09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í raun og veru get ég ekki bætt miklu við það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Ég verð að vísa til þess minnisblaðs sem ég hef fengið í hendur frá flugmálastjórn um þetta mál. Skal ég lesa það, með leyfi forseta. Í minnisblaði þessu segir:

„Að loknum fundi í samgrn., sem haldinn var að beiðni Gunnars Þorvaldssonar framkvæmdastjóra Arnarflugs þann 21. okt. s. l., þar sem rætt var um kæru Ragnars Karlssonar á hendur Arnarflugi fyrir meinta vopnaflutninga frá Frakklandi til Líbýu, var það skilgreint sem hlutverk Loftferðaeftirlitsins að kanna slík mál og Loftferðaeftirlitinu falið að gera það í þessu tilviki af samgrn. og einnig hvort F-27 flugvélar Flugleiða í Líbýu væru notaðar til slíks flugs.“

Þetta er inngangur minnisblaðsins. Ég vil geta þess, að umrædd kæra barst samgrn. þannig að Ragnar Karlsson sendi hana formanni flugráðs, Leifi Magnússyni, sem sendi hana samgrn. Var málið þá þegar tekið til meðferðar með því að ræða við forstjóra Arnarflugs sem óskaði eftir fundi. Þetta tók mjög skamman tíma. — Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

„Loftferðaeftirlítið hóf þegar í stað rannsókn sína og ræddi m. a. við eftirtalda aðila: Karl Karlsson flugstjóra Flugleiða, Tripólí, Valdimar Richter flugvirkja Flugleiða, Trípólí, Ragnar Karlsson flugvirkja, Flugleiðum, og flugráðsmann, Gunnar Þorvaldsson framkvæmdastjóra Arnarflugs, Goða Sveinsson stöðvarstjóra, Arnarflugi, Trípóli, Ævar Guðmundsson flugvélstjóra, Arnarflugi, Trípólí, Stefán Bjarnason flugvélstjóra, Arnarflugi, Trípólí, Björn Vigni Jónsson flugvélstjóra Arnarflugi, Trípólí, Paul Monden flugstjóra, Arnarflugi, Trípólí, Rafn Jónsson fréttamann, stöðvarstjóra, Arnarflugi, Trípóli, Þórarin Hjálmarsson aðstoðarstöðvarstjóra, Arnarflugi, Trípólí. Fengin voru þau farmgögn sem Arnarflug og starfsmenn félagsins höfðu undir höndum. Arnarflug (Goði Sveinsson) er að vinna að því að fá ljósrit af öllum farmgögnum úr þeim sjö flugum frá Frakklandi til Líbýu sem um er að ræða. Bráðabirgðaniðurstöður eru þessar:

1. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess, að neitt hafi annað verið flutt en fram kemur á farmgögnum.

2. Í þeim farmgögnum, sem náðst hefur í nú þegar,

kemur fram, að flutt hafa verið m. a. eftirfarandi gögn og efni:

a) Hættuleg efni, þ. m. t. corrosive materials.

b) Eldfim efni, þ. m. t. ehemical products for photography.

c) Efni er stafar af sprengihætta, þ. m. t. explosive cartridges.

d) Æfingaskot.

3. Þá farma, sem um getur í grein 2, má flytja í flugvélum samkv. IATA regulations.

4. Leyfi frá frönskum loftferðayfirvöldum lá fyrir um flutninga á hættulegum efnum.

5. Ekkert er komið fram sem bendir til þess, að F-27 flugvélar Flugleiða í Líbýu hafi flutt hættuleg efni.“

Síðan fylgir með þessu ljósrit af þessum gögnum öllum, sem hv. fyrirspyrjandi getur fengið aðgang að, en ég fer að sjálfsögðu ekki að lengja svar mitt með að Lesa þau upp, enda eru þau allviðamikil.

Eins og ég sagði í upphafi var brugðist strax við þessu og málið rannsakað. Enn sem komið er hefur ekkert komið í ljós sem er þess eðlis, að félagið hafi átt að leita heimildar samgrn. Þessi mál hafa þannig verið afgreidd, að því mér er sagt, í samgrn. til þessa, að stuðst hefur verið við IATA-reglur um flutning á slíku efni og litið svo á, að heimildar samgrn. væri þörf þegar um flutninga væri að ræða sem ekki samræmdust kröfum eða reglum IATA. Svo er, samkv. því sem ég las upp áðan, ekki í þessu tilfelli.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að vélar Flugleiða hafa flutt töluvert magn af vopnum til Saudi-Arabíu. Þessar vélar hafa verið í leigu til Saudi-Arabíu og Flugleiðir hafa sótt um leyfi fyrir þessar vélar, enda var þar um farma að ræða sem ekki samræmdust reglum IATA.

Hv. þm. er eflaust í minni deila sem varð út af flutningum Cargolux. Þar var um að ræða vél sem skráð var hér á landi og flutti farma frá Frakklandi. Því hefur að vísu verið mótmælt af Cargolux, að þar hafi verið um vopn að ræða. Sú skýring, sem rn. fékk er það grennslaðist eftir þessu máli hjá Cargolux, var einmitt sú, að því hafi ekki borið skylda til að sækja um leyfi þar sem hér hafi ekki verið um vopn að ræða. Í slíkum tilfellum lít ég á það sem ákaflega mikilvægt að viðkomandi lögleg stjórnvöld staðfesti flutningana og skjölin séu útgefin af þeim.

Það er að vísu ákaflega erfitt fyrir okkur hér á Íslandi að ganga úr skugga um hvort eitthvað kunni annað að leynast í slíkum farmi. Ég hygg að við verðum að treysta mjög á lögleg stjórnvöld í þeim löndum sem farmurinn á uppruna sinn í, eins og í þessu tilfelli Frakklandi. Að sjálfsögðu eru vopnaflutningar ákaflega viðamiklir flutningar flugvéla um heim allan. Ég hef þess vegna m. a. látið kanna hvernig þessum málum er háttað hjá óðrum þjóðum. Ég hef að vísu fengið þau svör sem nægja til að endurskoða þær reglur sem við höfum, en þörf er talin á slíkri endurskoðun. Þó hef ég fengið vitneskju um að t. d. í Bretlandi er gefin út ákveðin reglugerð sem heimilar flutning á vopnum frá ákveðnum löndum til ákveðinna landa. Í slíkum tilfellum er ekki þörf á að sækja um leyfi til breskra yfirvalda á flutningi á vopnum. Mér er tjáð að þetta sé reyndar heil bók þar sem slík leyfi eru m. ö. o. veitt almennt og fyrir fram.

Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að ekki er ánægjulegt ef íslensk flugfélög taka þátt í að flytja vopn sem síðan lenda í höndum hryðjuverkamanna með öllum þeim ljótu afleiðingum sem það hefur. Hitt er svo annað mál, að það verður líklega erfitt að girða fyrir að vopn, sem eru flutt — ja, eigum við að segja til hinna bestu landa, lendi í höndum hryðjuverkamanna. Ég held að það verði seint gert. Sú spurning vaknar þá, hvort algerlega eigi að banna íslenskum flugvélum að flytja vopn. Þetta hygg ég að sé ákaflega erfitt í framkvæmd, ef slíkar vélar á annað borð á að leigja erlendum aðilum til flutninga. Vopnaflutningur er, að því er mér er tjáð, mjög stór hluti af hinum alþjóðlegu flutningum. Það gæti orðið nokkuð erfitt að leigja vélar ef slíkt væri að öllu leyti bannað.

Um aðstoð við þjóðir, sem þjálfa hryðjuverkamenn, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, skal ég ekki ræða mikið. Hvað felst í þessu? Við getum kannske sagt að aðstoð felist í nánast öllum flutningum til þessara þjóða eða jafnvel leigu á vélum eins og F-27 vélunum með flugmönnum og flugvirkjum, þó að ekki sé þar um beina vopnaflutninga að ræða.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að þessi mál eru hvimleið og væri æskilegt að halda mætti íslenskum vélum alveg utan þeirra, en ég óttast að það kunni að vera ýmsum erfiðleikum háð.