30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (4189)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að fara að endurtaka það sem ég var að segja áðan, en að gefnu tilefni fór ég að rifja aðeins upp ástæðurnar fyrir því, hversu illa tókst til við Kröflu. Ef hv. 6. landsk. heldur að ég ætli að taka aftur orð mín hér um Orkustofnun og það fólk sem þar vinnur eða vann fyrir nokkrum árum, þá er það alger misskilningur.

Höfuðatriðrið hjá mér var sem sagt að benda á að Orkustofnun átti ákaflega mikinn þátt í því, að ráðist var í þessa virkjun. Það var Orkustofnun og hennar fólk sem hafði unnið að undirbúningi þessa máls, gert svokallaðar vísindalegar rannsóknir árum saman, og það var algerlega byggt á áliti Orkustofnunar þegar ráðist var í þessa virkjun. Þegar kom til þess að vinna verki, og þá á ég fyrst og fremst við að bora, voru það menn frá Orkustofnun sem unnu það verk, og því miður kom í ljós að þeir voru ekki vanda sínum vaxnir. Það verður að segjast eins og er. Það kom í ljós að þeir voru óvanir að bora á háhitasvæði, þeir kunnu ekki þá tækni, þegar til kom, sem til þess þarf að bora á slíkum svæðum. Þetta ætla ég að endurtaka hér aftur ef hv. þm. Karvel Pálmasyni er ljúft að heyra það enn á ný, og ég skal svara fyrir þessi orð mín hvar og hvenær sem er.