfirskoðunarmanna-þeir hafa út af fyrir sig ekki vald til annars — að það sé nánast sama hvar gripið sé niður: Í annan stað hafi verið súrrandi óreiða í þessum efnum og að hinu leytinu hafi fjölmargt af því, sem framkvæmt var, verið framkvæmt í algeru heimildarleysi.

Ég kann ekki svör við því, hvernig þingdeildin á að bregðast við, en þessu er varpað fram til umhugsunar: Það er oft gert þegar menn standa með plögg í höndunum sem þeir út af fyrir sig vilja ekki samþykkja, að þeim er vísað til ríkisstj. Ég a.m.k. vænti þess, að sú fjh.- og viðskn., sem fær þetta plagg til skoðunar, kynni sér það sem í þessari bók stendur. Það má út af fyrir sig segja að þetta sé liðin tíð og ástæðulaust að vera að ýfa þetta neitt frekar upp. En hér er hins vegar um að ræða hluti sem eiga að vera samfélaginu til eftirbreytni og viðvörunar um ókomin ár.

Ég vil svo ekki, herra forseti, við 1. umr. gera frekari aths. í þessa veru. Ég veit að þingið drúpir höfði þegar þessi Kröflumál ber á góma, og það er eðlilega og efnislega vel hægt að skilja það. Þessu er þann veg farið að menn helst vildu að það hefði ekki átt sér stað. Hér stendur þetta allt saman svart á hvítu og það nálgast reyfaralesningu að lesa frekar upp úr þessu plaggi. Ég vænti þess, að hv. fjh.- og viðskn. taki þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar.