09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Gunnarssyni fyrir að vekja máls á þessu hér. Ég held að það væri ekki seinna vænna að hæstv. samgrh. kannaði ítarlega hvað íslenskar flugvélar og íslensk mannlíf eru lánuð í til þess að ala á vígbúnaðarkapphlaupi í heiminum. Við höfum nú síðustu daga horft með skelfingu á það, að sovéskir kjarnorkukafbátar eru í skerjagarði úti í Svíþjóð. Menn hafa eðlilega af þessu þungar áhyggjur. Hins vegar er sorglegt til þess að vita, að slíkur atburður skuli verða til þess að menn standi sigri hrósandi í dagblöðum á Íslandi. Þarna sjáið þið, segja þeir. Þessi atburður er notaður til þess að níðast á friðarhreyfingunni í heiminum og því fólki sem vill hafa frið við aðrar þjóðir.

Það virðist hins vegar ekki hvarfla að neinum, hvorki hér á hinu háa Alþingi né annars staðar, að við kynnum að hafa slík tól hér allt í kringum okkur. Ég hlýt að spyrja — ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. er staddur hér inni — hvort hann sé alveg viss um að ekki kynnu að vera óboðnir gestir hér í hafinu í kringum okkur, hvort sem væri frá Sovétríkjunum eða frá Bandaríkjunum. Ég geri ekki mikinn mun á því hvaðan þeir væru, ég hygg að hættan af þeim væri hin sama.

Ég held að sú umr., sem hér hefur farið fram, ætti að verða til þess, að menn færu að tala saman í alvöru um þær skelfingar, sem verið er að fremja í heiminum, og hætta að bítast um hvort þessi er verri en hinn. Ég held að allur þingheimur viti t. d. að Líbýumenn eiga ekki upp á pallborðið meðal þeirra þjóða sem telja sig þokkalega siðaðar. En það er kannske ekki aðalatriðið.

Mér finnst ekki heldur að menn eigi að ræða hér um hvort við eigum viðskiptahagsmuna að gæta við hina eða þessa. Auðvitað getur hvert þjóðland sýnt þann manndóm að flytja ekki vopn á milli þjóða. Ef íslensk flugfélög eru svo illa farin að þau þurfi á þess háttar flutningum að halda, þá held ég að það ætti a. m. k. að takmarka flugleyfi rétt í svipinn og fækka flugvélum.

Ég vil líka spyrja hvort samgrh. sé ljóst að starfsfólkið, sem sett er upp í þessar flugvélar, hafi í raun og veru fulla hugmynd og rétta vitneskju um þann farm sem verið er að flytja. Ég vil jafnvel spyrja hvort flugstjórarnir hafi það. Ég held að það sé ákaflega auðvelt að skrifa hvað sem er utan á þann flutning sem verið er að setja inn í íslenskar flugvélar, og kannske er það mönnum heldur til hróss að sjá ekki við því þó að þar sé eitthvað annað af því tagi sem merkt er sprengiefni, eins og fram hefur komið.

Ég held að samgrh. beri skylda til — og hann hefur áreiðanlega sent menn utan af minna tilefni en að úr skugga sé gengið um hvort þetta er rétt. Ég tek undir þær efasemdir, sem hér hafa verið settar fram, að verið sé að flytja til Líbýu einhver efni, sem kölluð eru sprengiefni án þess að þau séu sannanlega ætluð til hernaðarþarfa. Ég held að það sé mjög þarflegt að ræða þessi mál á þessum grundvelli, en ekki á þeim venjulega pexgrundvelli, hvort sprengiefni kemur þaðan eða héðan. Það er jafnhættulegt hvaðan sem það kemur. Ég vil enn og aftur skora á samgrh. að gefa Alþingi miklu betri og gleggri skýrslu um þetta mál heldur fyrr en seinna.