30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4455 í B-deild Alþingistíðinda. (4200)

298. mál, eftirlaun alþingismanna

Frsm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta kom til Nd. frá hv. Ed. þar sem það var flutt af forsetum þingsins og var afgreitt óbreytt.

Á undanförnum árum hafa átt sér stað verulegar breytingar á löggjöf um lífeyrismál, en markmið þeirra breytinga hefur verið annars vegar að tryggja öllum starfandi mönnum nokkurn lífeyri, þegar starfsævi þeirra lýkur, og hins vegar að skylda þá til að kaupa þann rétt. Meginbreytingin, ein af þeim sem gerð hefur verið í þessu sambandi, hefur verið sú, að öll greidd iðgjöld veiti sjóðfélögum einhver réttindi, en áður var mjög algengt um lífeyrissjóði að reglur þeirra áskildu nokkurra ára iðgjaldagreiðslur áður en réttur til lífeyris kviknaði. Slíkt á sér nú ekki stað samkv. gildandi lögum, að því er ég best veit, um neina lífeyrissjóði nema lífeyrissjóði alþm. og ráðh. Samkv. núverandi lögum um þessa lífeyrissjóði þurfa alþm. sex ára iðgjaldagreiðslur til að réttindi skapist, en samkv. lögum, um eftirlaun ráðherra þarf fimm ára iðgjaldagreiðslur til að skapa rétt til lífeyris. Þessar iðgjaldagreiðslur er samkv. nýjum lögum um aðra lífeyrissjóði ekki hægt að færa á milli lífeyrissjóða þannig að iðgjaldagreiðslur veita engan rétt til lífeyris, hvorki hjá alþm., ráðh. né í öðrum lífeyrissjóðum, sem menn kynnu að vera aðilar að fyrr eða síðar, samkv. þessum gildandi reglum.

Með frv. er lagt til að hliðstæð breyting verði gerð á lögum um eftirlaun alþm. og lögum um eftirlaun ráðh. og þegar hafa verið gerðar fyrir alllöngu á lögum um lífeyrismál annarra, og er miðað við þá meginreglu, að öll iðgjöld veiti réttindi, en sú er hin almenna regla, sem viðgengst í öllum öðrum lífeyrissjóðum, eins og ég gerði að umtalsefni áðan. Þá er einnig hin svokallaða 95 ára regla, sem í gildi er í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, tekin upp hér, þó eilítið breytt vegna annarra aðstæðna. Í lögum um lífeyrissjóð alþm. og lífeyrissjóð ráðherra voru mjög takmörkuð, jafnvel í sumum tilfellum engin ákvæð: um barnalífeyri og makalífeyri. Í frv. þessu eru ákvæði um að samræma barnalífeyris- og makalífeyrisreglur hliðstæðum ákvæðum í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá er einnig sú breyting gerð, að alþm., sem sækja umboð sitt til starfa við almennar kosningar, geti farið á eftirlaun eftir þær kosningar, sem fram fara næst á undan því að þeir verða 65 ára, í stað þess að leita endurkjörs til næstu fjögurra ára.

Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. þetta og leggur til að það verði samþykkt óbreytt. Hv. þm. Matthías Bjarnason tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.