30.04.1982
Neðri deild: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4471 í B-deild Alþingistíðinda. (4221)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, að sú orkusala, sem nú fer fram til stóriðjufyrirtækja í landinu, er engan veginn með þeim hætti sem æskilegt væri. Það á við um Álverksmiðjuna, sem kunnugt er, og það á einnig við um Járnblendiverksmiðjuna, og ef taka á gildar þær greinargerðir, sem borist hafa frá Landsvirkjun varðandi forgangsorku og afgangsorku í raforkukerfinu á næstu árum, þá verður myndin ekki betri miðað við þær verðforsendur sem fyrir liggja um raforkusölu til Járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði.

Þessar forsendur varðandi orkuverðið voru hins vegar teknar inn í athuganir starfshópsins, a.m.k. að nokkru leyti. Ég vil ekki fullyrða að það hafi verið farið ofan í alla sauma á stuttum tíma sem þessi starfshópur hafði til umráða, en það má finna í skýrslu hans ákveðna greinargerð varðandi raforkuverðið, ef miðað væri þar við aðrar forsendur.

Nú hefur verið fullyrt til skamms tíma að allnokkur afgangsraforka væri í íslenska kerfinu. Það er ekki lengra síðan en í haust, en um það voru birtar háar tölur, fyrst af Verslunarráði Íslands, að svo og svo margir milljarðar kr., ef ég man rétt, a.m.k. milljarðar gkr., rynnu til sjávar vegna þess að ekki væri séð fyrir nýtingu á þeirri orku sem væri í íslenska landskerfinu á næstu árum. Þessir útreikningar hafa hins vegar allnokkuð breyst, miðað við þær skýrslur sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, en ég ætla ekki að fara frekar út í það mál hér.

Hv. þm. vék að viðhorfum mínum til húshitunarmála í landinu og verðlagningar á raforku. Það mál hefur verið rætt svo oft og mikið hér í þinginu að ég veit ekki hvort ég á að bæta þar miklu við. Ég get upplýst hv. þm. um það, að ég lagði fram tillögu í ríkisstj. í gær varðandi jöfnun á upphitunarkostnaði. Sú tillaga liggur þar fyrir og varðar áfangalausn í þessum málum. Ég tel ekki ástæðu til að greina frá henni hér sérstaklega efnislega, þar sem hún er á umræðustigi í ríkisstj., en ég vænti þess, að ríkisstj. nái saman um aðgerðir í þessum efnum fyrr en seinna, svo mjög brýnar sem þær eru og mikið réttlætismál fyrir fólk víða á landinu sem býr við mikinn ójöfnuð að þessu leyti.